Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 26. maí 2023 kl. 18:16

Skipafloti Landhelgisgæslunnar verður í Njarðvíkurhöfn

-viljayfirlýsing undirrituð af dómsmálaráðherra og fulltrúum Landhelgisgæslunnar og Reykjaneshafnar

Viljayfirlýsing um uppbyggingu á framtíðaraðstöðu fyrir skipaflota Landhelgisgæslunnar í Njarðvíkurhöfn var undirrituð af dómsmálaráðherra, fulltrúa Landhelgisgæslunnar og Reykjaneshafnar á Marriott hótelinu í Reykjanesbæ í dag, föstudaginn 26. maí.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra segir að um sé að ræða framtíðarlausn fyrir skipaflota gæsluna og að eftir um það bil tvö til þrjú ár verði skipaútgerð Landhelgisgæslunnar alfarið flutt í Njarðvíkurhöfn en gæslan fagnar aldarafmæli í júní 2026. 

Auðunn Kristjánsson hjá Landhelgisgæslunni segist fagna þessari ákvörðun og verði mikil bylting fyrir stofnunina og eitt skrefið í að efla starfsemi gæslunnar. Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri í Reykjanesbæ segist afar ánægður með að þessi áfangi sé nú að komast í höfn. Hugmyndin hafi fyrst komið upp fyrir fimm árum síðan.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri segir að þessi skipaklasahugmynd eigi eftir að hafa mikil og jákvæð áhrif á Suðurnesjum, á atvinnulífið og menntun.


Á myndinni eru f.v. Auðunn Kristjánsson frá Landhelgisgæslunni, Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, Halldór Karl Hermansson, hafnarstjóri og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar undirrituðu viljayfirlýsingu um framtíðarhöfn skipaflota Landhelgisgæslunnar. VF-mynd/pket.