Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 14. nóvember 2020 kl. 07:34

Hef á tilfinningunni að ef ég hætti þessu þá verði lífið búið

– segir Frímann Gústafsson, smiður hjá Sparra í Njarðvík, en hann er enn við störf 80 ára gamall og vill ekki hætta.

„Mér finnst gefa mér rosa mikið að þurfa að vakna á morgnana og mæta í vinnu og hitta félagana í stað þess að hanga einn heima og hafa lítið fyrir stafni. Þetta gefur lífinu mikið gildi þó ég megi ekki vinna meira en sem nemur 100 þúsund krónum á mánuði,“ segir Frímann Gústafsson, smiður hjá verktakafyrirtækinu Sparra og ellilífeyrisþegi. Hann fagnaði 80 ára afmælinu í síðustu viku og samstarfsfólk hans fagnaði með honum í lítilli afmælisveislu í fyrirtækinu.

Frímann er léttur á fæti og hress þó árin séu orðin áttatíu. Honum er tíðrætt um stöðu eldri borgara og finnst það ekki sanngjarnt að mega ekki vinna öðruvísi en að lífeyririnn sé skertur. Segir að líklega séu eldri borgarar að geiða mestu skattana miðað við alla skerðinguna. „Það er ekki mikil hvatning fyrir eldra fólk að vinna þó það sé með góða heilsu,“ segir hann.

Ekki atvinnulaus á Suðurnesjum

Frímann er einn af mörgum sem hafa flutt til Suðurnesja. Hann er Siglfirðingur og hefur fjölbreytta sögu að segja. Flutti til Keflavíkur 1994 og fór þá að vinna hjá Hjalta Guðmundssyni, byggingaverktaka, sem smiður. „Ég var þá spurður af hverju í ósköpum ég væri að flytja til Keflavíkur. Það væri ekki mikla vinnu að fá þar. Svo mér datt bara í hug að hringja í Ellert Eiríksson, bæjarstjóra, og spyrja hann út í þetta. Þá sagði Ellert: „Ég veit ekki betur en að þeir sem vilji vinna hafi vinnu hérna.“ Og það hefur reynst rétt. Ég hef ekki verið atvinnulaus síðan ég kom hingað 1994 að undanskildum smá tíma á milli starfa,“ segir Frímann.

Leið okkar manns lá frá Hjalta til Varnarliðsins og þar vann hann í nokkur ár og segir að herinn hafi verið góður vinnuveitandi. „Ég var þar þegar Varnarliðið fór með manni og mús árið 2006. Var með síðustu mönnum út,“ segir hann en eiginkona hans starfaði einnig hjá Kananum og Frímann segir að það hafi hentað þeim vel. Gátu meðal annars farið saman í hádegismat og það hafi verið gott.

Ævintýri á stríðsárunum á Sigló

Frímann segir að það hafi verið mjög gott að alast upp á Siglufirði og það á stríðsárunum en hann er fæddur árið 1940 eða um það bil sem seinni heimsstyrjöldin skall á. „Maður fór út á morgnana og kom heim á kvöldin. Við krakkarnir lékum okkur og það var stríð á milli hverfa. Ég man eftir einu mögnuðu atviki þegar vinur minn fór upp í fjall með herhjálm á höfði, þá fékk hann stein í hann og hjálmurinn dældaðist, svo mikið var höggið, en hann meiddist ekki – en svona voru ævintýrin á stríðstímum,“ segir sá gamli þegar hann rifjar upp meira en sjötíu ára gamla sögu úr fjörinu í uppeldisbænum sem hefur breyst mikið. Hann hefur heimsótt Sigufjörð tvisvar á undanförnum árum og segir breytingar miklar og jákvæðar.

Í nám suður

Sem ungur maður vann hann í smíðum og fiski en lærði svo skipasmíði hjá Slippfélaginu í Reykjavík. „Ég var búinn að reyna að komast í nám en það voru bara útvaldir sem komust í það á Siglufirði en afi fyrri konu minnar þekkti yfirverkstjórann hjá Slippfélaginu í Reykjavík sem hleypti mér inn og ég hóf nám 1959. Ég var fyrir sunnan eftir námið og ég vann m.a. hjá Sóló húsgögnum og við byggingu golfskálans í Grafarholti en það var fyrsti alvöru golfskáli landsins, það var mikil bygging á þeim tíma. Ég fór aftur norður 1972 og kynntist þar seinni konu minni. Við byggðum okkur hús á Siglufirði og bjuggum þar til 1994 þegar við fluttum suður. Ég asnaðist til að fara í verslunarrekstur á Siglufirði sem endaði með því að KEA neyddi mig í gjaldþrot og þá fór ég suður. Konan mín átti systur í Keflavík og þess vegna vildi hún fara þangað. Við höfum unað hag okkar vel hér suður með sjó en konan mín lést í fyrra.“


Góðir vinnuveitendur

Frímann fékk vinnu hjá Sparra fyrir þremur árum, á verkstæðinu þar sem hann hefur handleikið verkfærin iðulega stóran hluta af sínum vinnuferli. Bros færist yfir andlit Frímanns þegar hann er spurður út í vinnuna hjá Sparra.

„Flestir mínir vinnuveitendur hafa verið góðir en ég verð þó að segja að ég hef ekki unnið fyrir betri aðila en Sparra. Maður mátti nú ekki vinna of hratt hjá Kananum því þú fékkst engin aukaverkefni ef þú kláraðir það sem þú áttir að gera. Það var hins vegar fínt að vinna fyrir Kanann,“ segir hann og hlær. Á síðustu árum hjá Sparra hefur Frímann verið í gluggasmíði og fleiru. Hann smíðaði m.a. nærri tvö hundruð kassa undir ávexti fyrir Krónuna.

– En er þetta ekki að verða ágætt? Viltu ekki fara að njóta lífsins og leika þér á gamals aldri?

„Á meðan heilsan er svona góð þá vil ég ekki hætta þessu. Hef á tilfinningunni að ef ég hætti þessu þá verði lífið búið. Þetta gefur mér rosalega mikið,“ segir áttræður unglingurinn.

Frímann á heimavelli – á verkstæðinu hjá Sparra í Njarðvík.

Frímann með félögum sínum í Sparra á 80 ára afmælisdaginn.