Stúdíó Paradís, skák, söngelsk systkini og karlakór í Suðurnesjamagasíni
Suðurnesjamagasín er komið á kreik á nýjan leik eftir stutt frí. Þátturinn verður aðgengilegur á vef og samfélagsmiðlum Víkurfrétta.
Í þætti vikunnar er farið um víðan völl á Suðurnesjum. Við hefjum leikinn á fjölmennu skólaskákmóti Suðurnesja sem fram fór í Stapaskóla í síðustu viku. Úr skákinni förum við í Stúdíó Paradís sem er í sveitasælu rétt við Sandgerði. Þar hittum við fyrir Jóhann Ásmundsson, sem er bassaleikari hinnar þekktu hljómsveitar Messoforte.
Úr hljóðverinu í Suðurnesjabæ höldum við til Grindavíkur og tökum hús á tónelskum systkinum hjá Vísi hf. Þau hafa haldið tónleika í tengslum við Sjóarann síkáta og halda heiðri foreldra sinna á lofti.
Frá Grindavík höldum við svo á tónleika hjá Karlakór Keflavíkur. Kórinn mun fagna 70 ára afmæli í haust en er byrjaður að hita upp fyrir hátíðina sem þá verður með vortónleikum. Við flytjum ykkur eitt lag af tónleikunum.
Í lok þáttar segjum við ykkur svo frá miðlum Víkurfrétta og helstu efnistökum. M.a. sýnum við ykkur frá golfi í Suður-Afríku sem golfvefurinn Kylfingur.is kynnti sér nýverið.
Suðurnesjamagasín er sjónvarpsþáttur framleiddur af Víkurfréttum og hefur verið í sjónvarpi í rúman áratug. Þessi þáttur er númer 439. Alla þættina má sjá á Youtube-rás Sjónvarps Víkurfrétta. Þættirnir í heild sinni og stök innslög úr þáttunum má einnig sjá á vef Víkurfrétta, vf.is.