Föstudagur 20. september 2019 kl. 10:16

Sjónvarpsfréttir Víkurfrétta

Það er alltaf eitthvað að frétta frá Suðurnesjum. Fáum hér fréttapakka frá Víkurfréttum úr Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta þann 19. september.

NÝR GÖNGUSTÍGUR MILLI GARÐS OG SANDGERÐIS

Skipulags- og umhverfissviði Suðurnesjabæjar hefur verið falið að undirbúa útboð og grenndarkynningu vegna framkvæmdar á göngustíg á milli Garðs og Sandgerðis. Stígurinn er samstarfverkefni Suðurnesjabæjar og Vegagerðarinnar og er gert ráð fyrir að hann verði 2,5 metrar að breidd, blandaður göngu- og hjólreiðastígur.
Stígurinn verður lagður samhliða þjóðveginum á milli Garðs og Sandgerðis en um fjórir kílómetrar eru á milli byggðarkjarna Garðs og Sandgerðis sem urðu sameinað sveitarfélag við síðustu sveitarstjórnarkosningar. Íbúar hafa óskað eftir stígnum en þjóðvegurinn milli bæjarhlutanna er þröngur og varasamur fyrir hjólandi og gangandi umferð.

STEINÞÓR FRAMKVÆMDASTJÓRI KÖLKU

Stjórn Kölku sorpeyðingarstöðvar hefur ráðið Steinþór Þórðarson sem framkvæmdastjóra Kölku sf. úr hópi 30 umsækjenda. Steinþór tekur við starfinu af Jóni Norðfjörð, sem gegnt hefur starfinu síðastliðin átta ár. Steinþór kemur til Kölku frá PCC BakkiSilicon á Húsavík.

BÓKASAFNIÐ VERÐLAUNAÐ

Verkefni Bókasafns Reykjanesbæjar „Saumað fyrir umhverfið“ fékk í síðustu viku Hvatningarverðlaun Upplýsingar, sem er fagfélag á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á Bókasafnsdeginum 2019. Verkefnið hefur verið í gangi í Bókasafninu um árabil undir stjórn Guðnýjar Kristínar Bjarnardóttur, bókasafns- og upplýsingafræðings. Í verkefninu hafa verið saumaðir taupokar í Pokastöð, sem hefur það að markmiði að draga úr notkun plastpoka. Verkefnið var stór liður í Ljósanótt þetta árið, þar sem plastlausum áherslum var haldið á lofti.

HÖFNIN Í SAMSTARF VIÐ JARÐVANGINN

Reykjaneshöfn og Reykjanes UNESCO Global Geopark undirrituðu nýverið samstarfssamning. Þar með er Reykjaneshöfn orðinn stoltur samstarfsaðili jarðvangsins, eins og Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri komst að orði við undirritun. Sem samstarfsaðili hefur Reykjaneshöfn heimild til að nota sérhannað samstarfsmerki Reykjanes Geopark í markaðssetningu starfsemi hafnarinnar gagnvart smærri skemmtiferðaskipum. Einnig mun Reykjanes Geopark kynna samstarfsfyrirtækið á sama hátt og fyrirtækið mun kynna Reykjanes Geopark.

Á AÐRA MILLJÓN Í GRINDHVALI

Kostnaður sem fallið hefur á Suðurnesjabæ vegna grindhvalavöðu sem synti upp í fjöru við Útskála í byrjun ágúst er um 1,2 milljónir króna. Um fimmtíu hvalir syntu í strand í fjörunni og hófust þá miklar björgunaraðgerðir. Um 30 hvölum tókst að bjarga en aðrir drápust eða voru aflífaðir. Björgunarsveitin Ægir í Garði var með mikinn viðbúnað vegna hvalastrandsins og sá m.a. um að sökkva hræjum dauðra hvala í Garðsjónum.

FJÁRFRAMLÖG EKKI FYLGT ÍBÚAÞRÓUN

Aukning fjárframlaga ríkisins til stofnana og verkefna á Suðurnesjum hefur engan veginn fylgt mikill íbúafjölgun á svæðinu en á árunum 2015-2019 hefur íbúum fjölgað um 23,1% sem er lang mesta fjölgunin á landinu. Í ályktun frá aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem fram fór um síðustu helgi er bent á þetta misræmi og ríkisvaldið hvatt til að tryggja aukningu á fjárframlögum til Suðurnesja. Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja að fjárframlög til ríkisstofnanna t.d. Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Lögreglunnar á Suðurnesjum fylgi þróun mannfjölda á svæðinu.

DREGUR ÚR ELDSNEYTISINNFLUTNINGI

Innflutningur á flugvélaeldsneyti um Helguvíkurhöfn hefur hrunið á þessu ári. Það sem af er ári hefur 37% minna magn eldsneytis farið um olíuhöfnina í Helguvík miðað við sama tíma í fyrra. Allir eldsneytisflutningar fyrir Keflavíkurflugvöll fara um olíuhöfnina í Helguvík. Með minni innflutningi á eldsneyti hafa tekjur hafnarinnar einnig dregist saman. Þannig hafa tekjur vegna innflutnings á eldsneyti dregist saman um 30% það sem af er ári.

ORLIK RIFINN

Togaranum Orlik hefur nú verið komið fyrir innan hafnarinnar í Njarðvík þar sem undirbúningur fyrir förgun skipsins er unnin. Togarinn hefur verið sem þyrnir í augum þar sem hann hefur grotnað niður í höfninni í Njarðvík síðustu fimm ár. Fjarlægja þarf mengandi efni úr skipinu og taka af því yfirbyggingu áður en skrokkur Orlik verður dreginn upp í fjöru við Skipasmíðastöð Njarðvíkur þar sem skipinu verður endanlega fargað. Myndirnar voru teknar þegar skipinu var komið fyrir innan hafnarinnar í Njarðvík á dögunum.