Fimmtudagur 5. desember 2019 kl. 20:30

Þjónustumiðstöð, jólaland og fallegt handverk í Suðurnesjamagasíni VF

Ný þjónustumiðstöð Sveitarfélagsins Voga er til umfjöllunar í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta að þessu sinni. Í þjónustumiðstöðinni er einnig staðsettur fyrsti slökkvibíllinn sem hefur fast aðsetur í Vogum. Með því að staðsetja bíl í Vogum styttist viðbragðstími slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja um allt að 10 mínútur ef eldur kemur upp í Vogum.

Í þætti vikunnar kíkjum við einnig í Duus Handverk í Grófinni í Keflavík og sjáum hvað þar er til sölu.

Í síðari hluta þáttarins sýnum áhorfendum innslag sem var unnið fyrir síðustu jól en þá heimsóttum við Ellert Grétarsson náttúruljósmyndara og jólabarn og fylgdumst með honum smíða jólaland. Frábært innslag sem á fullt erindi nú á aðventunni.

Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar og vf.is á fimmtudagskvöldum kl. 20:30.