Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
þriðjudaginn 7. júní 2022 kl. 09:54

Nýtt lag frá Fríðu Dís

Fríða Dís hefur gefið út nýtt lag sem ber nafnið Cats & Cassettes ásamt textamyndbandi. Cats & Cassettes verður að finna á væntanlegri plötu Fríðu, Lipstick On, sem kemur út í byrjun júlí.

Fríða samdi bæði lag og texta ásamt því að sjá um útsetningu, syngja, spila á bassa og hljóðblanda. Smári Guðmundsson stjórnaði upptökum, spilaði á gítar og sá um útsetningu. Stefán Örn Gunnlaugsson stjórnaði einnig upptökum ásamt því að syngja, leika á hljóðgervla og hljóðblanda lagið. Halldór Lárusson sá um trommuleik í laginu, Soffía Björg Óðinsdóttir, María Rún Baldursdóttir og Viktor Atli Gunnarsson sungu raddir og Sigurdór Guðmundsson hjá Skonrokk Mastering sá um hljóðjöfnun. Lagið er gefið út hjá Smástirni og er nú aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum.