Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 5. september 2019 kl. 20:30

Reykjanesbær á tímamótum í Suðurnesjamagasíni kvöldsins

Hver er staða Reykjanesbæjar í dag á 25 ára afmæli bæjarins? Svarið er að finna í Suðurnesjamagasíni sem er á dagskrá vf.is og Hringbrautar í kvöld, fimmtudagskvöld kl. 20:30. Páll Ketilsson tók bæjarstjórann, Kjartan Má Kjartansson, tali í vikunni.

Í viðtalinu er farið yfir stöðu mála hjá Reykjanesbæ sem fyrir 25 árum varð til við sameiningu Keflavíkurbæjar, Njarðvíkurbæjar og Hafnahrepps. Í bænum búa núna ríflega 19.000 íbúar og fjórðungur þeirra eru erlendir ríkisborgarar, flestir frá Póllandi.

Keflavíkurflugvöllur er risastór vinnustaður í heiðinni ofan við bæinn. Þar vinna fjölmargir íbúar Reykjanesbæjar og flugvöllurinn hefur einnig haft mikið að segja um þá íbúafjölgun sem orðið hefur í Reykjanesbæ á síðustu árum.

Kjartan Már kynnir fyrir áhorfendum Suðurnesjamagasíns stærstu framkvæmd sveitarfélagsins til þessa. Það er bygging Stapaskóla í Innri Njarðvík. Fullbyggður mun skólinn kosta um fimm milljarða króna.

Í viðtalinu er einnig fjallað um stöðu mála í Helguvík. Þar er kísilver Stakksbergs sem margir bæjarbúar eru ósáttir við.

Að endingu er svo rætt um fjármál bæjarins og stöðuna í dag en undanfarin ár hefur bæjarstjórnin unnið að mikilli endurskipulagningu fjármála bæjarins.

Suðurnesjamagasín er eins og fyrr segir á dagskrá Hringbrautar í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20:30.