Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 9. september 2023 kl. 15:32

Hópur frá Suðurnesjum upplifði stóran jarðskjálfta í Marokkó

Berglind Kristinsdottir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, er í hópi Suðurnesjafólks sem statt er í Marrakech í Marokkó á ráðstefnu jarðvanga þar sem fjölmargir fulltrúar jarðvanga víðsvegar að úr heiminum koma saman. Á ráðstefnunni eru fulltrúar tveggja íslenskra jarðvanga, frá Reykjanes jarðvangi og Kötlu jarðvangi.

Berglind segir það sé skrýtin tilfinning að upplifa jarðskjálfta í öðru landi en Íslandi. Í gærkveldi varð jarðskjálfti að stærðinni 6,9 í Marrakech. Á stað þar sem litlar líkur eru á jarðskjálftum af þessari stærð en sambærilegur skjálfti hefur ekki orðið á þessu svæði í um 120 ár. Upptökin voru í Atlasfjöllum í 80 kílómtra fjarlægð frá Marrakech. Um 1000 dauðsföll hafa verið staðfest.

Allir í íslenska hópnum eru ómeiddir en var að vonum brugðið við þessa upplifun. Berglind var nýkomin upp í leigubíl þegar ósköpin dundu yfir. Í spilaranum hér að ofan má heyra viðtal sem Víkurfréttir tóku við Berglindi fyrr í dag.

Myndir frá íslenska hópnum í Marokkó.