Fimmtudagur 17. nóvember 2022 kl. 09:32

Reykjanes leikur stórt hlutverk í geimferðaáætlun Íslandsstofu

Reykjanesskaginn leikur stóra rullu í „geimferðaáætlun“ Íslandsstofu en glöggir áhorfendur á nýjustu auglýsingamynd stofunnar geta séð að nokkrir tökustaðir eru einmitt á Reykjanesi. Má þar nefna Kleifarvatn og Reykjanestá.

Ísland er fyrsti áfangastaður í heimi til þess að sækja sérstaklega á hóp geimferðalanga með því að senda auglýsingaskilti út í geim. Aðgerðin er hluti af nýrri herferð fyrir áfangastaðinn Ísland sem nefnist Mission Iceland. Skilaboðin eru einföld: Ísland er betri áfangastaður en geimurinn.

Fjallað er um herferðina á visitreykjanes.is

Herferðin er hluti af markaðsaðgerðum Ísland – saman í sókn. Um er að ræða markaðs- og kynningarverkefni fyrir áfangastaðinn Ísland á völdum erlendum mörkuðum í því skyni að styrkja ímynd Íslands, auka eftirspurn og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Leikstjórn og framleiðsla myndbandsins var í höndum Allan Sigurðssonar, í samstarfi við auglýsingastofuna Peel og bandarísku auglýsingastofuna SS+K sem er hluti af M&C Saatchi samsteypunni. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Íslandsstofu.