Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 13. júní 2022 kl. 10:26

Eignaðist 25 feður á sjónum

Einar Hannes Harðarson, sjómaður og formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur (SVG), er mjög áhugaverður náungi fyrir margra hluta sakir. Hann var nær því að vera ólæs þegar hann útskrifaðist úr grunnskóla, gerðist þá háseti á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni og öðlaðist má segja nýtt líf. Hann lenti í frábærri áhöfn undir styrkri stjórn Hilmars Helgasonar og má segja að piltur hafi fyrst lært að lesa þá. Árið 2014 gerðist hann formaður SVG og það leiddi af sér setu í samninganefnd sjómanna í kjaradeilum við útgerðarmenn. Að samningaborðinu settist háttvirtur þáverandi sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og þótti gömlu bekkjarsystkinum Einars alveg hreint lygilegt að sjá þau labba saman út af slíkum samningafundi. Hvernig gat þessi óalandi óþekktarormur frá æskuárunum, sem varla var læs, komið sér í þessa stöðu? - Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Einar Hannes of innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.