Miðvikudagur 14. desember 2022 kl. 16:39

Sigmaður og læknir sigu úr þyrlu í Garðskagavita

Flug þyrlu Landhelgisgæslunnar við Garðskagavita vakti nokkra athygli fyrr í dag. Þyrlan staðnæmdist yfir Garðskagavita og sigu tveir úr áhöfn þyrlunnar í vitann, sem er hæsta vitabygging á Íslandi, reist árið 1944.

Um hefðbundið æfingaflug var að ræða þar sem hífingar voru m.a æfðar, segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Víkurfréttir. Flugið hófst með því að flogið var út á Reykjanestá og haldið að Karlinum þar sem æfingar sem reyndu á samhæfingu og samvinnu áhafnarinnar fóru fram.

Að þeim loknum var haft samband við fiskiskip, sem var skammt frá, og óskað eftir æfingu með áhöfn þess. Það þótti sjálfsagt og voru tvær hefðbundnar hífingar framkvæmdar af skipinu. 

Þaðan var flogið að Garðskaga og var sigmanni og lækni slakað niður á Garðskagavita og upp aftur áður en haldið var aftur til Reykjavíkur.

Meðfylgjandi myndir tók Þórarinn Magnússon, starfsmaður byggðasafnsins á Garðskaga, af æfingu áhafnar þyrlunnar fyrr í dag.