Fimmtudagur 10. október 2019 kl. 20:30

Sérvirk prótein í byggi, umferðarforvarnir og sjósund í Suðurnesjamagasíni

ORF Líftækni hefur þróað tækni til að framleiða sérvirk prótein í byggi, en aðferðin er afrakstur áratuga vísinda- og þróunarstarfs. Prótein þessi eru notuð sem innihaldsefni í BIOEFFECT húðvörur fyrirtækisins, seld til læknisfræðilegra rannsókna og nýtt í önnur þróunarverkefni fyrirtækisins. Í Suðurnesjamagasíni í þessari viku er gróðurhúsið, Græna smiðja ORF Líftækni, heimsótt en þar hefur verið opnuð gestastofa. Græna smiðjan er vistvænt 2000 fermetra hátækni gróðurhús sem nýtir jarðvarma, íslenskan vikur og hreint, íslenskt vatn til þess að rækta byggplöntur, en hún getur hýst allt að 130 þúsund byggplöntur á sama tíma.

Suðurnesjamagasín kynnti sér einnig forvarnadag ungra ökumanna í Reykjanesbæ. Verkefnið hefur staðið yfir frá árinu 2004 og hefur fram til þessa verið einstakt á Íslandi. Nú er forvarnadagurinn kominn í útrás til annarra bæja á Íslandi. Allt um það í þætti vikunnar.

Þá er farið í sjósund á Garðskaga en sjósundið er talið heilnæmt fyrir líkama og sál.

Suðurnesjamagasín er vikulega á dagskrá Hringbrautar. Þátturinn er á fimmtudagskvöldum kl. 20:30.