Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 16. desember 2019 kl. 07:00

Myllubakkaskóli byggður úr 15 kg. af piparkökudeigi

„Ég ætlaði bara að gera piparkökuþorp eins og ég hef gert heima undanfarin ár en mamma misskildi mig eitthvað og hélt að ég ætlaði að gera skólann. Þá fór ég að hugsa svo mikið um það verkefni að ég gat ekki hætt við það,“ segir Finnur Guðberg Ívarsson, nemandi við Myllubakkaskóla, sem nýverið bakaði nákvæma eftirmynd af Myllubakkaskóla úr piparkökudeigi.

Finn Guðberg dreymir um að verða bakari og fer á samning hjá Jóni Arilíusi í Kökulist í Njarðvík á næsta ári.

Fyrir um mánuði síðan fékk Finnur teikningar af Myllubakkaskóla og með reglustikuna að vopni voru teikningarnar stækkaðar í réttum hlutföllum upp á bökunarplöturnar. Hann ákvað að hafa skólann eins stóran og mögulegt væri en Finnur Guðberg hafði aðstöðu í Kökulist í Njarðvík þar sem hann starfar með skóla.

Það tók um 80 klukkustundir að fullklára verkið og í það voru um fimmtán kíló af  piparkökudeigi, eitt kíló af súkkulaði og hálft af flórsykri. Þá er heimagerður brjóstsykur í gluggum og inni í piparkökuskólanum er lýsing sem sjá má í öllum gluggum. Brjóstsykurgluggarnir eru svo festir í með súkkulaði og grýlukerti úr glassúr setja vetrarlegt yfirbragð á piparköku-Myllubakkaskóla.

Deigið er kannski ekki það besta til átu og því á Finnur ekki von á því að skólinn verði borðaður þegar jólin eru afstaðin. Deigið var gert þannig að í því væri sem mestur styrkur til að halda uppi byggingunni. Það er því nokkuð hörð piparkaka undir tönn.

Finnur Guðberg hefur lengi haft áhuga á því að verða bakari en síðustu ár hefur hann bakað piparkökuþorp sem hann hefur heima hjá sér. Það er næsta verkefni Finns núna þegar Myllubakkaskóli er tilbúinn til sýningar. En hvaðan kemur þessi bakstursáhugi?

„Jón bakari í Kökulist bauð mér vinnu fyrir nokkrum árum og eftir að ég byrjaði að vinna við baksturinn hefur í raun ekkert annað komið til greina. Þetta er svo gaman. Pabbi hefur verið með mér í piparkökuhúsagerðinni frá því ég var þriggja ára. Svo hefur þetta farið stækkandi og nú geri ég þetta bara einn.“

Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Finn en líka við Stefán Jónsson, húsvörð sem hefur málað einn vegginn í skólanum svo eftir er tekið.