Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 2. janúar 2020 kl. 20:30

Maður ársins 2019 í Suðurnesjamagasíni

Suðurnesjamagasín að þessu sinni er helgað einu málefni, viðtali við Má Gunnarsson, mann ársins 2019 á Suðurnesjum.

Víkurfréttir hafa í þrjátíu ár staðið fyrir vali á manni ársins á Suðurnesjum og er Már vel að nafnbótinni kominn. Sjónvarpsmenn Víkurfrétta hittu Má og ræddu við hann um sund og tónlist.

Már á sérlega glæsilegt íþróttaár að baki sem náði hámarki á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór í London seint á síðasta ári. Þar varð Már einn Norðurlandabúa til þess að komast á verðlaunapall þegar hann setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 100m baksundi og vann til bronsverðlauna í greininni. Á árinu 2019 setti Már alls 28 Íslandsmet og synti þrívegis undir gildandi heimsmeti á ÍM25 í Ásvallalaug. Már stefnir ótrauður að þátttöku á Paralympics í Tokyo 2020 en takist það ætlunarverk hans verður það í fyrsta sinn sem hann keppir á leikunum.

Már var útnefndur íþróttamaður fatlaðra á Íslandi og hann endaði í 11. sæti í vali á Íþróttamanni ársins á Íslandi. Þá toppaði hann árið á Gamlársdag þegar hann var kjörinn íþróttakarl Reykjanesbæjar 2019.

Már sinnti tónlistargyðjunni einnig af kappi og hélt stórtónleika í upphafi árs, hann ætlar að endurtaka leikinn nú í mars. Þá endaði Már árið skemmtilega þegar hann og Ísold systir hans unnu jólalagakeppni Rásar tvö. Lagið var efst á vinsældalista Rásar tvö síðustu vikuna í desember og næstvinsælast vikuna þar á undan.