Fimmtudagur 24. október 2019 kl. 20:30

Fló og fiðlur í Suðurnesjamagasíni

- ásamt öryggismálum á Keflavíkurflugvelli


Suðurnesjamagasín Víkurfrétta er á dagskrá Hringbrautar kl. 20:30 á fimmtudagskvöldum og er þátturinn orðinn aðgengilegur á vf.is.

Í þætti vikunnar förum við í Frumleikhúsið í Keflavík þar sem við fylgjumst með æfingu á „Fló á skinni“ og ræðum við leikara og leikstjóra í innslagi sem Marta Eiríksdóttir og Hilmar Bragi unnu saman.

Við förum einnig á vinnustofu fiðlusmiðs. Jón Marinó Jónsson, meistari í hljóðfærasmíði, hefur smíðað hljóðfæri fyrir strengjasveit sem ætlar að koma saman í Hljómahöll á næstu dögum og leika á hljóðfærin hans Jóns. Við ræðum við Jón um hljóðfærasmíðina en viðurinn í hljóðfærin er úr flutningaskipinu Jamestown sem strandaði við Hafnir árið 1881. Við heyrum einnig tóndæmi í þættinum en strengjakvartettinn Spútnikk leikur hluta úr lögum sem verða á efnisskrá tónleikanna í Hljómahöll. Páll Ketilsson ræddi við Jón Marinó.

Isavia leggur ríka áherslu á öryggismál og að allt starfsfólk Keflavíkurflugvallar taki virkan þátt í að tryggja öryggi á vinnustaðnum. Til að efla þennan þátt var haldin Öryggisvika á Keflavíkurflugvelli. Við kíktum á öryggisvikuna.

Þátturinn er í spilaranum hér að ofan.

Jón Marinó Jónsson með eina af fiðlunum sem hann hefur smíðað.