Mánudagur 13. febrúar 2023 kl. 17:04

Léttara að byggja upp börn en að gera við fullorðna

„Hættum að plástra eftir á,“ segir Bjarni Jóhannsson, knatt-spyrnu-þjálfari og íþróttakennari sem er á leiðinni til Noregs að kynna sér afreksþjálfun barna og unglinga og uppbyggingu skólakerfisins þar í landi.

Bjarni, sem er ættaður frá Norðfirði, flutti í Reykjanesbæ árið 1988 þegar gerðist íþróttakennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Eftir að hafa ráðið sig sem íþróttafulltrúa í Mosfellsbæ, og búið þar í þrettán ár, þá fluttist hann aftur til Reykjanesbæjar árið 2005 og hefur búið þar síðan. Þjálfun hefur verið stór partur af lífi Bjarna allar götur frá því að ferillinn hófst á Ísafirði árið 1983 en þangað hafði hann farið sem leikmaður og tók við þjálfun kvennaliðs ÍBÍ. Síðasta þjálfaraverkefni Bjarna var að koma Njarðvíkingum upp í næstefstu deild á síðasta tímabili en hann er leikjahæsti þjálfarinn í meistaraflokki í sögu íslenskrar knattspyrnu. Alls eru skráðir 612 deildarleikir á Bjarna og þar fyrir utan eru auðvitað ótal leikir í bikar og Evrópukeppni auk æfingaleikja – svo í heildina eru leikirnir komnir vel yfir þúsund. Það yrði of langt mál að rekja allan þjálfaraferilinn en hann hefur verið farsæll og nokkrir titlar mætt í hús, auk þess að hafa farið upp um deild með lið sín í fjölmörg skipti. Frægðarsólin skein sjálfsagt hæst þegar hann þjálfaði lið ÍBV og gerði þá að Íslandsmeisturum tvö ár í röð og bikarinn fylgdi með seinna árið, 1998. Samhliða þjálfun þá hefur Bjarni að mestu unnið sem íþróttakennari í Borgarholtsskóla en hann er í námsleyfi þetta ár og er að fara til Noregs í endurmenntun. Þar ætlar hann að kynna sér afreksþjálfun ungmenna en Bjarni hefur sömuleiðis sterkar skoðanir á skólakerfinu í heild sinni. Hann fór aðeins yfir þjálfaraferilinn áður en hann sagði frá því sem blundar í honum.

Flottur þjálfaraferill

„Ég get verið stoltur af mínum þjálfaraferli en honum er þó ekki lokið ef ég fæ einhverju um ráðið. Ég var að klára mitt þrítugasta og fjórða meistaraflokksár síðasta sumar og mig grunar að ég eigi eftir að taka eitt lið í viðbót áður en ferlinum lýkur. Þjálfaraferillinn er búinn að vera farsæll myndi ég segja, bæði hef ég unnið titla og farið með lið upp um deild. Leikirnir eru orðnir 612 og gaman frá því að segja að leikur númer 600 var 29. júní í fyrra, klukkan sex og við unnum KF [Knattspyrnufélag Fjallabyggðar] 6:0. Titlarnir eru eftirminnilegir og ég er stoltur af því að hafa náð að byggja upp ákveðinn grunn hjá liðum sem höfðu ekki haft mikinn stöðugleika og flakkað á milli deilda, t.d. Breiðablik og Stjarnan sem fóru upp í efstu deild undir minni stjórn og festu sig þar í sessi. Þessi lið hafa verið mjög farsæl að undanförnu en ég lagði og legg alltaf mikla áherslu á að hafa umgjörðina í kringum leikmenn mína sem besta. Sömuleiðis hef ég nánast alltaf átt farsælt og gott samstarf við stjórnarfólkið en hvenær ég tek við liði aftur verður bara að koma í ljós. Ég er á leiðinni í nám þar sem ég ætla að kynna mér hvernig Norðmenn huga að sínu unga afreksíþróttafólki, þ.e. hvernig námið fer saman við íþróttaástundunina. Enn fremur að kynna mér uppbyggingu grunnskólakerfisins.“

Bjarni á rúmlega þrjátíu ára starfsferil sem íþróttakennari og hefur sínar skoðanir á skólakerfinu og er jafnvel með byltingarkenndar pælingar um hvernig megi gera hlutina betur. „Það sem vakir helst fyrir mér er að þróa betur afreksíþróttasvið framhaldsskólanna en eftir að framhaldsskólanámið styttist úr fjórum árum í þrjú þá gefur auga leið að afreksíþróttafólk á erfiðara með að sinna íþrótt sinni af sama krafti ef skóladegi lýkur ekki fyrr en seinni partinn. Sem dæmi eru knattspyrnulið mörg hver orðin eins og atvinnumannalið þar sem stundum er æft tvisvar sinnum á dag, fyrst á morgnana og margir efnilegir leikmenn eru í námi og geta ekki sinnt íþrótt sinni sem skyldi m.v. núverandi kerfi. Þess vegna er ég á leiðinni í íþróttaháskólann í Osló til að kynna mér nýjungar í þessum málum. Á Norðurlöndunum er afreksíþróttafólkið tekið út fyrir sviga og námið planað eftir hvernig viðkomandi vill stunda íþrótt sína samhliða því, hvort sem námið tekur þrjú, fjögur eða fimm ár. Þessi sveigjanleiki verður að vera til staðar fyrir íslenska afreksíþróttakrakka. Ég trúi því að ráðning Vésteins Hafsteinssonar hjá ÍSÍ muni hjálpa til en hann hefur verið erlendis lengi og þekkir vel inn á þessi mál,“ segir Bjarni.

Kyrrseta barna vandamál

Kyrrseta barna og hreyfingarleysi er áhyggjuefni í okkar samfélagi í dag. Bjarni hefur sínar skoðanir á þessum málum. „Samfélagið er gjörbreytt frá því sem áður var. Afþreying netmiðla fyrir börn þekktist ekki hér áður fyrr, sem hefur valdið meira hreyfingarleysi. Foreldrar eru yfirleitt bæði útivinnandi og stofnanir sjá meira og minna um uppeldi barnanna. Samvera foreldra og barna verður að aukast, er ekki hægt að gera þetta með öðrum hætti? Má ekki vinnudagurinn vera styttri, þarf að henda börnum strax í dagvistun eða leiksskóla við eins árs aldurinn? Getum við lengt fæðingarorlofið? Það þarf að verða hugarfarsbreyting hjá okkur. Að mínu mati taka foreldrar of lítinn þátt í uppeldi barna sinna. Það þarf að lengja fæðingarorlofið, jafnvel að borga foreldrum fyrir að vera lengur heima hjá barninu sínu. Kyrrseta barna er allt of mikil og í raun kunna þau ekki að hreyfa sig almennilega. Hér áður fyrr fóru börn út að leika og lærðu að hoppa og hlaupa en í dag þekkist þetta varla og ég vil að foreldrum sé kennt hvernig þau geta hreyft börnin sín. Sá sem kaupir hund fer á hundanámskeið til að læra hvernig hann eigi að ala upp hundinn sinn, ég er hræddur um að margir nútímaforeldrar viti ekki alveg hvað þau eru að gera þegar kemur að hreyfingu barnanna. Eins eigum við að kenna börnum fyrr á líkamann sinn, ef þau læra fljótt um skaðsemi hreyfingarleysis þá eru meiri líkur á að þau sýni sjálf frumkvæði af því að hreyfa sig reglulega.“

Bjarni vill sjá stjórnvöld taka alvöru skref í að bæta lýðheilsu Íslendinga. „Ég tel mjög mikilvægt að allar tómstundir barna séu gjaldfrjálsar. Börn eiga að geta lært á hljóðfæri, lært myndlist, iðkað íþróttir o.s.frv. án tillits til þess hvort foreldrarnir hafi efni á því eða ekki. Mér þætti fróðlegt að sjá útreikning á svona dæmi en hversu mikið myndi sparast til lengri tíma litið, ef þetta er strax innprentað í börnin, í stað þess að þau endi utan vegar síðar meir á lífsleiðinni. Við erum alltof mikið að plástra og reyna laga hlutina eftir á í staðinn fyrir að grípa strax í taumana og fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. Ég er sannfærður um að það myndi skila meiru til lengra tíma litið. Það er léttara að byggja upp börn heldur en að gera við fullorðna. Ég á mér þann draum að eitthvert samfélagið geri þetta að verkefni. Auðvitað mun það kosta en ef hluti arðgreiðslna fyrirtækja fer í að byggja þetta upp með þátttöku ríkis og sveitarfélags þá er það að sjálfsögðu hægt. Allavega er ljóst í mínum huga að við verðum eitthvað að gera, við getum ekki haldið svona áfram. Við fljótum sofandi að feigðarósi og því fyrr sem hér verður hugarfarsbreyting, því betra. Rúm 90% af fjármagni í heilbrigðiskerfinu fer í að lagfæra fólk eftir að skaðinn er skeður. Við verðum að byrja á grunninum því lengi býr að fyrstu gerð,“ segir Bjarni.

Kveikjum neistann

Hverju sem um er að kenna þá líður börnum ekki eins vel í skóla í dag. Lestrarkunnáttu drengja hefur farið hrakandi og allskonar skólafælni er í gangi, bæði líkamleg og andleg. Bjarni heldur áfram. „Minn grunnur liggur í íþróttakennslu en ég hef sömuleiðis mínar skoðanir á skólakerfinu. Það er athyglisvert verkefni í gangi í Vestmannaeyjum sem heitir „Kveikjum neistann“ en það snýst um að breyta skóladeginum svo börn læri m.a. að lesa betur. Þau byrja daginn á hreyfingu og kveikja á líkamanum, fara svo í hinar hefðbundnu greinar en enda daginn svo á einhverju sem þeim finnst skemmtilegt. Við verðum að setja áhugamál barna og unglinga inn í skóladaginn en þetta verkefni kemur vel út og lofar góðu m.v.  fyrstu niðurstöður. Vonandi munu aðrir skólar vera tilbúnir að taka þátt í þessu verkefni. Kjarkmiklir Vestmanneyingar riðu á vaðið og eiga þakkir skildar fyrir að sýna þetta frumkvæði.

Af hverju eiga strákar yfir höfuð erfiðara með að læra lesa í dag en áður fyrr? Við höfum verið að leggja áherslu á hraðlestur, til hvers? Af hverju eru samræmd próf í stærðfræði og íslensku, til hvers? Af hverju eru lesin dæmi í stærðfræði þar sem vitað er að börn hafa ekki náð tökum á lestri, til hvers? Það hefur aldrei verið eytt eins miklum tíma af skóladeginum í þessi helstu fög en árangurinn hefur aldrei verið eins lélegur. Hljótum við ekki að geta fundið betri aðferðir?

Bekkirnir hafa stækkað frá því sem var og eðlilega er þá erfiðara fyrir kennarann að sinna hverjum og einum eins vel. Þessi slæma þróun hefur verið í gangi ansi lengi og ég trúi ekki öðru en okkur beri gæfa til að snúa af þessari leið. Við þurfum að stíga eitt skref aftur á bak og endurhugsa þetta allt en getum svo vonandi tekið tvö stór skref áfram, hættum að plástra eftir á og förum að gera hlutina af meira viti,“ sagði Bjarni að lokum.