Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
fimmtudaginn 11. nóvember 2021 kl. 15:59

Suðurnesjamagasín: Tíu milljónir til góðra málefna á Suðurnesjum

Bílaleigan Blue Car Rental, sem er í eigu hjónanna Magnúsar Sverris Þorsteinssonar og Guðrúnar Sædal Björgvinsdóttur, blés til heljarinnar Oktoberfest-veislu í lok október. Öllu var til tjaldað til en rúmlega 400 boðsgestir sóttu viðburðinn í ár en þetta er í annað skiptið sem Blue heldur slíkan viðburð. Tíu milljónir söfnuðust og runnu til góðgerðaraðila á Suðurnesjum.

Oktoberfest Blue Car Rental fór fram í húsnæði fyrirtækisins að Hólmbergsbraut. Fór sprautu- og rúðuverkstæði fyrirtækisins í gegnum allsherjar umbreytingu og þegar búið var að klæða veggi og loft með dúkum og setja inn svið, bari, trébekki og borð og skreyta salina mátti varla sjá að þar væri rekið eitt stærsta sprautuverkstæði á Suðurnesjum. Dagskrá kvöldsins var öll hin glæsilegasta en fyrir utan atriði frá gestgjöfunum sjálfum mætti Leikfélag Keflavíkur með Rúnna Júl syrpu, Skítamórall tróð upp og að lokum spilaði hljómsveitin Albatross fyrir dansi. Veislunni var stýrt af heimamanninum Örvari Kristjánssyni og þá sá Magnús Þóris og hans fólk á Réttinum um að fólk færi ekki svangt heim.

Oktoberfest Blue Car Rental í ár var „Góðgerðarfest“ þar sem fyrirtækjum og einstaklingum bauðst að taka þátt í að styðja góð og þörf málefni í nærsamfélagi Blue Car Rental en fyrirtækið leggur gríðarlega mikið upp úr samfélagslegri ábyrgð sinni og er duglegt að styðja við bakið á hinum ýmsu málefnum. Í aðdraganda kvöldsins og á kvöldinu sjálfu söfnuðust alls tíu milljónir króna frá fyrirtækjum og einstaklingum. Var sú upphæð látin renna til sex aðila að þessu sinni; Minningarsjóðs Ölla, Minningarsjóðs Ragnars Margeirssonar, Velferðarsjóðs Suðurnesja, Hæfingastöðvarinnar, fæðingadeildar HSS og Gleym mér ei.

Fjallað er um viðburðinn í Suðurnesjamagasíni sem sýnt er á Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30. Í myndskeiðini með fréttinni má sjá hluta úr innslaginu um „Góðgerðarfestið.“