Föstudagur 5. apríl 2024 kl. 18:51

Fjallagarpar í Suðurnesjamagasíni

Suðurnesjamagasín fór á rúntinn með alvöru fjallabíl í þætti vikunnar. Fjallagarpar er fjölskyldufyrirtæki hjónanna Írisar Óskar Kristjánsdóttur og Guðmundar Helga Önundarsonar. Fyrirtækið var stofnað út frá einskærum áhuga hjónanna á fjallaferðum en nánast fyrstu æskuminningar Guðmundar eru af slíkum ferðum með föður sínum.

Þau byrjuðu á að fá sér breyttan jeppa en í dag gera þau út þrjá bíla, sá stærsti gengur undir nafninu Mosi og er mikið breyttur ellefu manna Sprinter. Allir bílarnir myndu flokkast undir að vera lúxusbílar enda er kúnnahópurinn að langstærstum hluta til hinn erlendi svokallaði high class ferðamaður. 

Eins og nafn fyrirtækisins ber með sér er mikið farið á fjöll en Reykjanesið hefur líka verið mjög vinsæll staður en síðan hamfarirnar áttu sér stað í Grindavík 10. nóvember hefur það verið lokað að stórum hluta til.