Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 13. júní 2020 kl. 07:28

Fullkomin lopapeysa á forsætisráðherra

sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem fékk nýja VG lopapeysu frá Jónatan Stefánssyni, vini sínum suður með sjó. Hann mætti í Stjórnarráðið með peysuna á ráðherrabíl.

Þær eru misjafnar heimsóknirnar og gjafirnar sem forsætisráðherra Íslands fær alla jafna. Suðurnesjamaðurinn Jónatan Jóhann Stefánsson er gallharður stuðningsmaður Katrínar Jakobsdóttur og kom færandi hendi með óvænta gjöf til hennar nýlega í Stjórnarráðið, forláta rauða lopapeysu, prjónaða í Sandgerði, merkta VG. 

Jónatan er félagi númer sjö í Vinstri hreyfingunni Grænu framboði á Suðurnesjum og segir skemmtilega frá því í viðtali sem Páll Orri Pálsson, fréttamaður Víkurfrétta, átti við hann þegar hann heimsótti Katrínu í Stjórnarráðið. Ástæðan fyrir óvæntu peysugjöfinni er skemmtileg en  þegar Katrín mætti með félögum sínum í Vinstri grænum í heimsókn til Suðurnesja rétt fyrir COVID-19 hreyfst hún af rauðri lopapeysu vinar síns á fundi hennar á Hótel Keflavík.

Jónatan tók hana á orðinu og fékk saumakonuna Kristínu Kristjánsdóttur í Sandgerði til að prjóna peysu á Katrínu. Svo þegar hún var tilbúin var pantaður tími hjá forsætisráðherra sem sagðist taka glöð á móti vini sínum.

„Ég fór bara strax að huga að því að láta prjóna á hana svona peysu,“ sagði Jónatan sem var spenntur að vita hvort hún passaði ekki á hana.

Jónatan er vinamargur maður og þeir Ásmundur Friðriksson og Margeir Elentínusson fóru með honum til fundar við Katrínu til að færa henni peysuna, Margeir sem einkabílstjóri og Ási sem aðstoðarmaður. Auðvitað mætir einn mesti VG félagi á Suðurnesjum í ráðherrabíl þegar hann hittir ráðherrann sinn og sat aftur í bílnum að sið ráðherra.

Katrín bauð þeim félögum inn í hús Stjórnarráðsins og sýndi Tana fundarherbergi ríkisstjórnarinnar og aðstæður í húsinu. Okkar maður hafði hins vegar mun meiri áhuga á því að Katrín mátaði peysuna en Kristín saumakona hafði fengið þrjá konur sem voru áþekkar Katrínu til að máta hana. „Hún er fullkomin,“ sagði Katrín eftir að hún hafði smellt sér í peysuna og undir það er hægt að taka eins og sjá má á myndum og í myndskeiðinu. 

Ásmundur, Jónatan, Katrín og Margeir í stjórnarráðinu.

Margeir Elentínusson og Tani við ráðherrabílinn.