Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 15. október 2020 kl. 20:26

Missti helminginn af blóðinu og hægri löppin hékk öfug á

Kristbjörg Kamilla lenti í alvarlegu slysi síðsumars við árekstur sjóþotu og slöngubáts.

Sautjándi ágúst síðastliðinn er minnisstæður dagur í lífi Kristbjargar Kamillu Sigtryggsdóttur, þrítugrar konu úr Garðinum. Þennan dag fór hún með vinafólki sínu á slöngubáti út á sundin við Reykjavíkurhöfn til að hafa gaman, skoða lunda og reyna að sjá hvali,
sem tókst reyndar ekki.

Þau voru á tveimur bátum og þegar líða tók að heimför fór Kristbjörg úr bátnum hjá félaga sínum og yfir í bát vinafólks hans og félaginn fór í land. Kristbjörg lýsir því í samtali við Víkurfréttir að áfram haldi gamanið. Hópurinn sé stopp á bátnum utan við Reykjavíkurhöfn og að ræða málin. Á svæðinu er einn á sjóþotu (e. JetSky) og Kristbjörg segist vera fjörkálfur og spyr hvort hún megi vera farþegi á sjóþotunni. Það þótti lítið mál og hún tók því af sér síma og önnur verðmæti og skildi eftir í slöngubátnum.

ÁTTI AÐ VERA EINN LÍTILL HRINGUR

„Ég var bara klædd í venjuleg föt og björgunarvesti, þannig að þetta átti bara að vera einn lítill hringur og svo aftur upp í bát. Það var ekkert mál og ég klifraði yfir á sjóþotuna og við fórum af stað. Þetta var alveg ógeðslega gaman. Stjórnandi slöngubátsins startaði bátnum og fór af stað. Það var einhver misreikningur þarna í gangi og þetta endaði þannig að hann fór inn í hægri hliðina á okkur. Ég kastaðist af sjóþotunni og læknarnir telja að ég hafi farið undir bátinn og í skrúfuna á honum,“ segir Kristbjörg Kamilla.

Við áreksturinn fékk Kristbjörg opið beinbrot. Hægri lærleggur fór í sundur rétt ofan við hné og brotið sneri beint aftur. Kristbjörg segir að nokkuð hafi flísast úr brotinu og húðin flettist upp, nánast upp að mjöðm. „Miðað við myndir sem ég hef séð af áverkanum þá hefðir þú eflaust getað horft inn og upp í mjöðmina. Þetta var svo mikið að skurðurinn nær nánast allan hringinn,“ segir Kristbjörg Kamilla þegar hún lýsir áverkanum sem hún hlaut. Ekki er ljóst hvort skurðurinn sem hún hlaut sé af völdum árekstursins sjálfs eða hvort skrúfan á utanborðsmótor slöngubátsins hafi skorið Kristbjörgu. „Löppin hékk þarna á en læknarnir náðu að setja þetta saman,“ segir hún en til að festa lærlegginn saman var settur í hann 36 sm. langur mergnagli og sex skrúfur.

EINS OG HEIMURINN STOPPI

– Hvernig ertu að upplifa augnablikið þegar slysið verður?

„Það er svo merkilegt að ég var rosalega róleg allan tímann. Ég veit ekki hvað það er en það gerist oft þegar fólk lendir í svona að það fer í „Fight-Mode“ og það er greinilegt að ég fór í það og varð pollróleg. Ég fann þegar höggið kom en sá það ekki koma því ég var að horfa vinstra megin við þann sem var að stjórna sjóþotunni. Þegar höggið kom þá loka ég augunum. Ég man það að ég fór á bólakaf í sjóinn. Þegar ég fór í sjóinn þá greip ég í björgunarvestið og hélt niðri í mér andanum. Þegar ég kom upp þá hóstaði ég og ældi miklu af sjó en náði svo andanum. Ég náði með fingri að taka sjó úr hægra auga og leit svo til vinstri. Þá heyri ég í stráknum sem var að stjórna sjóþotunni. Hann var greinilega kominn í bátinn og hann er að leita af mér.

Það næsta sem ég veit er að það er eins og heimurinn stoppi. Ég er þarna úti í sjó, bara í mínum venjulegu fötum en er í björgunarvestinu. Ég reyni að halda mér, ég reyni að vera róleg og hugsa að þetta sé ekki tíminn til að panikka. Á þessum tímapunkti fór ég að hugsa um hvað væri að og hvort eitthvað væri að hrjá mig. Ég var með fullri meðvitund, þannig að ég spurði mig hvað hafi komið fyrir, hvaðan höggið hafi komið og hvað hafi gerst. Ég hugsaði um að vera róleg því ég vissi að það kæmi hjálp. Ég endurtók sífellt í huganum: „Hægri fótur, hné, ég er brotin.“

Ég heyrði þegar strákurinn sem stjórnaði sjóþotunni sagðist sjá mig og bað um að bátnum yrði bakkað. Svo sá ég hann henda sér út í og synda að mér. Hann tekur í vestið hjá mér og syndir með mig að bátnum. Þegar við erum komin að bátnum þá reynir hann eins og hann getur að koma mér upp í bátinn en ég svara honum þannig að því miður komist ég ekki upp í bátinn því ég sé brotin á hægri fæti við hné. Þau sem eru í bátnum byrja síðan að reyna að taka mig upp úr sjónum. Þar sem ég var í kajakvesti, þá er því ekki smellt undir klof. Þegar það var tekið í vestið þá fór það upp og næstum yfir mig, þannig að ég næstum datt úr vestinu. Ég reyndi að ríghalda eins og ég gat og sagði þeim að toga aftur. Ég hef séð að þegar þú reynir að koma þér upp úr svona aðstæðum þá áttu að sparka vatninu undan þér. Ég reyndi því af öllu afli að nota heilbrigðu löppina og sparka – og ég sparkaði og sparkaði þangað til ég var komin með magann upp á belginn á bátnum. Þá greip ég um hnéð á þeim sem var að toga mig og ég hálfpartinn rann ofan í bátinn. Það var líka á þessu augnabliki sem verkurinn varð yfirgnæfandi.“

ÞAÐ VAR EITTHVAÐ AÐ LÖPPINNI

– Hvernig varstu þá að upplifa verkinn þegar þú varst í sjónum? Varstu kannski ekki að átta þig á hversu alvarlega þú værir slösuð?

„Í sjónum var mér ekki kalt. Mér leið eins og allur sjórinn í kringum mig léti mér líða eins og ég væri í heitu teppi. Ég fann extra mikinn hita í kringum löppina og það var aldrei neitt sem hrjáði mig þegar ég var ofan í sjónum nema að ég fann að það var eitthvað að löppinni því það var svo mikill hiti í henni – og af því að höggið var svo mikið þá gat ekki annað verið en að ég væri brotin. Þegar ég var komin ofan í bátinn, þá sneri ég eiginlega á magann og ætlaði að reyna að snúa mér við og setjast upp en það var ekki hægt. Löppin hálfsnerist og ef ég reyndi að hreyfa mig þá gaus upp svo rosalegur verkur að það er ekki hægt að lýsa honum.“

MISSTI HELMING AF BLÓÐI LÍKAMANS

– Var mikil blæðing?

„Já, mér var tjáð það að ég hafði misst helming af blóðinu sem ég hafði í líkamanum.“

– Varstu smeik um lífið á þessum tíma sem leið frá því þér er bjargað upp í bátinn og þar til þú kemst undir hendur sjúkraflutningamanna?

„Ég get ekki sagt að ég hafi verið beint mjög smeik. Það var eitthvað innra með mér sem hélt mér gangandi. Ég talaði mikið við sjálfa mig og sagði mér ítrekað að muna að anda og að þetta yrði allt í lagi, ég væri ekki ein og væri á leið til hafnar. Ég var búin að tala við manninn minn og hann var á leiðinni.

Það er skýtið að lýsa þessu en það var eins og ég væri með einhvern hjá mér. Þegar ég var á kafi ofan í sjónum þá gerðist eitthvað mjög skrýtið. Fólk segir að þetta sé örugglega undirmeðvitundin að tala við þig en ég heyri í hægra eyra: „Þú ert rétt ókomin upp.“ Þegar ég var á kafi í sjónum þá kom svo mikil værð yfir mig að ég var alveg tilbúin til að fara að sofa. Þegar ég heyrði þessa rödd, að ég sé rétt ókomin upp, rétt eftir það finn ég vindinn í andlitið og ég gubba öllu vatninu út úr mér. Þannig að mér leið ekki sem ég væri smeik eða hrædd. Þetta var meira svona að nú væri ég að taka þetta og þetta væri mitt verkefni og ég ætlaði að klára það.“

HVATTI SJÁLFA SIG ÁFRAM

– Voru þetta ekki viðbrögð hjá líkamanum við því að þú værir kannski að drukkna?

„Það gæti líka verið. Er ekki talað um það að drukknun sé oft góður dauði? Þetta er svona mikil værð. Þess vegna veit ég ekki hver eða hvað þetta var sem var að tala við mig þarna. Var þetta undirmeðvitundin eða var þetta eitthvað annað? Ég veit það ekki.“

Þegar Kristbjörg var komin upp í slöngubátinn og á leið til lands þá var hún farin að tala hærra við sjálfa sig og hvetja sig áfram í að vera „cool“. Hún segir að það hafi komið ró yfir sig þegar sjúkraflutningamaðurinn var kominn niður í bátinn til hennar og heilsaði henni. Þarna vissi hún að allt væri orðið öruggt.

„Það kom aldrei þessi skelfing yfir mig sem hefði átt að koma, því þetta var svakalegt slys. Það kom aldrei þessi ofsahræðsla,“ segir hún. Aðspurð hvernig ferðalagið frá höfninni og inn á bráðamóttöku Landspítala hafi verið segir Kristbjörg að sá hluti sé þurrkaður út úr hennar lífi. Hún hafi rætt við sjúkraflutningamanninn í fyrstu þegar hann var að byrja að klippa utan af henni fötin. Þegar hann var að klippa af henni buxurnar hafi hún beðið um að peysan sín yrði ekki klippt. Þegar hún hafi viljað sjá áverkann hafi sjúkraflutningamaðurinn sagt að þetta væri eitthvað sem hún vildi ekki sjá og bauð henni lyf til að slá á verkinn eftir að hún hafði fengið teppi til að halda á sér hita því þegar þarna var komið við sögu var Kristbjörg farin að finna verulega fyrir kulda.

TÆRNAR VÍSUÐU NÁNAST NIÐUR

„Það næsta sem ég man er að ég var að öskra inni á bráðamóttöku. Það rann mikið blóð úr mér og verkurinn var farinn upp úr öllu valdi. Löppin sneri þannig að tærnar nánast vísuðu niður á einum tímapunkti.“

Kristbjörg segir að þegar hún var kominn á bráðamóttökuna hafi hún fljótlega hitt manninn sinn og hræðslan komið yfir hana ásamt því að óteljandi spurningar hafi vaknað: „Er ég að missa löppina? Er ég að fjara út? Á ég eftir að geta labbað aftur? Verð ég í hjólastól? Hvað gerist núna?“ Það var rosalega skrýtið að finna alla hræðsluna koma í gusu þarna en það var aldrei nein hræðsla úti á sjó. Svo tekur við langt ferðalag eftir þetta því bataferlið verður rosalega mikið og stórt.“

NEGLD OG SKRÚFUÐ SAMAN

Slysið varð 17. ágúst og Kristbjörg fór í fyrstu aðgerðina þann 18. ágúst. Þar var sett á hana svokallað X-Fix sem er utanáliggjandi járnfesting sem svo er svo fest með pinnum í sköflung og lærlegg. Svona var hún í tíu sólarhringa eða til 28. ágúst þegar önnur aðgerð átti sér stað. Þá var settur mergnagli og skrúfur. Naglinn var settur í gegnum hné, þar sem lærleggurinn var brotinn það neðarlega. Kristbjörg segir að batinn sé búinn að vera merkilega góður frá þeirri aðgerð. Hún hefur verið að nota vörur frá Chito Care sem er náttúruleg íslensk sárameðhöndlun. Þetta eru græðandi vörur sem hún segir að hafi hjálpað sér alveg ótrúlega mikið. Hún þurfti þó að fara í þriðju aðgerðina þann 4. október síðastliðinn þar sem fjarlægja þurfti dauða húð og hold á stað þar sem mikill vökvi var að koma úr sári. Eftir þriðju aðgerðina fékk Kristbjörg svo svokallaða sárasugu sem hún var með í fimm sólarhringa og hjálpaði til við að loka sárinu.

„Vonandi þarf ég ekki í fleiri aðgerðir og get haldið áfram með batann hjá sjúkraþjálfara,“ segir Kristbjörg, sem á von á því að bataferlið taki eitt til tvö ár. „Það er vilji og jákvæðni sem dregur fólk áfram og það er eitthvað sem ég á nóg af. Svo er það líka hvað líkaminn er tilbúinn til að gera og það er erfitt að segja hvort þetta tekur eitt ár eða tvö.“

VELTI SLYSINU MIKIÐ FYRIR SÉR FYRSTU DAGANA

Kristbjörg segist hafa velt slysinu mikið fyrir sér fyrstu dagana á sjúkrahúsinu og spurt sig margra spurninga og hvað ef? Hún segir líka að ótrúlegur fjöldi fólks hafi verið í sambandi við hana eftir slysið og sent henni hvetjandi skilaboð og hún sé svo þakklát fyrir það.

„Eftir svona slys þá á maður það til að brotna og það alveg svakalega illa. Ég hef oft bognað en þetta er eitthvað sem braut mig. Þegar ég lá á spítalanum sagði ég við sjálfa mig að nú væri kominn tími til að líma sálina aftur saman. Ég ætla að gera það rólega, því ég ætla ekki að taka eitthvað brot og setja það á vitlausan stað. Ég ætla að verða heil aftur.“

– Hvenær kemur svo áfallið?

„Ég held að það hafi verið svona viku síðar, eins og hendi væri veifað. Ég var búin að eiga yndislegan dag, spjalla við hjúkrunarkonur og sjúkraliða, horfa á sjónvarpið og borða góðan mat. Síðdegis þennan dag kom áfallið allt í einu. Þá leið mér eins og ég væri áhorfandi að slysinu. Ég upplifði slysið aftur en nú eins og áhorfandi að því. Það var þá sem ég áttaði mig á því hversu ljótt og mikið slys þetta var. Áfallið var óhugnanlegt að upplifa þetta aftur, því úti á sjó var ég alltaf rosalega róleg. Það er frekar ólýsanlegt hvernig áfallið kom og maður upplifir hlutina aftur en hjúkrunarfræðingarnir og sjúkraliðarnir á B-5 í Fossvoginum eru magnaðar konur og voru til staðar þegar á þurfti að halda. Ég er ekkert rosalega trúuð en ég trúi á sjálfa mig. Það komu til mín tveir prestar og ræddu við mig en það sem er að ná mér í gegnum þetta ferli er að ég hef ofurtrú á sjálfri mér.“

Kristbjörg þakkar þó honum Rudolf Adolfssyni, geðhjúkrunarfræðingi á Landspítalanum, að hún losaði um tappann og fór að tala um slysið. Hún segir það algjörlega honum að þakka að hún fór að tala um slysið og áfallið því tengt.

ENDURHÆFING Á REYKJALUNDI

  Breytti slysið þínum áformum?

„Gjörsamlega. Það var öllu kippt undan mér.“

Það er þó lán í óláni fyrir Kristbjörgu að hún var á leiðinni á Reykjalund til endurhæfingar vegna annarra slysa og áfalla í lífinu. Hún hefur verið að glíma við vefjagigt og ljót áföll í gegnum tíðina. „Lífssaga mín er eflaust stærri en flestra á mínum aldri,“ segir hún en hún sé kominn með nýjan tíma á Reykjalund sem vonandi standist þrátt fyrir Covid-ástandið. Þar á hún von á því að fá góða hjálp í sinni endurhæfingu.

FRELSANDI AÐ TALA Á SAMFÉLAGSMIÐLUM

Kristbjörg Kamilla heldur úti síðum á samfélagsmiðlum þar sem hún hefur leyft vinum sínum að fylgjast með því sem á daga hennar drífur.

„Það er frelsandi að fá að geta talað því ég er búin að þegja svo rosalega lengi. Þegar maður loksins lærði að tala og tjá sig þá er ekki svo mikið sem situr á herðunum. Maður á ekki að byrgja inni og það er frelsandi að fá að tjá sig. Það er svo margt fólk þarna úti sem hefur kannski svipaða sögu að segja og það getur tjáð sig og sagt við mann að ég sé ekki ein í þessu. Ég stend ekki ein á móti heiminum. Heimurinn stendur með mér. Það er mín sýn á þessu þegar ég er að tala um þetta á samfélagsmiðlum. Á samfélagsmiðlum er maður einn með símanum sínum en áttar sig kannski ekki á hversu margir eru þarna úti að hlusta. Samfélagsmiðlarnir hjálpa mér að tjá mig og fá viðbrögð til baka.“

Að endingu vill Kristbjörg Kamilla koma á framfæri þakklæti til björgunaraðila og allra sem önnuðust hana á Landspítala og einnig á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hún hefur verið í sárameðferð og fengið góðan andlegan stuðning.