Þriðjudagur 11. febrúar 2020 kl. 09:27

Held það sé yfir höfuð betra líf hér

Íþróttir hafa auðveldað Maciej Baginski að aðlagast íslensku samfélagi. Flutti fimm ára frá Póllandi til Sandgerðis en hefur nú leikið með öllum körfuboltalandsliðum Íslands. Er að ljúka háskólanámi.

Íþróttir hafa auðveldað Maciej Baginski að aðlagast íslensku samfélagi. Flutti fimm ára frá Póllandi til Sandgerðis en hefur nú leikið með öllum körfuboltalandsliðum Íslands. Er að ljúka háskólanámi.

Þú fluttir til Sandgerðis ungur að árum. Hvernig kom það til að þið pólska fjölskyldan fluttuð hingað til Íslands?

Mamma fór út á undan mér. Hún ætlaði bara að vera í eitt ár að safna sér pening, var nýbúin í námi í Póllandi og svona. Einhvern veginn varð hún eftir og kom svo og sótti mig ári seinna. Við fluttum svo saman til Sandgerðis og erum búin að vera á Íslandi síðan.

Hvernig var Sandgerði fyrir fimm, sex ára gaur?

Það var bara þægilegt, mjög lítið. Ég átti mjög erfitt með sumarið hérna fyrst. Ég náttúrlega áttaði mig ekkert á því að það yrði sól allan daginn og alla nóttina. Ég var þarna sex ára gutti úti á fótboltavelli til klukkan tólf og mamma að leita að mér, vissi ekkert. Ég hafði náttúrlega ekkert tímaskeið þarna, það var bara bjart úti. Ég hélt það væri dagur.

Varstu strax kominn í fótbolta?

Já, ég var bara settur í fótbolta í fyrsta bekk. Mamma er íþróttakona, hún var í körfubolta á sínum tíma. Það var enginn körfubolti í Sandgerði og ég hafði mikinn áhuga á fótbolta, var alltaf úti á sparkvelli áður en ég byrjaði. Ég byrjaði í svona 1. bekk í fótbolta.

Þannig að þú ert strax kominn í íþróttir, mjög ungur.

Já, algjörlega. Það var mitt helsta áhugamál alveg frá því ég var pínulítill.

Í dag ertu þekktur körfuboltamaður. Hvernig stóð að því að karfan varð fyrir valinu?

Maður náttúrlega flutti til Njarðvíkur, held ég árið 2004. Njarðvík á auðvitað frábæra sögu í körfubolta. Ég var reyndar bara ennþá í fótboltanum til að byrja með. Guðni Erlends var þá í fótboltaliðinu í Njarðvík og var að þjálfa minniboltann í körfunni. Hann eiginlega dró mig á æfingu. Þar vaknaði ástríðan.

Hvernig stóð á því að hann, fótbolta-gæinn, dró þig í körfubolta? Var eitthvað sem hann sá í þér í körfunni?

Ég veit ekki hvort það var eitthvað mikið en allavega hæðin. Ég var gríðarlega stór sem krakki. Ég hef eiginlega ekkert stækkað síðan ég var krakki. Ég held að það hafi svona verið aðalatriðið, það vantaði kannski stóran karl þarna.

Hæðin er kostur í körfubolta.

Já, algjörlega. Ég hefði samt viljað fá aðeins meira af henni.

Þú ert ekkert það hávaxinn körfuboltamaður hvað varðar það í dag.

Nei, ég held ég hafi bara náð 1,91, sem ég er í dag, bara fjórtán, fimmtán ára og stoppað þar.

Tóku við góð ár í Njarðvík hjá Pólverjanum unga?

Já, heldur betur. Hvorki í Sandgerði né Njarðvík voru margir Pólverjar svo ég gat ekkert svona tengt mig við neinn sem talaði sama tungumál og ég. Svo ég þurfti eiginlega bara að detta inn í hópinn með Íslendingunum, bæði í Sandgerði og Njarðvík. Þannig náði ég málinu miklu betur og hraðar. Ég var reyndar kominn með fullkomna íslensku eiginlega þegar ég flutti í Njarðvík. Það svona eiginlega hjálpaði mér að aðlagast lífinu hérna.

Ef þú rifjar aðeins upp þegar þú ert mjög ungur, hefurðu einhverja tilfinningu fyrir því í dag hvernig þú varst að aðlagast tungumálinu til dæmis? Þú komst hingað fimm ára. Var bara ekkert mál fyrir þig að læra íslensku?

Ég held ekki. Mamma segir alltaf skemmtilega sögu frá því að þegar við komum heim af leikskólanum einn daginn þá sagði ég við mömmu að það væri ekki leikskóli daginn eftir. Hún bara: „Nei, nei. Hvað ertu að bulla?,“ og fór með mig í leikskólann. Þá var náttúrlega bara lokað. Þá náði ég einhvern veginn að skilja að það væri lokað daginn eftir.

Svo fórstu í skóla í Sandgerði og Njarðvík. Maður heyrir ekki annað en að þú sért Íslendingur á því hvernig þú talar. Þú talar bara eins og aðrir Íslendingar.

Já, eins og ég segi þá náði ég þessu, held ég, mjög vel með því að vera mest megnis með Íslendingum. Þá lærði maður hreiminn og losnaði við að tala þetta bjagað. Það er eiginlega aðalatriðið.

Á þessum tíma voru ekki margir innflytjendur, sérstaklega Pólverjar, hér á svæðinu þegar þið komuð. Hvernig upplifðir þú það? Varðstu fyrir einhverjum leiðindum eða slíku?

Já, það voru einhver svona létt skot. Það voru náttúrlega miklir fordómar gagnvart ekki bara Pólverjum, heldur útlendingum hérna sem mér finnst hafa minnkað til muna. Þetta var meira bara grín sem ég tók aldrei inn á mig en mér finnst íþróttirnar hafa hjálpað í því. Eftir því sem ég varð betri í íþróttum minnkuðu fordómarnir og ég var meira tekinn í sátt fannst mér.

Viltu meina að íþróttirnar hafi haft mjög mikið að segja um það hjá þér að aðlagast Íslendingum?

Já, klárlega. Þessi íþróttafjölskylda á Íslandi er risastór og mjög samheldin, alveg sama í hvaða íþrótt það er. Ég held það hafi hjálpað mjög mikið.

Eru Pólverjar í grunninn allt öðruvísi en Íslendingar?

Já, ég held það. Það er allt öðruvísi uppeldi í Póllandi finnst mér og öðruvísi gildi held ég. Ég get ekki alveg útskýrt það en það er bara oft munur á löndum og því hvernig samfélögin virka. Það er svolítill munur þar á milli.

Ef þú horfir til baka, heldurðu að þú hefðir frekar vilja alast upp í Póllandi en á Íslandi? Heldurðu að þú hefðir haft það betra þar?

Nei, ekkert frekar. Ég er bara búinn að hafa það mjög fínt á Íslandi og það gengur allt vel þannig séð. Ég held að við mamma og fjölskyldan sjáum bara ekkert eftir þessu.

Fenguð þið ríkisborgararétt? Þurfti það eða eitthvað slíkt?

Já, ég held við höfum fengið ríkisborgararétt eftir fimm eða sex ára veru. Ég held ég sé ekki með pólskan passa lengur, hann rann út fyrir einhverjum árum. Ég er bara með íslenskt vegabréf núna.

Þú hefur spilað með unglingalandsliðinu í körfubolta fyrir Ísland, er það ekki?

Jú, jú. Ég held fyrir öll unglingalandslið sem hægt er að vera í upp í 22 ára og á fimm leiki með A-landsliðinu.

Hvernig tilfinning er það?

Það er bara frábært. Ég held alveg í ræturnar til Póllands og tel mig vera Pólverja, þannig séð, skástrik Íslending en ég er mjög stoltur af því að geta spilað fyrir þetta land og þessa þjóð.

Heldurðu tengslum við Pólland?

Já, já. Ég tala við ömmu nokkrum sinnum á dag í gegnum Messenger og svona og reyni að heimsækja eins og ég get. En ég er námsmaður og vinn á sumrin, það er búið að vera erfitt undanfarið en ég reyni mitt besta að fara til þeirra og þau koma oft hingað líka.

Samfélag Pólverja og Íslendinga, myndirðu segja að það væri gott í dag?

Já, ég held það. Pólverjarnir eru kannski ennþá svolítið óöruggir með sig hérna og þeir hópa sig oft saman í sitt eigið samfélag. Við erum með pólskan veitingastað og pólskar búðir. Þeir mættu kannski gera aðeins meira í því að „mingla“ við Íslendingana, finnst mér, því það hjálpar líka með tungumálið og að aðlagast. En það þarf að vera rétta fólkið.

Þú ert búinn að vera að halda kynningar fyrir ungmenni þar sem þú ert að segja að íþróttirnar hafi hjálpað þér að aðlagast betur.

Já, algjörlega. Það er eitt af aðalatriðunum sem íþróttirnar hafa gert fyrir mig, allavega sem innflytjanda.

Ég myndi halda að íþróttafélögin myndu vilja fá Pólverjana og innflytjendur til þess að koma í íþróttirnar líka því það er efnilegt fólk þarna. Hvað þarf að gera til þess að fá innflytjenda ungmenni?

Ég held það þurfi bara að leggja ennþá meiri áherslu á að draga alla inn í þetta, kynna hvatagreiðslur, það sé frítt að prófa og svona. Það eru oft peningar sem skipta máli, foreldar hafa kannski ekki efni á að setja börnin sín í íþróttir eða tíma því kannski ekki. Svo eru kannski oft fordómar í öðru landi gagnvart íþróttum, það eru til dæmis öðruvísi gildi í íþróttum í Evrópu. Hér eru þetta svona forvarnir, þetta eru forvarnir gegn kannski drykkju og tóbaki og svoleiðis. En í öðrum löndum kannski dragast menn meira í það í gegnum íþróttirnar. Ég held að UMFÍ hafi talað um það að það væri misræmi milli Evrópu og Íslands, það væri ekki jafn mikið forvarnargildi annars staðar í Evrópu, aðallega Austur-Evrópu.

Þú ert í afreksliði Njarðvíkur í körfubolta. Þetta er eitt þekktasta körfuboltalið landsins með ríka sögu. Er ekki gaman að vera hér?

Það er bara frábært. Það er frábært fólk í þessu félagi og strákarnir í liðinu gjörsamlega geggjaðir. Mér líður mjög vel hérna.

Þú ert í háskóla núna, hvað ertu að nema?

Ég er að klára BS gráðu í viðskiptafræði í HR núna í júní.

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? Ætlarðu að vera á Íslandi?

Já, ég held það. Ég hef engin plön um annað eins og er. Maður náttúrlega bara gerir það sem kemur upp og er ekkert að plana of mikið. Ég ætla að reyna að fara í mastersnám sem fyrst.

Hvernig finnst þér menntakerfið vera?

Ég hef alltaf lagt mikið á mig í námi og mér fannst grunnskólinn frekar auðveldur, sem og framhaldsskólinn. Mér fannst það bara mjög skemmtilegt. Ég var bara í FS. Það var áhugavert og skemmtilegt. Ég tala oft við mömmu um þetta. Menntakerfið í Póllandi er til dæmis allt öðruvísi. Þetta hentaði mér mjög vel. Ég tók eina önn í HÍ og fann mig ekki alveg þar, fór í HR og hef bara notið tímans þar mjög vel. Frábær skóli.

Eru viðskipti eitthvað sem heilla þig?

Já, mjög mikið. Ég hef alltaf verið góður með tölur og stærðfræði og finnst ég góður í mannlegum samskiptum.

Þú hvetur fólk í þínum sporum, sem flytur til Íslands, að fara í íþróttir. Hjálpar það?

Já, hundrað prósent. Miðað við það hvað það er mikið af innflytjendum á Íslandi þá sér maður ekkert rosalega mörg nöfn til dæmis í úrvalsdeildunum hérna, ekki í handbolta, körfubolta eða fótbolta, allavega ekki miðað við hlutfallið sem er á landinu. Það geta allir orðið íþróttamaðurinn sem skarar fram úr. Maður veit það aldrei fyrr en maður reynir.

Þegar þú varst að alast upp í Sandgerði og Njarðvík, hvernig gekk þér að eignast vini? Varstu fljótur að ná því í gegnum íþróttirnar eða skólann?

Bara bæði. Í Sandgerði var ég í mjög fámennum bekk og ég held að allir strákarnir þar hafi verið í fótbolta. Ég var með þeim í fótboltanum og í skólanum. Það auðveldaði mér mjög mikið að kynnast þeim, þótt ég hafi kannski ekki verið með fullkomna íslensku þá og þeir hjálpuðu mér. Það var ekki mikið gert grín að manni þarna. Maður var svona nýr og kannski fannst krökkunum það skrýtið að maður talaði ekki íslensku almennilega en þeir tóku mig mjög fljótlega í sátt og ég held það hafi verið mjög mikið atriði að vera góður í fótbolta líka. Í Njarðvík kynntist ég svo mínum bestu vinum í dag í gegnum íþróttirnar. Ég held tengslum við flestalla sem ég hef kynnst og svo hef ég kynnst endalaust af fólki úr hreyfingunni, alls staðar af landinu. Það er bara mjög gaman að breiða út þetta tengslanet.

Hvenær varstu kominn með fullkomna íslensku? Hvað tók það þig mörg ár?

Ég man það ekki alveg en ég man bara að um leið og ég flutti til Njarðvíkur var ég ekki með neinn hreim og talaði fullkomið mál. Ég var settur í nýbúafræðslu hérna og það tók held ég ekki nema tvær vikur þangað til ég var útskrifaður.

Hvernig finnst þér málfræðin hér á Íslandi? Þú þekkir ekkert annað.

Voða lítið. Ég var reyndar í pólsku–tímum í Sandgerði fyrstu fimm, sex árin, til þess að læra það og mér fannst málfræðin í Póllandi liggur við bara erfiðari.

Þannig að það er verið að leggja áherslu á að ungir Pólverjar fái pólskukennslu hérna þegar þau mæta?

Það var allavega þannig þegar ég flutti hingað en ég held það sé líka undir foreldrunum komið. En við vorum ekki það mörg, við vorum held ég fimm eða sex manns hjá kennara í Sandgerði sem var pólsk. Hún var líka að hjálpa okkur með þetta. Þetta voru bara einhverjir tveir tímar á viku en ég naut þess bara mjög mikið að vera þar.

Nú er fjórði hver íbúi á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ innflytjandi og um það bil fimmti hver er Pólverji. Þannig að það eru gríðarlega margir Pólverjar hérna.

Já, ég held að Reykjanesbær sé líka bara mjög góður staður til þess að flytja til. Það er náttúrlega stórt Pólverjasamfélag hérna sem gerir það kannski auðveldara fyrir aðra að koma hingað líka.

Myndir þú segja að þú værir á betri stað hér heldur en þú værir sem ungur maður í Póllandi?

Já, ég held það. Ég held það sé svona yfir höfuð betra líf hér. Það er mun meiri fátækt í Póllandi en maður veit auðvitað aldrei hvað hefði gerst í Póllandi. Ég er bara mjög sáttur með þann stað sem ég er á núna.