Sunnudagur 27. mars 2022 kl. 08:46

Skólinn á ríkan sess hjá Njarðvíkingum

Njarðvíkurskóli er 80 ára um þessar mundir en skólinn var stofnaður 1942. Skólinn er heildstæður grunnskóli með yfir 400 nemendur í 1.–10. bekk og rúmlega 100 starfsmenn. Njarðvíkurskóli er umhverfisvænn grunnskóli sem leggur áherslu á lestrarnám upp allan grunnskólann. Skólinn hefur undir sinni stjórn tvær sérdeildir sem þjóna öllum Suðurnesjum nema Grindavík. Önnur deildin, Ösp, er ætluð þroskaskertum og fötluðum nemendum og starfa þar kennarar, þroskaþjálfar ásamt stuðningsfulltrúum. Hin deildin, Björk, er ætluð nemendum með hegðunarerfiðleika sem yfirleitt eru tímabundið í deildinni.

Ásgerður Þorgeirsdóttir er skólastjóri og Guðný Björg Karlsdóttir aðstoðarskólastjóri.

Þemadagar í tilefni af 80 ára afmæli Njarðvíkurskóla fóru fram í vikunni. Árgangar unnu stigskipt að ýmsum skemmtilegum verkefnum sem tengjast sögu skólans og afmælishátíð hans. Nemendur mættu í grænu fyrri daginn og sparilega klædd seinni daginn. Boðið var uppá afmælisköku og ískalda mjólk í boði MS. Nemendur í 10. bekk borðuðu kökuna með starfsmönnum á kaffistofu starfsmanna. Myndakassi var á sal þar sem nemendur tóku einstaklingseða hópmyndir. Slegið var upp frábæru danspartý í íþróttahúsinu þar sem Emmsjé Gauti kom og hélt uppi stuðinu.

Útsendarar Víkurfrétta voru í danspartýinu þar sem stemmningin var mynduð fyrir bæði blað og í sjónvarpsinnslag fyrir Suðurnesja-magasín. Þar var m.a. rætt við Ásgerði Þorgeirsdóttur, skólastjóra.

Er fjör á 80 ára afmæli Njarðvíkurskóla?

„Já, það er búið að vera mikið fjör og gleði núna síðustu daga. Það hafa verið þemadagar í tilefni af 80 ára afmæli skólans. Við höfum ekki sérstakan afmælisdag en höldum upp á tímamótin á afmælisárinu.“

Hvað hafið þið verið að gera?

„Nemendur hara verið að vinna undir stjórn kennara og annara í skólanum. Hér voru allir í grænu því grænn er okkar litur. Við höfum unnið ýmis verkefni í tengslum við afmælið. Við höfum verið að skreyta skólann og koma honum í afmælisbúning og höfum við boðið upp á afmælisköku og endum svo með þessu danspartýi hér í íþróttahúsinu þar sem við fengum Emmsjé Gauta á svið.“

Hvernig er að vera skólastjóri í 80 ára gömlum skóla?

„Það er ótrúlega gaman og það er heiður að fá að stjórna þessum rótgróna skóla í þessu bæjarfélagi. Njarðvíkurskóli á ríkan sess í þessu hverfi og heitir eftir hverfinu. Það eru ekki margir skólar sem heita eftir bæjarhlutum. Skólinn nýtur mikils velvilja í grenndarsamfélaginu okkar.“

Gengur vel?

„Já, það gengur mjög vel. Þetta er stór stofnun og hér eru líka reknar nokkrar deildir eins og sérdeildin Ösp og Björk, þannig að hér er fjöldi starfsmanna mikill. Hér eru á milli 410 til 420 nemendur og um 100 starfsmenn vegna deildanna. Þetta er frábært starfsfólk og flottir nemendur. Allir leggjast á eitt um að þetta gangi vel.“

Ásgerður segir að kórónuveiru-faraldurinn hafi reynt á og það hafi allir verið orðnir spenntir fyrir afmælisgleðinni nú í lok Covid-tímans. Hún segir að starfsemin hafi verið áskorun á veirutímanum. „Okkur lagðist alltaf eitthvað til á hverju tímabili. Við komumst í gegnum þetta og horfum nú til bjartari tíma“.

Finnst þér breyting á krökkunum í dag miðað við þegar þú byrjaðir við skólann?

„Nei. Börn eru alltaf börn. Það er bara gaman að sjá hvað við eigum flotta krakka og hvað nemendur eru flottir. Ungdómurinn okkar er virkilega flottur. Við eigum að gefa þeim tækifæri og útbúa umhverfi þannig að þau nái að blómstra, það skiptir mestu máli.“

Ásgerður segir að kórónuveiru-faraldurinn hafi reynt á marga í skólanum. Það hafi þurft að senda nemendur ítrekað í sóttkví og hún hafi haft áhyggjur af því. „Vonandi komum við heil út úr þessu,“ segir hún.