Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 15. mars 2021 kl. 18:20

Bless, bless, hvalur!

Hnúfubakurinn sem um 12.000 manns skoðuðu í fjörunni við Kirkjubólsgolfvöllinn í Suðurnesjabæ um helgina hefur verið fjarlægður úr fjörunni þar sem hann lá steindauður og rotnandi.

Köfunarþjónusta Sigurðar og áhöfn á björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein fjarlægðu hvalinn snemma í morgun. Gera átti tilraun til að sökkva hræinu eða koma því fyrir á svæði sem væri ekki í almannafæri, því rotnandi hvalshræi fylgir ekki góð lykt þegar sól hækkar á lofti og hiti eykst.

Illa gekk að sökkva hræinu og sjóveður var afleitt og í samráði við Landhelgisgæsluna var hræið dregið langt á haf út þar sem því var sleppt í þeirri von að hafstraumar flytji það sem lengst frá landi.

Lárus Óskarsson, formaður Golfklúbbs Sandgerðis, tók meðfylgjandi myndskeið þegar hvalurinn var dreginn út á morgunflóðinu.

Þrátt fyrir að hvalurinn væri farinn úr fjörunni þá lögðu margir leið sína á staðinn í dag og gripu í tómt. Það er hins vegar hressandi að labba úti í slagveðri eins og verið hefur í dag.