Sunnudagur 20. desember 2020 kl. 11:45

Lífið á Vellinum - bók um samskipti heimamanna og Varnarliðsmnna

Í nýrri bók sem er komin í verslanir er sjónum beint að hinu hversdagslega og því persónulega á Vellinum, fólkinu sem bjó þar og samskiptum Varnarliðsmanna við Suðurnesjamenn.

Í nýrri bók er sjónum beint að hinu hversdagslega og því persónulega á Vellinum, fólkinu sem bjó þar og samskiptum Kananna við Suðurnesjamenn. Bókin er nýkomin úr prentvélinni og komin í bókabúðir en einnig er hægt að fá hana í heimsendingu.

Lífið á vellinum er í aðalhlutverki í nýrri bók Dagnýjar Maggýjar en þar er sjónum beint að hinu hversdagslega og því persónulega, að fólkinu sem bjó á vellinum og samskiptum þeirra við Suðurnesjamenn.

„Mér fannst orðið tímabært að skoða þessa sögu á persónulegan hátt og hvíla aðeins hernaðarbröltið,“ sagði Dagný en bókin er byggð á lokaverkefni hennar til meistaragráðu við Háskóla Íslands þar sem hún leitaðist við að skoða menningarleg áhrif veru varnarliðs á Suðurnesjum í hálfa öld. Í því skyni setti hún upp sýninguna Íbúð Kanans í SP húsunum á vellinum sem sló í gegn og stóð samfleytt frá 2013 til 2016. 

„Þar fékk ég svo margar spurningar og áhugaverðar sögur frá gestum sem sannfærði mig um að það væri orðið tímabært að skrifa þessa sögu þó það væri ekki nema til að leiðrétta allar þær mýtur sem orðið hafa til um varnarstöðina í Keflavík.“

Segja má að Bandaríkjamenn, hermenn og borgarar, sem störfuðu í varnarstöðinni á Miðnesheiði hafi verið hluti af daglegu lífi Íslendinga í hálfa öld. Árið 2006 lauk þessum kafla í sögu landsins er síðasti hermaðurinn fór af landi brott en talið er að alls hafi rúmlega tvö hundruð þúsund Bandaríkjamenn starfað eða dvalið hér á landi á vegum varnarliðsins frá upphafi.

„Völlurinn var merkilegt samfélag, eins konar litla Ameríka í túngarði Suðurnesja með sinn eigin gjaldmiðil, amerískt rafmagn og amerískar vörur sem Íslendingar höfðu aldrei séð fyrr. Koma hans hafði gríðarleg áhrif á nágrannasveitarfélögin í kring, ekki bara efnahagsleg heldur einnig menningarleg. Þarna störfuðu Suðurnesjamenn í áratugi, kynntust allt annarri matarmenningu eignuðust ameríska vini og smygluðu amerískum tollfrjálsum vörum niður fyrir völl svo eitthvað sé nefnt.“

Erfið saga

– Hvernig fannst þér fólk upplifa þessa sögu?

„Það er merkilegt hversu lítið hefur verið fjallað um þessa sögu og til að mynda hefur verið erfitt að fá myndir af vellinum sem sýna mannlífið þar, flestar myndirnar eru af hernaðarmannvirkjum og tækjum. Möguleg skýring gæti verið sú að fólki finnst þetta erfið saga, henni hefur fylgt skömm og kannski fellur hún þannig ekki vel að okkar sjálfsmynd. Herinn var alla tíð viðkvæmt málefni bæði af pólitískum ástæðum og menningarlegum og því var umræðan um hann alla tíð á neikvæðum nótum. Herstöðvarandstæðingar fóru í Keflavíkurgöngur og menningarelítan hafði af því áhyggjur að bandarísk áhrif myndu hreinlega eyðileggja íslenska menningu, í það minnsta stórskaða hana. Á sama tíma var Varnarliðið atvinnuveitandi hátt í 2.000 Íslendinga og hafði gríðarleg áhrif á allt hagkerfi á Suðurnesjum. Það kemur því ekki á óvart að Suðurnesjamenn voru frekar jákvæðir í garð varnarliðsins enda áttu menn hagsmuna að gæta en þar kynntust menn líka þessu herliði, sem var mikið til fjölskyldur með börn og sjónarhornið varð því allt annað.“

– En hvað með Bandaríkjamenn, hvernig leið þeim á Íslandi?

„Það kom mér verulega á óvart hversu jákvæðir þeir voru, þeir voru eiginlega vandræðalega jákvæðir. Það eina neikvæða sem þeir nefndu var hörð einangrunarstefna stjórnvalda en það má í raun segja að á fyrstu áratugunum hafi bandarískir hermenn verið hér fangar, lokaðir inni á þessari einangruðu herstöð. Þá vissu þeir vel af andstöðunni við herinn og að þeir væru ekki velkomnir. Hins vegar var náttúran það sem heillaði þá mest en kannski síður veðrið,“ sagði Dagný og hló. „Þeir áttu von á kuldanum en þeir áttu ekki von á myrkrinu og rokinu.“ 

Suðurnesjamenn vilja segja söguna

– Hvernig gekk að fá fólk til þess að deila sögu sinni?

„Það gekk ótrúlega vel. Suðurnesjamenn vilja segja þessa sögu, fyrir þá er hún ekkert vandamál. Ég held að mönnum leiðist líka fordómarnir sem alltaf hafa verið gagnvart vellinum og hafa í raun yfirfærst á öll Suðurnes. Það má ekki gleyma að herinn flýtti fyrir framþróun á ýmsum sviðum og færði okkur alþjóðlega strauma. Hér fæddist körfuboltinn á Íslandi og hér varð rokkið til. Áhrifin eru mikil og við nutum góðs af, svo er annarra að dæma hvort íslensk menning hafi hlotið skaða af.“

Í bókinni er að finna fjölda ljósmynda bæði í einkaeigu og frá Byggðasafni Reykjanesbæjar og víðar og sýna þær fjölbreytt mannlífið á herstöðinni á Miðnesheiði. Hægt er að kaupa bókina í forsölu Facebook-síðunni Lífið á vellinum (facebook.com/lifidavellinum) á 3.500 kr. tilboðsverði og fá hana senda heim að dyrum.