Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 22. júní 2024 kl. 06:05

Þurfum að byrja strax á næsta verkefni

Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segist glöð í hjartanu að sjá hversu allt hafi gengið vel undanfarið.

„Þetta var æðisleg vika og heppnaðist vel. Veðrið var svo gott og þá voru margir skemmtilegir viðburðir. Þetta var frábær vinna hjá menningarstarfsfólkinu okkar og þeim hópum sem komu að þessu. Þau hafa staðið sig vel með barna- og ungmennahátíðina en þetta var næsta verkefni, risastór heil vika með fullt af ígrunduðum viðburður og eitthvað fyrir alla. Það var gaman alla daga, svo ég tali nú ekki um tónleikana á þaki Hljómahallar. Þeir tókust rosalega vel og ég er eiginlega bara orðlaus. Ég heyrði í okkar allra besta Sverri Bergmann, sem var þarna uppi á þaki, og hann heldur að það hafi verið 1500 til 2000 manns á svæðinu þegar mest var. Ég fæ bara hlýtt í hjartað yfir því að fólkið okkar sé að mæta svona vel á skipulagða viðburði,“ segir Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, í viðtali við Víkurfréttir að aflokinni afmælisviku Reykjanesbæjar, þar sem 30 ára afmæli bæjarins var fagnað. Guðný Birna sagðist alsæl eftir afmælisvikuna.

Plötuð í pólitík

Hvað fékk þig til að fara að stússast í pólitík?

„Ég var eiginlega plötuð í þetta fyrir tíu árum síðan. Ég mætti þá í viðtal hjá Hauki Guðmundssyni sem fékk mig til að ganga í Samfylkinguna og taka annað sætið á framboðslista í bæjarstjórnarkosningum. Ég lét til fallast en það hefur verið mitt lífsmottó að taka vel í hlutina og prófa nýja hluti og hafa gaman af öllu. Ég slysaðist í þetta en sem betur fer kann ég vel við mig. Þetta er búin að vera ótrúleg ferð, vegferð að taka við Reykjanesbæ á erfiðum tímum og núna tíu árum síðar að sjá hvert bærinn er kominn, orðinn 30 ára þar sem hefur verið rosaleg fólksfjölgun og mikið um að vera. Ég er bara glöð í hjartanu að sjá hversu vel þetta hefur gengið undanfarin ár. Ég er heppin að hafa unnið með góðu fólki og við eigum frábært starfsfólk hjá bænum okkar. Það eru allir metnaðarfullir að gera okkur æðisleg og við erum á þannig vegferð.“

Þið hafið fengið fullt af verkefnum í hendurnar?

„Já, heldur betur. Og núna á miðju þriðja kjörtímabili var ég að vonast til að við gætum farið í gæluverkefni og eyða peningum í eitthvað gleðilegt, en þá lendum við í þessum hörmungum sem húsnæðisskemmdirnar voru, bæði í Holtaskóla og Myllubakkaskóla. Reyndar í fleiri stofnunum einnig. Ég kalla þetta hörmungar, því þetta er búið að vera mjög erfitt og gríðarlega kostnaðarsamt og flókið. Við erum með starfsfólk og nemendur út um allan bæ en sem betur fer erum við að sjá fyrir endann á þessu. Við settum alla okkar áherslu á að laga þessi hús og gera byggingarnar heilsusamlegar vistarverur fyrir okkar allra besta fólk. Það hefur verið okkar fókuspunktur núna.“

Endurnýja byggingar og fjölga

Guðný Birna nefnir einnig þann uppbyggingarfasa að fjölga rýmum á hjúkrunarheimilum, uppbyggingu í leikskólamálum en verið er að byggja tvo nýja leikskóla í Reykjanesbæ og gera gamla barnaskólann við Skólaveg 1 að útibúi frá Tjarnarseli. „Á sama tíma og við erum að endurnýja byggingar, þá erum við líka að fjölga þeim. Þetta er búið að vera snúið og ég hlakka til að þetta klárist.“

Hvernig er samstarfið í bæjarstjórninni?

„Mér finnst það gott. Auðvitað erum við ósammála um ákveðna hluti en svona í grunninn erum við af þeim góða vilja gerð að við viljum gera bæinn okkar betri. Aðferðirnar geta verið mismunandi og það er allt í lagi en í heildina stöndum við okkur vel saman. Auðvitað kemur upp ágreiningur en við getum rætt okkur niður á lausnir og í heildina er bara gott samstarf verð ég að segja.“

Hver er helsta áskorunin sem Reykjanesbær er að takast á við núna?

„Það er fólksfjölgunin. Grunnskólarnir eru orðnir mjög fullir og við þurfum að fara að byggja fleiri grunnskóla. Sá næsti verður á Ásbrú en við þurfum einnig að fara að huga að þeim næsta á eftir honum. Við erum að byggja upp mjög hratt og það verður áskorun að innviðir passi við þennan fólksfjölda.

Við höfum tekið á móti mjög mörgum Grindvíkingum og það eru grindvísk börn í öllum okkar skólum, sem er bara frábært. Um leið og við náum að gera eitthvað, þá þarf um leið að fara að huga að næsta. Það er ekki staðreynd hjá Reykjanesbæ að geta byggt leikskóla og sagt að við séum góð næstu fjögur eða fimm ár. Reyndin hefur verið að við þurfum að byrja strax á næsta verkefni, fólksfjölgunin hefur verið þannig. Aðrir ríkisinnviðir, heilsugæsla eða lögregla, þetta hefur ekki talað saman miðað við þann fjölda sem við erum að sjá og hversu hratt við erum að stækka. Við höfum svolítið þurft að afgreiða þetta allt á hlaupum til að taka vel á móti öllu þessu fólki, sem við viljum vissulega geta.“

Það kom fram í ávarpi á þjóðhátíðardaginn í Reykjanesbæ að íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um yfir 120% frá stofnun sveitarfélagsins. Þetta eru tölur sem ekki eru að sjást hjá öðrum byggðarlögum á landinu. Fjölgun í sveitarfélögum er eitt til þrjú prósent á ári og því haft ákveðinn slaka í uppbyggingarfasanum.

„Það höfum við ekki haft. Við þurfum að vera fljót að hugsa, vera á tánum og bregðast skjótt við. Það hefur einkennt okkur undanfarið.“

Hér er æðislegt að vera

Hvers vegna ætti fólk að setjast að í Reykjanesbæ?

„Vegna þess að við erum best. Nei, hér er bara æðislegt að vera. Ég nefndi það í ræðu minni á þjóðhátíðardaginn að börnin mín eru fjórði ættliðurinn í minni fjölskyldu sem býr hér. Það er stutt í allt en ekki þetta öngþveiti sem er á höfuðborgarsvæðinu. Hér er góð þjónusta og skólakerfið er frábært. Við erum ofboðslega góð í íþróttastarfinu okkar og eigum frábæra íþróttahreyfingu alveg sama hvert horft er, hvort sem það er körfuboltinn, fimleikar eða sund. Við viljum bara gera hlutina vel og náum því langoftast. Við tökum vel á móti fólki og hér er náungakærleikur. Hér er bara gott að búa.“

Þú ert búin að vera tíu ár í póli-tíkinni. Þegar ég ætlaði að fá þig til viðtals í síðustu viku þá varstu bara komin inn á Alþingi og nóg að gera. Hvernig er að setjast á þing?

„Ég hef verið að lista til Alþingis tvisvar sinnum. Ég var núna í þriðja sæti Samfylkingar í Suðurkjördæmi og því annar varaþingmaður Oddnýjar Harðardóttur. Varaþingmaður hennar gat ekki tekið sæti fyrir Oddnýju í síðustu viku og þá var ég kölluð til. Það er alltaf áhugavert að setjast á þing og ég hef kosið að vera á lista sem varaþingmaður til að geta tekið sæti á þingi og talað máli Reykjanesbæjar inni á Alþingi Íslendinga. Ég nýti hvert tækifæri þegar það býðst til að leggja áherslu á hvað við erum að upplifa og sérstaklega fjárframlög til okkar. Ég þreytist seint á að vekja athygli á því.“