Fimmtudagur 7. apríl 2022 kl. 19:30

Sandgerðisskóli og pílukast í Grindavík í Suðurnesjamagasíni

Nemendur Sandgerðisskóla settur á svið leikritið Áfram Latibær í síðustu viku. Í skólanum er einnig verið að vinna að skemmtilegu verkefni um loftlagsmál en nemendur unnu í vikunni með litla báta sem verður komið á Norðurskautið. Þegar ísinn svo bráðnar leggja bátarnir upp í spennandi ferðalag og munu væntanlega reka á fjörur svipað og flöskuskeyti. Allt um þessi verkefni Sandgerðisskóla í þætti vikunnar.

Okkar maður í Grindavík kíkti á pílukastara í Mekka pílunnar á Íslandi og tók saman fróðlegt innslag. Í þættinum tökum við einnig hús á fyrirtækinu Rafholti sem er eitt stærsta rafverktakafyrirtæki landsins og fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir. Þá endum við þáttinn á æfingu á Sálumessu Mozarts, sem flutt verður í Duus Safnahúsum um helgina.

Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar og vf.is á fimmtudagskvöldum kl. 19:30.