Sunnudagur 19. nóvember 2023 kl. 20:50

Hlustað eftir sjónarmiðum Grindvíkinga í húsnæðismálum

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í samverustund með Grindvíkingum í Keflavíkurkirkju síðdegis að það hafi verið gríðarlega stór ákvörðun að rýma Grindavík föstudaginn 10. nóvember. Þegar það var gert sá enginn fyrir að sú ákvörðun stæði enn í dag.

Grindvíkingar hafa verið sviptir bæði afkomu og húsnæði og segir forsætisráðherra að allar lausnir séu til skoðunar. Katrín sagði stóra verkefnið núna vera að vinna að húsnæðisstuðningi og húsnæðismálum Grindvíkinga. Það verði þó ekki gert með miðstýrðum hætti, heldur verði leitað eftir því hvað Grindvíkingar vilja og hlustað eftir sjónarmiðum þeirra.

Hægt er að hlusta á ávarp forsætisháðherra í spilaranum hér að ofan. Ávarpið er myndskreytt með ljósmyndum og kvikmyndum sem teknar voru í Grindavík í dag. Það voru ljósmyndarinn Vilhelm Gunnarsson og kvikmyndatökumaðurinn Guðmundur Bergkvist sem tóku myndirnar en þeim er dreift á alla fjölmiðla, þar sem aðgengi fjölmiðla er takmarkað að Grindavík að öryggisástæðum.

Ljósmyndir/Vilhelm Gunnarsson/Vísir