Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 3. október 2020 kl. 07:30

Frekari uppbygging og vöxtur á Reykjanesi

Áherslur HS Orku á komandi árum verður frekari uppbygging Auðlindagarðsins á Reykjanesi sem og meiri nýting auðlinda við Reykjanesvirkjun og Svartsengisvirkjun.

Nýr forstjóri HS Orku, Tómas Már Sigurðsson, segir að megináhersla fyrirtækisins á næstu árum verði frekari uppbygging og vöxtur Auðlindagarðsins á Reykjanesi sem og meiri nýting auðlinda við Reykjanesvirkjun og Svartsengisvirkjun. Útboð vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar hefur verið auglýst en framleiðslugetan mun fara úr 100 í 130 megavött. Orkuverið í Svartsengi verður endurnýjað og stefnt að því að ná fram meiri nýtingu úr því til stækkunar en ýmis búnaður þess er orðinn nærri fimmtíu ára gamall.


Álið stopp á vesturlöndum

Tómas hefur mikla reynslu úr áliðnaðinum en hann hefur starfað síðustu sextán árin fyrir Alcoa álfyrirtækið, fyrst sem forstjóri á Reyðarfirði í sex ár en síðustu tíu á alþjóðlegum vettvangi í sama starfi í Genf og í New York. Maður kemur því ekki að tómum kofanum þegar rætt er um stóriðjurekstur og því er freistandi að byrja á því að spyrja hann út í álversbyggingu sem hefur staðið ónotuð í meira en áratug á Suðurnesjum.

„Það segir sig sjálft af hverju hún liggur óhreyfð. Mikill iðnaður hefur byggst upp í Kína síðustu fimmtán árin sem hefur skaðað áliðnaðinn á heimsvísu. Kínverjar hafa verið að nota kolaorkuver í sinni uppbyggingu en aðrir aðilar í Evrópu og Kanada hafa verið að nota græna orku. Miðað við þessa stöðu tel ég ekki miklar líkur á því að það verði mikil uppbygging í áliðnaði í Vesturheimi næstu áratugina.“

Lífeyrissjóðirnir með helming

– HS Orka byggir á grunni Hitaveitu Suðurnesja, sem nefnt var Óskabarn Suðurnesja. Það hafa verið breytingar í eignarhaldinu, hvernig er staðan á því núna?

„Við eigum fyrirtækið öll því núna er helmingurinn í eigu lífeyrissjóða á Íslandi sem saman stofnuðu félagið Jarðvarma sem á 50% hlut í HS Orku. Hinn helmingurinn er í eigu bresks sjóðs sem heitir Ancala en hann byggir líka á lífeyrissjóðum í Bretlandi. Þannig að báðir aðilar horfa til langs tíma og vilja bara tryggan og öruggan rekstur eins og stefnan var í upphafi. Ég myndi því segja að eigendastaðan væri mjög góð í dag. Hér er horft til vaxtar og uppbyggingar og þar er sérstaklega horft til Auðlindagarðsins og hluthafar okkar eru mjög samstíga og sammála þeim áherslum. Ég held að við getum öll verið sátt við það að nú sé komin ró í hluthafahópinn.“

Fókusinn á Suðurnesin

Tómas segir að meginfókusinn verði á meiri uppbyggingu á Reykjanesi. „Það er gaman að segja frá því að þó við séum bara tæplega 70 starfsmenn í HS Orku þá eru um 1.500 störf í fyrirtækjunum  í Auðlindagarðinum beintengd okkur. Það eru fyrirtæki sem hafa verið að vaxa og vilja vaxa og þarna liggja okkar áherslur, að halda áfram að vaxa með þessum fyrirtækjum. Við höfum nokkur verkefni hér á Suðurnesjum í okkar virkjunum sem við getum farið í á næstu árum og það munum við gera. Það verða okkar áherslur.“

– Þið sjáið áfram mikla möguleika í Auðlindagarðinum sem hreinlega varð til með þróun Hitaveitu Suðurnesja og HS Orku í gegnum árin?

„Auðlindagarðurinn er óskabarn fyrirtækisins alveg eins og Hitaveitan var óskabarn Suðurnesja. Auðlindagarðurinn er hugmyndaverk starfsmanns okkar til áratuga, Alberts Albertssonar, þar sem nýsköpun og frjó hugsun sem hann kom með í anda sjálfbærni, skynsamlegrar nýtingar á auðlindum og samfélags án sóunar, er í forgrunni. Það er það sem Auðlindagarðurinn gengur út á. Þar sjáum við fyrirtæki í margvíslegum og fjölbreyttum rekstri sem hafa áhuga á að vaxa eins og við. Við höfum áhuga á að stækka okkar virkjanir og á sama tíma að laða að fleiri fyrirtæki í garðinn og höfum í þeim efnum bætt við okkur starfsfólki í þau störf. Þannig að við sjáum fyrir okkur frekari uppbyggingu í Auðlindagarðinum á næstu árum og höfum fundið fyrir auknum áhuga á garðinum m.a. í gegnum erlenda hluthafa okkar. Við höfum fengið fyrirspurnir þaðan.“

Tómas segir að áhugi sé til vaxtar hjá fyrirtækjum í garðinum, eins og t.d. í þörungarækt og einnig í gróðurhúsarækt, bæði hjá aðilum hér á landi og erlendis.

„Það hefur verið mikil framþróun í þeirri starfsemi, alger bylting í raun. Einnig má nefna möguleika í vinnslu koltvísýrings sem hægt er að nýta betur og þá er mikill áhugi á vetnisframleiðslu í tengslum við Auðlindagarðinn. Þannig að möguleikarnir eru miklir.“

Sterkan heimamarkað

– Sem sagt áherslan á heimasvæði fyrirtækisins sem þó starfar á landsvísu?

„Suðurnesin eru okkar heimamarkaður og Suðurnesjamenn okkar bestu viðskiptavinir. Við viljum sjá okkar heimamarkað sterkan, reyna að skapa fleiri störf á svæðinu en jafnframt að huga að góðum rekstri fyrirtækisins sem er í helmingseigu lífeyrissjóðanna. Við sjáum HS Orku sem sterkan samfélagslegan aðila á Suðurnesjum en einnig vel rekið fyrirtæki.“

– Hvað með þróun fyrirtækisins, í Svartsengi og á Reykjanesi?

„Við erum að fara að ýta af stað 30 MW stækkun í Reykjanesvirkjun sem er mjög áhugaverð. Við þurfum ekki að bora neitt fyrir þeirri stækkun heldur erum við að nýta glatvarma betur sem er mjög jákvætt. Svo eru skemmtilegir möguleikar í Svartsengisvirkjun sem er orðin 47 ára gömul. Þar er kominn tími á vissa endurnýjun og við sjáum möguleika til að geta nýtt auðlindina betur með nýrri búnaði, sem sagt að styrkja og jafnvel stækka Svartsengi ef leyfi fást til þess.“

– Þetta er áhugavert með Svartsengisvirkjun sem var tekin í notkun fyrir tæpri hálfri öld.

„Í dag eru framleidd 67 MW í Svartsengi og við sjáum fram á að geta nýtt auðlindina betur. Tækin sem sett voru upp hér í upphafi eru enn í notkun og hluti þeirra var ekki einu sinni nýr á sínum tíma. Bætt nýting og betri tækni gefur okkur möguleika í þessum efnum. Stækkun er háð samþykki í rammaáætlun um orkunýtingu, miðað við regluverkið í dag og við vonumst til að geta aukið framleiðsluna um 30 MW í viðbót. Það er því óhætt að segja að það sé bjart framundan hjá okkur og mörg spennandi og skemmtileg verkefni fyrir tæknifólkið og verkfræðingana okkar til að takast á við.“

– Hvað með önnur verkefni eins og djúpborun á Reykjanesi?

„Það er mjög spennandi verkefni. Það er enn samstarfsverkefni margra aðila og verið að vinna úr þeim upplýsingum og niðurstöðum. Það hefur nýst okkur vel  tæknilega séð, í borun og úr vinnslunni. Áherslan verður samt á möguleikann í betri nýtingu auðlindarinnar okkar á Reykjanesi og í Svartsengi. Þar verður fókusinn á næstunni. HS Orka er síðan er góðu samstarfi við á annan tug smávirkjana úti á landi sem nýta fallorku til rafmagnsframleiðslu. Þar kaupum við rafmagnið og veitum því út á kerfi Landsnets og dreifiveitna og endurseljum almenningi og fyrirtækjum.“

Öryggi í annað samhengi

– Hvað með allar þessar jarðhræringar í nágrenni Svartsengis á þessu ári?

„Jarðhræringar á þessu svæði á þessu ári hafa sett afhendingaröryggi og öryggi mannvirkja hér í annað samhengi. Þótt við fögnum jarðhræringum á ákveðin hátt en það segir okkur að það sé ennþá að koma varmi inn í okkar auðlind, þurfum við að huga að örygginu og þar skiptir máli að efla Suðurnesjalínuna. Hún myndi hafa mikið að segja í afhendingaröryggi og við teljum mikilvægt að ljúka því verkefni.“

– Hafið þið haft skoðun á því hvort Suðurnesjalína 2 verði lögð í lofti eða í jörðu?

„Nei, við höfum ekki haft neinar skoðanir á því. Það er samt mikilvægt að klára málið sem fyrst.“

– Þannig að starfsemi ykkar í Svartsengi, í nágrenni jarðhræringanna, þolir þær vel en hafið þið þurft að gera frekari ráðstafanir upp á framtíðina?

„Við sitjum hér á 750 ára gömlu hrauni, sem er ungt. Við fundum fyrir jarðhræringunum starfandi hér en auðlindin ekki og ekki heldur mannvirkin í Svartsengi. Þau eru öll hönnuð miðað við staðsetninguna og það var jákvætt að sjá að það stóðst allt saman. Við þurftum samt að fara yfir allar viðbragðsáætlanir og líka gera nýjar áætlanir í einhverjum tilfellum. Vonandi er þetta samt afstaðið í bili. Vissulega erum við á virku svæði en það hefur verið hugsað til þess alla tíð og ljóst að það þolir vel jarðhræringar og skjálfta.“

Virkir þátttakendur á Suðurnesjum

– HS Orka er stórt fyrirtæki á Suðurnesjum og samofið samfélaginu með stofnun Hitaveitu Suðurnesja á sínum tíma. Er hugur ykkar þar ef við spyrjum um samfélagslega ábyrgð?

„Við tökum þeirri ábyrgð fagnandi og viljum vera virkir þátttakendur í samfélaginu og þeim verkefnum sem eru sett á oddinn. Ég sé okkur halda áfram á þeirri vegferð og viljum styrkja hana enn frekar.“

– Hefur eitthvað komið þér á óvart frá því þú komst inn í fyrirtækið og til starfa á Suðurnesjum í ársbyrjun?

„Allt bara jákvætt. Það er gífurleg þekking í fyrirtækinu og frábært starfsfólk. Svo er svæðið alveg einstakt. Ég, sem Reykvíkingur, var ekki búinn að ganga mikið á fjöll og um fólkvanginn á Suðurnesjum. Náttúrufegurðin er einstök. Þá hefur mér þótt mjög áhugavert að kynnast starfsemi fyrirtækjanna í Auðlindagarðinum. Það hefur opnast fyrir mér nýr heimur varðandi frekari tækifæri þar. Framtíðin fyrir Suðurnesin er björt, að nýta auðlindina í atvinnuuppbyggingu og tækifærin eru mýmörg,“ segir Tómas Sigurðsson.

Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Tómas í Suðurnesjamagasíni.

„Suðurnesin eru okkar heimamarkaður og Suðurnesjamenn okkar bestu viðskiptavinir. Við viljum sjá okkar sjá okkar heimamarkað sterkan, reyna að skapa fleiri störf á svæðinu en jafnframt að huga að góðum rekstri fyrirtækisins sem er í helmingseigu lífeyrissjóðanna“

Tómas Sigurðsson, forstjóri HS Orku.

Í stækkun Reykjanesvirkjunar er gert ráð fyrir nýju stöðvarhúsi um tvö þúsund fermetrum að flatarmáli sem skiptist í vélasal og stjórnbyggingu. Þá er skiljustöð um eitt þúsund fermetrar að flatarmáli. Gert er ráð fyrir að stöðvarhús verði tilbúið í lok október 2022 og skiljustöð í júní 2022.