Fimmtudagur 21. janúar 2021 kl. 20:25

Þorrinn, heilsan, Básendar og gefins bíll í Suðurnesjamagasíni

Suðurnesjamagasín er fjölbreytt og skemmtilegt í upphafi Þorra. Í þættinum smökkum við þorramat, förum í heilsueflingu í Reykjanesbæ, sjáum bílagjöf og kynnum okkur söguna um mikið óveður fyrir tveimu öldum sem lagði Básenda í eyði í miklu sjávarflóði.

Bílaleigan Blue Car í Reykjanesbæ setti í gang leik á samfélagsmiðlum í desember þar sem bíll, nýlegur Dacia Duster var í boði undir heitinu „Átt þú hann skilið“. Mörg þúsund umsóknir bárust á heimasíðu fyrirtækisins en það var síðan ungt par með tveggja ára dreng sem glímir við sjaldgæfan sjúkdóm sem fékk bílinn. Við fylgjumst með afhendingu gjafarinnar í þættinum

Bóndadagurinn er í þessari viku og markar upphaf Þorra og þá borða Íslendingar þorramat, súra hrútspunga, svið og íslenskan gamaldags mat. Á Suðurnesjum hafa nokkur þúsund manns sótt vinsæl þorrablót undanfarin ár. Þau verða hvergi núna en líkalega verða nokkur miklu minni í heimahúsum. Einn þeirra sem þarf að hjálpa til í því er Magnús Þórisson matreiðslumeistari og hans fólk á Réttinum í Keflavík. Hann setti þorramat í trog og tók á móti sjónvarpsmönnum með súrum pungum.

Ívar Gunnarsson, videobloggari og áhugamaður um útivist, kynnti sér sögusviðs eins mesta óveðurs sem orðið hefur á Íslandi en það varð í janúar fyrir 222 árum. Hann fer á sögusvið Básendaflóðsins 1799 í þætti vikunnar.


Heilsuefling eldri borgara á Suðurnesjum hefur gengið afar vel og líka vakið athygli. Dr. Janus Guðlaugsson hefur unnið frumkvöðlastarf í heilsueflingu 65 ára og eldri með góðum árangri og hann fékk sinn stóra hóp sem stundar heilsueflingu í Reykjanesbæ í salinn í upphafi vikunnar. Við vorum þar.

Við sláum svo botninn í Suðurnesjamagasín vikunnar með tveimur jákvæðum fréttum úr samfélaginu suður með sjó.