Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 4. febrúar 2023 kl. 06:15

Sálumessa eftir Verdi flutt í Stapa 22. febrúar

Óperufélagið Norðuróp og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar ráðast í stórvirki

Óperufélagið Norðuróp og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar munu flytja Sálumessu eftir Giuseppe Verdi í Stapa, Hljómahöll í Reykjanesbæ miðvikudaginn 22. febrúar. Sálumessan er um það bil 90 mínútna langt tónverk fyrir fjóra einsöngvara, kór og sinfóníuhljómsveit og er ein allra þekktasta sálumessa tónbókmenntanna. Verkið er flutt árlega víða um heim en afar sjaldan hér á landi. Suðurnesjamagasín fór á æfingu og ræddi við bræðurna Jóhann Smára og Sigurð Sævarssyni.

Á þessum tónleikum verður verkið flutt af 35 manna sinfóníuhljómsveit, 60 manna kór einsöngsmenntaðra söngvara, langt kominna söngnemenda, tónlistarkennara, þjálfaðra áhugasöngvara og fjórum einsöngvurum. Stapi í Hljómahöll er glæsilegur tónleikasalur með stórt svið, um 400 sæti í sal og á svölum og hljómburður er sérlega góður.

Stjórnandi: Jóhann Smári Sævarsson.

Konsertmeistari: Una Sveinbjarnardóttir. 

Einsöngvarar: Hallveig Rúnarsdóttir, sópran, Guja Sandholt, mezzosópran, Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenór og Keith Reed, bassi.

Óperufélagið Norðuróp stofnaði fyrir nokkrum árum óperustúdíó í Reykjanesbæ í samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Hljómahöll, með uppfærslu á óperunni Brúðkaup Fígarós eftir W. A. Mozart. Verkefnið var opið öllum söngvurum og söngnemendum Tónlistarskólans sem og öðrum efnilegum söngvurum á Suðurnesjum og annars staðar af landinu. Aðstaðan er góð í glæsilegri Hljómahöll.

Eftir mjög vel heppnaða og fjölsótta uppfærslu Óperufélagsins Norðuróps og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á söngleiknum Fiðlarinn á þakinu eftir J. Bock sem sýndur var í Stapa, Hljómahöll, haustið 2019 og þann mikla áhuga þeirra sem tóku þátt í því viðamikla verkefni og eftir vel heppnaðan flutning á Mozart Requiem vorið 2022, þá hefur verið ákveðið að halda samstarfi Óperufélagsins Norðuróps og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar áfram og ráðast í flutning þessa magnaða verks, Sálumessu eftir Giuseppe Verdi.