Sunnudagur 11. nóvember 2018 kl. 10:56

Góð tilfinning að bjarga mannslífum

– Guðmundur Ragnar sigmaður hjá Gæslunni harkaði af sér rifbeinsbrot við björgun fimmtán sjómanna á strandstað í HelguvíkGuðmundur Ragnar Magnússon tók þátt í björgunaraðgerðum við afleitar aðstæður í Helguvík aðfaranótt laugardags þegar sementsflutningaskipið Fjordvik strandaði á leið til hafnar. Um borð voru fjórtán manna áhöfn og hafnsögumaður frá Reykjaneshöfn. Það var hlutverk Guðmundar að síga niður í skipið, stjórna aðgerðum þar og koma öllum fimmtán skipbrotsmönnunum heilum upp í þyrluna.

Guðmundur hefur starfað hjá Landhelgisgæslunni í tólf ár og á þeim tíma hefur hann m.a. einu sinni áður komið að jafn stórri björgun þegar fimmtán skipverjum var bjargað af skipi suður af landinu.

„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á björgunarstörfum þannig að það var bara rökrétt að leiðin lægi þangað,“ segir Guðmundur þegar hann er spurður út í ástæður þess að hann sóttist eftir vinnu hjá Landhelgisgæslunni. Sjómannsferillinn er einnig að mestu leyti hjá Gæslunni. Guðmundur hafði aðeins stundað róðra með föður sínum en stefnan var alltaf sett á Landhelgisgæsluna þar sem hann ætlaði á þyrlurnar og í starf sigmannsins. Fyrstu sex árin hjá Landhelgisgæslunni var Guðmundur stýrimaður á varðskipunum en síðustu ár hefur hann verið í áhöfnum björgunarþyrla í starfi stýrimanns og sigmanns.

„Sigmenn á þyrlunum eru stýrimenn af varðskipunum. Það er krafa um að menn hafi minnst árs siglingatíma á varðskipi áður en þeir verða sigmenn í þyrlu. Ég var í sex ár á sjó áður en ég fór á þyrlurnar.“

Hvernig er hin daglega vinna sigmannsins?

„Þegar við erum á vakt þá er það þannig að við æfum einu sinni á dag og það krefst undirbúnings. Æfingarnar eru mismunandi. Við æfum að bjarga úr fjöllum og einnig af sjó úr björgunarbátum og skipum. Þetta gerum við aftur og aftur, eins oft og þarf.“

Við spurðum hvort menn þyrftu ekki að vera svolítið geggjaðir að láta sig húrra út úr þyrlunni við erfiðar aðstæður. Guðmundur var ekki á því.

„Ég held að menn þurfi frekar að vera jarðbundnari. Þetta er ekki endilega starf fyrir þá sem eru spennufíklar. Það er afskaplega sjaldan sem það er spenna í gangi. Það sem kann að líta út fyrir að vera mjög spennandi og spondant er hins vegar undir mikilli stjórn og við erum alltaf að vinna í verkferlum.“

Er raunveruleikinn öðruvísi en það sem þið gerið á æfingum?

„Já og nei. Í raunveruleikanum ráðum við ekki aðstæðum en á æfingum höfum við stjórn á þeim og getum hætt þegar við viljum. Í raunveruleikanum er þetta öðruvísi en við vinnum alltaf í verkferlum. Það geta komið upp atvik í útköllum sem rjúfa keðjuna eins og þegar sigmaður slasar sig. Á æfingu væri henni vara sjálfhætt en í raunverulegum aðstæðum verður að klára verkefnið eða fá eitthvern annan í það.“

Hvernig ert þú að undirbúa þig á leið í útkall?

„Ég er aðallega að safna upplýsingum af vettvangi. Við fáum fyrstu upplýsingar í gegnum stjórnstöðina okkar sem er í sambandi við vettvang. Þegar þyrlan leggur af stað er hún í beinu sambandi við vettvang og þá söfnum við saman upplýsingum um veður og hvernig skipið liggur. Í þessu tilviki þá vissum við ekki útlit skipsins en oft erum við búnir að verða okkur út um þær upplýsingar. Maður hugsar um þá þjálfun sem maður hefur og verkefnið sem er fyrir höndum og undirbúa sig fyrir það.“Þetta er risastórt verkefni að vita af fimmtán mönnum sem þarf að hífa upp í þyrluna.

„Já, það er mjög stórt verkefni og sjaldgæft að við þurfum að fara í svona stórar bjarganir. Í flestum tilvikum þegar við erum að hífa úr skipum þá erum við bara að hífa einn sem yfirleitt er slasaður. Þarna er hins vegar lífbjörg eða mannbjörg. Það þurfti að ná þessum mönnum frá skipinu og við erum að sjá fyrir okkur ýmsar sviðsmyndir í því. Við metum það hvort við sækjum fyrst bara helminginn af áhöfninni og sækjum svo hina eða hvort við getum tekið alla í einu.“

Í þessu útkalli voru aðstæður erfiðar. Ykkur gekk ekki vel að tengja saman þyrlu og skip.

„Það gekk brösuglega fyrst. Það var hvasst á vettvangi og áhöfnin vissi ekki hvernig átti að taka á móti tengilínunni. Það var íslenskur lóðs um borð og við ræddum við hann til að koma boðum til áhafnarinnar og þá gekk þetta ágætlega. Það var enginn til að taka á móti í upphafi en það leystist mjög fljótt.“

Þyrlan er tengd skipinu þannig að áður en sigmaður fer niður í vírnum er blýlína með þyngingu á enda látin síga niður með handafli og skipverji fenginn til að taka við endanum. Sigmaðurinn fer síðan niður með vírnum og línan er fest við vírinn. Þannig er öruggara fyrir sigmanninn að komast um borð í skipið. Þessi tenging auðveldar svo flugstjóra þyrlunnar sína vinnu þar sem ekki þarf eins mikla nákvæmni við að koma mönnum hvort sem er í eða úr þyrlunni.

Það verður hins vegar harkaleg lending þegar þú ferð um borð í skipið?

„Já. Það sem gerðist var að það var mikil hreyfing á skipinu. Hreyfingar á skipi sem er uppi í fjöru geta verið óútreiknanlegar á meðan hreyfingar á skipi úti á sjó má sjá fyrir ölduna og hvernig hún kemur. Það sem gerist hjá mér er að ég kem of hratt inn, hvort sem skipið er að koma á móti mér eða aðrar ástæður. Skipið kemur upp á móti mér og ég næ ekki að fóta mig og fell á box sem er á brúarþakinu. Ég fékk það í síðuna og það var mjög sárt.“

„Ég áttaði mig á að það hefði eitthvað brotnað eða brákast. Ég fann það þegar ég andaði djúpt hvað var að gerast“

Þú hefur strax áttað þig á að það var eitthvað alvarlegt sem hafði gerst?

„Ja, alvarlegt? Ég áttaði mig á að það hefði eitthvað brotnað eða brákast. Ég fann það þegar ég andaði djúpt hvað var að gerast. Lóðsinn var þarna uppi á brúarþakinu og sá líka hvað hafði gerst og aðstoðaði mig á fætur og ég kann honum miklar þakkir fyrir það. Í framhaldi af því fór hann niður og inn í brú og það var þægilegt fyrir okkur á þyrlunni að vera í fjarskiptum við hann því það var erfitt fyrir okkur að tala við útlendingana.“

Voru menn kallaðir upp einn á eftir öðrum eða hvernig fer þetta fram?

„Nei, við fengum þá alla til að koma upp á brúarþakið og vera þar. Svo virkar þetta þannig að ég stjórna því hverjir fara. Þegar sigmaður er kominn um borð þá tekur hann stórn á vettvangi, gefur fyrirmæli og sýnir hvernig gera á hlutina.“

Fer einn upp í einu?

„Við hífðum tvo og tvo í einu til að vera fljótari og það gekk bara vel en þeir voru nokkuð hræddir skipverjarnir. Þeir voru skelfdir því þeir höfðu aldrei verið í þessum aðstæðum áður og hugsanlega flestir að fara upp í þyrlu í fyrsta skipti – og það við erfiðar aðstæður þarna.“

Þú sagðir í viðtali við Morgunblaðið að það væri munur á erlendum sjómönnum og þeim íslensku, sem hafa allir farið í slysavarnaskóla sjómanna.

„Algjörlega. Það er allt öðruvísi að vinna með íslenskum sjómönnum. Þeir hafa margir verið hífðir upp í þyrlu áður og þeir sem ekki hafa verið hífðir hafa þá a.m.k. orðið vitni að því og því auðvelt að vinna með þeim en erfitt með útlendingunum. Þá eru aðferðir mismunandi milli landa hvernig þyrlubjörgun fer fram og því þurfum við að vera duglegir að segja mönnum til.“

Þeir hafa upplifað sig bjargarlausa þegar þeir voru komnir í beltið og krókinn?

„Já, en þá þarf bara að toga þá til. Sumir voru bara með lokuð augun og biðu þess sem koma skal. Þá þarf maður bara að segja þeim að þetta verði allt í lagi og tæki stuttan tíma.“

Þessi aðgerð að hífa fimmtán skipverja frá borði og upp í þyrluna tók rúman hálftíma.

„Þetta tók aðeins lengri tíma en það sem við myndum segja að væri standard. Það er svo sem ekkert staðlað í þessu og sérstaklega við öðruvísi aðstæður eins og voru þarna.“

Veðrið var erfitt og aðstæður fyrir þyrluna ekki eins og þið hefðuð kosið.

„Vindurinn kom á hlið á vélinni þannig að það þurfti að handfljúga henni meira en annars.“

Þið höfðuð aðstoð á vettvangi, TF-LÍF var þarna líka. Fór hún í loftið á svipuðum tíma og þið?

„Hún fór í loftið á eftir okkur og var okkur til aðstoðar ef á þyrfti að halda. Það var alveg inni í myndinni frá upphafi að við tækjum hluta af mannskapnum og þeir hluta.“

En þið ákveðið að klára þetta sjálfir á TF-GNÁ í einum rikk?

„Já, við erum stöðugt að reikna út afkastagetu vélarinnar á meðan við erum að vinna. Við brenndum það miklu eldsneyti að við sáum fram á að geta klárað þetta verkefni.“

Þið eruð fimm í áhöfn og svo eru komnir fimmtán skipbrotsmenn um borð. Þið komið varla mikið fleiri um borð í þyrluna?

„Það hefði alveg verið hægt að troða betur en það var búið að dreifa mönnum vel um vélina en það var lítið pláss eftir.“

Þið lentið svo þarna skammt frá bjargbrúninni og settuð mannskapinn í land.

„Já, við þurftum að finna okkur góðan lendingarstað. Við vildum ekki lenda á bryggjunni þar sem þar eru möstur og annað sem getur skapað hættu fyrir okkur. Við lentum því á slóða skammt frá og fengum lögreglu og björgunarsveitir þangað.“

Hvernig er mönnum svo innanbrjósts eftir svona björgunaraðgerð?

„Maður er bara fullur sjálfstrausts, sérstaklega þegar það hefur gengið vel og bjargað mörgum og það er ástæðan fyrir því að við erum í þessu. Við höfum gaman af þessu og það er mjög góð tilfinning að bjarga mannslífum.“„Sumir voru bara með lokuð augun og biðu þess sem koma skal. Þá þarf maður bara að segja þeim að þetta verði allt í lagi og tæki stuttan tíma.“

Þú hlýtur að vera ánægður með að hafa komið fimmtán mönnum heilum í höfn?

„Já, þetta eru fimmtán menn sem eiga fimmtán fjölskyldur og margt fólk á bak við hvern mann.“

Guðmundur verður frá vöktum í þrjár til sex vikur en mun sinna vinnu í dagvinnu, enda mörg verkefni hjá Landhelgisgæslunni sem hægt er að sinna þó svo hann sé ekki í hlutverki sigmannsins á meðan rifbeinin gróa.

Og það eru húmoristar sem vinna með Guðmundi Ragnari hjá Landhelgisgæslunni. Þeir buðu honum í mat á mánudaginn og réttur dagsins var viðeigandi.

„Þeir buðu mér upp á rif. Það var vel þegið,“ segir Guðmundur og hlær.