Föstudagur 16. apríl 2021 kl. 11:36

Kastað í lag til stuðnings starfi Krabba­meins­félagsins

„Mig langar til að láta gott af mér leiða og leggja mitt af mörkum til að styðja öflugt starf Krabbameinsfélagsins“ segir Kristján R. Guðnason sem var að gefa út lagið „Lífsins ljós” sem tileinkað er félaginu og starfi þess.

Það er fyrirtæki Kristjáns og Garðars „Gæa” Viðarssonar, Stúdíó Kast, sem gefur lagið út en því er ætlað að vekja athygli á starfi Krabbameinsfélagsins við að fækka þeim sem greinast, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein.

„Í myndbandinu við lagið koma fram ýmsar staðreyndir um alvarleika málsins og við vonumst til þess að þessi nálgun í gegnum tónlist verði til þess að enn fleiri einstaklingar og fyrirtæki fylki sér á bak við félagið til að efla það frábæra starf sem þar er unnið“, segir Kristján.

Missti bróður sinn

„Því miður er staðreyndin sú að einn af hverjum þremur Íslendingum eru líklegir til þess að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Það má þá færa rök fyrir því að hinir tveir séu vinir og aðstandendur sem þýðir í raun að krabbamein hafa gríðarlega mikil áhrif á líf hvers einasta manns“, segir Kristján.

Sjálfur þekkir Kristján vel til þessara mála því hann hefur misst bróður sinn úr krabbameini og tengdamóðir hans berst við ólæknandi krabbamein.

Allir á dekk

Kristján hefur mætt velvilja og stuðningi við að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. „Það var ekkert mál að fá alla á dekk til að láta þetta verða að veruleika”, segir Kristján. „Sigurþór „Sissi” Kristjánsson hljóðmaður í Borgarnesi sem rekur eitt flottasta hljóðver landsins bauð fram stúdíó „Gott hljóð” og margvíslega aðstoð og hinn frábæri lagahöfundur Gunnar Ingi Guðmundsson samdi lagið við texta Guðjóns Guðmundssonar”. Auk þeirra kemur stór hópur fólks að verkefninu með margvíslegum hætti og allir gefa vinnu sína.

Hljóðfæraleikur er í höndum Kristjáns sem leikur á gítar, Gunnar lagahöfundur leikur á bassa, Sissi hljóðmaður lemur húðirnar, Halldór Baldur leikur á rafgítar og Kristjón Daðason á trompet.

Ánægðir með afraksturinn

Þeir Kristján hjá Stúdíó Kast og Sissi hjá stúdíó Gott hljóð eru að vonum ánægðir með afraksturinn enda lagið, textinn og myndbandið alveg frábært. „Þetta er búið að vera heilmikið ferli og flókið að setja saman svona verkefni þar sem margir leggja hönd á plóg en við erum mjög sáttir. Góð tilfinning að hafa gert sitt besta, fengið allt þetta frábæra fólk með okkur og nú er boltinn hjá þjóðinni að taka við sér og láta gott af sér leiða”, segir Kristján að lokum.

Tár á hvarmi

„Þetta er nýtt og fallegt sjónarhorn á það hvernig vekja má athygli á því öfluga starfi sem unnið er á vegum Krabbameinsfélagsins”, segir Guðmundur Pálsson vefstjóri félagsins sem hefur haldið utan um samskiptin við Kristján og félaga að undanförnu. „Það er ekki laust við að það hafi glitt nokkrum sinnum í tár á hvarmi í samskiptum okkar við þessa yndislegu drengi á síðustu vikum. Þetta frábæra frumkvæði af þeirra hálfu staðfestir að við erum öll í þessu saman og ágæt einkunnarorð Mottumars í ár; „Einn fyrir alla og allir fyrir einn” segir í raun allt sem segja þarf”.


Lífsins ljós - texti
Gunnar Ingi Guðmundsson / Guðjón Guðmundsson

Hér án þín er eins og lífið stoppi nú
En svo breytir allt um svip er birtist þú
Það er eins og sólin skíni dag og nótt
Skuggarnir þeir flýja ljósið allt er rótt

Rauða rós ég legg hjá þér
Ráðvilltur ég leita að þér
En ég hef fundið hjartað mitt
Hér einn og bíð

Ég bið um eina nótt
með þér, já með þér
Sem ég geymi' í huga mér…..í huga mér
Ljós í glugga leiðir mig á braut til þín

Lítill bjarmi sem að markar sporin mín
Þó jörðin skjálfi, fossar frjósi hræðist ey
Fegurð þín er greypt um hugann uns ég dey
Bjarma slær á bæinn þinn

Bros þitt vermir huga minn
En ég hef fundið hjartað mitt
Hér einn og bíð
Ég bið um eina nótt
með þér, já með þér
Sem ég geymi' í huga mér…..í huga mér… Í huga mér

Rauða rós ég legg hjá þér
Ráðvilltur ég leitað þér
En ég hef fundið hjartað mitt
Hér einn og bíð

Ég bið um eina nótt
með þér, Já með þér
Sem ég mun geyma í huga mér…..í huga mér

Höfundar:

Lag: Gunnar Ingi Guðmundsson
Texti: Guðjón Guðmundsson

Hljóðfæraleikur:

Halldór Baldur Guðnason, rafmagnsgítar
Kristján R. Guðnason, kassagítar
Gunnar Ingi Guðmundsson, bassi
Sigurþór Sissi Kristjánsson, trommur, píanó, slagverk og forritun
Kristjón Daðason, trompet

Söngur:

Jón Jósep Snæbjörnsson
Gísli Ægir Agústsson
Kristján R. Guðnason
Sísí Ástþórs

Áhrifavaldar:

Sigrún Sigurpáls
Brynja Dan
Krissi Magg
Skúli Jóa
Garðar Gæi Viðarsson
Alfreð Fannar BBQ Kóngur Björnsson
Katla (systur og makar)
María Krista (Krista ketó)
Sigurður Guðjónsson
Hjálmar Örn Jóhannsson
Aðstoðarmaður við hljóð og mynd: Þorsteinn Guðmundur Erlendsson

Útsetning:

Sigurþór Sissi Kristjánsson.

Hljóðritun:

Lagið var hljóðritað í Stúdíó Gott hljóð, Geimsteini, Upptökuheimilinu og hjá Jóni Þór Helgasyni aKa Weekendsson og Sigfúsi Jónssyni á Akureyri í mars 2021. Hljóðritun var í umsjón Sigurþórs Sissa Kristjánssonar og Kristjáns R. Guðnasonar.

Myndvinnsla:

Stúdíó Kast.

Sjá fleiri myndir hér.