Miðvikudagur 10. apríl 2024 kl. 14:59

Lenti á Keflavíkurflugvelli vegna lyktar um borð

Óvissustig viðbragðaðila var virkjað á Keflavíkurflugvelli eftir hádegi í dag vegna farþegaþotu British Airways sem var á flugi suður af landinu.

Þotan er af gerðinni Boeing 777 og var á leiðinni frá London til Las Vegas þegar vart varð við torkennilega lykt, mögulega reykjarlykt, um borð. Um borð í þotunni voru 228 manns, farþegar og áhöfn.

Tilkynningin barst flugmálayfirvöldum kl. 12:55 og vélin lenti heilu og höldnu kl. 13:36. Óvissustigið var afturkallað tveimur mínútum síðar. Um er að ræða svokallaða neyðarlendingu.

Myndatökumaður Víkurfrétta myndaði lendingu þotunnar með flygildi með miklum aðdrætti og úr öruggri hæð utan við brautarstefnu við Aðalgötu í Keflavík.