Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 26. júlí 2023 kl. 15:39

Myndskeið: Mikið tjón í eldsvoðanum

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja hefur ráðið niðurlögum elds í iðnanar- og geymsluhúsnæði við Víkurbraut í Keflavík. Neyðarlínan fékk tilkynninu um eldinn í hádeginu í dag og var allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kallað út.

Þegar slökkvilið kom á vettvang var ljóst að mikill eldur var í húsinu og að bálið væri erfitt viðureignar. Í húsnæðinu voru geymdar sex bifreiðar og útilegubúnaður. Einnig var eitthvað af timbri í húsinu og því mikill eldsmatur.

Ráðist var á eldinn úr nokkrum áttum en eldhafið stöðvaði ekki fyrr en það hafði brennt húsnæðið stafnanna á milli. Þá féll þak hússins að stórum hluta.

Slökkviliðsmönnum tókst að verja nálægar byggingar.

Þetta hefur verið annasamur dagur hjá Brunavörnum Suðurnesja, því auk útkallsins á Víkurbrautina hefur verið fjölmennt lið frá slökkviliðinu að aðstoða við að slökkva gróðurelda á gosstöðvunum.

Í myndskeiði hér að ofan má sjá svipmyndir frá slökkvistarfinu.