Mánudagur 21. október 2019 kl. 09:23

Kraftmiklar konur safna fé í öflugan minningarsjóð

Góðgerðarfélagið #TeamAuður, sem heldur utan um minningarsjóð Auðar Jónu Árnadóttur, hefur látið rækilega til sín taka á þessu ári og safnað fjármunum til að styðja við einstaklinga, félög og stofnanir. Félagið var stofnað 2013 en að því stendur myndarlegur hópur kvenna á Suðurnesjum sem lætur sig málefni krabbameinssjúkra varða.

Stærsta fjáröflun #TeamAuður er sala styrktarmerkja á bleikar peysur sem hópurinn hefur svo notað í sínum verkefnum, hvort sem það eru hlaup eða fjallgöngur. Í hópnum eru margar hlaupakonur sem hafa tekið þátt í Reykjavíkur- og Berlínarmaraþoni þar sem áheitum er safnað í minningarsjóðinn. Þá fór hópur frá #Team Auður, bæði konur og karlar, á Mont Blanc í sumar og safnaði áheitum vegna fararinnar. Einnig framleiðir hópurinn ýmsan varning og selur til stuðnings verkefninu.

#TeamAuður hefur stutt við einstaklinga sem eru að takast á við krabbamein en einnig stutt krabbameinsdeild Landspítala og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Hópurinn sem stendur að #Team Auður kom svo saman bleika föstudaginn nú í október og hljóp góðan hring í Keflavík og hélt svo litla uppskeruhátíð á veitingastaðnum Library.

#TeamAuður var í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta. Innslagið er í spilaranum hér að ofan.