Þriðjudagur 16. október 2018 kl. 10:00

Sjónvarp: Skórnir hans Helga slá í gegn

Jordan skór hans fóru í framleiðslu - parið á 120 þúsund

Garðbúinn Helgi Líndal hefur lengi haft áhuga á fötum og fatahönnun. Undanfarið hafa skór átt hug hans allan en hann hefur vakið athygli fyrir áhugaverða hönnun sína. Hinn 18 ára Helgi er á listabraut í textílnámi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann stefnir á að leggja hönnun fyrir sig enda ljóst að þetta leikur í höndunum á honum.

Á dögunum sótti hann skónámskeið í New York hjá Dominic Ciambrone, oft nefndur the shoe surgeon, eða skó-skurðlæknirinn upp á okkar ástkæra ylhýra. Helgi hannaði þar og saumaði sína útgáfu af fyrstu körfuboltaskóm Michael Jordan sem þykja klassískir í skóheiminum. Útgáfa Helga þótti takast það vel að hann vann netkosningu þar sem skórnir fóru í kjölfarið í tímabundna framleiðslu. Skóna kallar hann hina íslensku Air Jordan 1. Voru skórnir til sölu fyrir rúmar 120 þúsund krónur. 

„Ég bjóst aldrei við því að vinna þessa keppni en ég var að vonast til þess. Mig langar bara að fara út í háskóla og læra fatahönnun. Ef ég vill fara í eitthvað sértækara þá færi ég í skósmíðina,“ segir Helgi en hann dreymir um að eignast sitt eigið fatafyrirtæki og hanna sína eigin línu. Sjá má viðtal við Helga úr Suðurnesjamagasíni hér að ofan.