Laugardagur 28. ágúst 2021 kl. 08:53

Halda sögunni á lofti með myndarlegum skiltum

Merkir menn er félagsskapur sex karla sem hittast alla föstudagsmorgna í Garðinum yfir kaffi og vínarbrauði í bragganum hjá Ásgeiri Hjálmarssyni. Síðasta laugardag merktu þeir félagar yfir þrjátíu hús í Út-Garðinum allt frá Garðskagavita og inn að Bræðraborg. Húsin voru merkt með skilti út við veg þar sem er mynd af viðkomandi húsi í sem upprunalegastri mynd ásamt nafni húss, smíðaári og nöfnum fyrstu ábúenda. Með þessu vilja þeir halda sögunni á lofti því á árum áður höfðu öll hús nöfn og þá þekktust ekki götuheiti og götunúmer.

„Við vorum að ljúka við verkefni sem kom upp við kaffispjall hjá okkur síðasta haust um það að setja upp skilti með myndum af gömlum húsum hér í Garðinum,“ segir Ásgeir. „Við vorum núna að ljúka fyrsta áfanga með því að setja upp þrjátíu og fjögur skilti en í Garðinum stefnum við á að merkja um eitthundrað hús og halda svo áfram með verkefnið í Sandgerði. Við gerðum ráð fyrir að uppsetning þessara skilta í Garði sé þriggja ára verkefni en núna er fyrsta áfanga þess lokið. Hugmyndin er að halda áfram á næsta ári og taka þá önnur þrjátíu til þrjátíu og fimm hús í Gerðum.“

Á skiltunum eru myndir af viðkomandi húsi í sem upprunalegustu formi og birt nöfn fyrstu ábúenda. „Við reynum eftir fremsta megni að fá myndir af húsunum eins og þau litu út alveg í upphafi. Á skiltunum eru einnig ártalið hvenær húsið var byggt og hvað það heitir en öll húsin hér í Garði voru með nöfn.“

Hvernig gekk að fá allar þessar myndir?

„Það gekk nokkuð vel að fá myndir úr Út-Garðinum. Það hjálpaði kannski til að ég er fæddur og uppalinn í Út-Garðinum og þekki kannski meira til hérna en inni í Garði. Þetta gekk bara ótrúlega vel og margir sem áttu alveg ágætis myndir. Svo fundum við myndir á ýmsum stöðum eins og blöðum og bókum. Það er samt erfitt á köflum að finna réttu myndirnar og sums staðar höfum við þurft að nota nokkuð nýlegar myndir þar sem ekki hafa fengist eldri myndir.

Þar sem við ætlum að reyna að halda áfram með þetta verkefni og setja upp merkingar í Gerðahverfi þá viljum við hvetja fólk til að hugsa til okkar í næsta áfanga og finna til myndir bæði úr Gerðum og einnig frá horninu við Krókvöll og inn í Garð. Við erum að tala um hús sem eru byggð fram undir árið 1960.“

Ásgeir segir að þeir félagar hafi fengið góðan hljómgrunn við þessu uppátæki sínu og fólk verið áhugasamt um þetta. „Við höfum verið í góðu samráði við byggingayfirvöld í bæjarfélaginu og einnig skipulagsyfirvöld um niðursetningu á staurum fyrir skiltin. Vegagerðin styrkti okkur með því að setja niður staurana og þá fengum við styrk hjá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja í þennan fyrsta áfanga verkefnisins og við þurfum að senda inn umsókn í haust og kanna hvort við fáum ekki áframhaldandi þátttöku sjóðsins í verkefninu, sem verður vonandi.“

Félagsskapurinn Merkir menn er hópur karla sem hafa komið saman alla föstudagsmorgna klukkan sjö í bragganum hjá Ásgeiri Hjálmarssyni. Þar spjalla þeir um öll heimsins mál og nauðsynjar yfir kaffibolla og vínarbrauði. „Þessi hugmynd kom upp í svona kaffispjalli síðasta haust en ég hafði séð svipuð skilti á ferð minni um Þykkvabæ fyrir nokkrum árum. Hugmyndin er þaðan og ég féll strax fyrir henni. Svo kom þetta til tals í þessum góða hópi okkar og við kýldum á þetta, sóttum um styrk og fengum hann. Nú er fyrsti áfanginn búinn og með glæsibrag,“ segir Ásgeir Magnús Hjálmarsson, fyrrverandi skipstjóri og safnari í Garði, í samtali við Víkurfréttir.