Miðvikudagur 10. janúar 2024 kl. 10:54

Algjör forsendubrestur hjá Grindavíkurbæ

„Ljóst er að forsendubrestur fjárhagsáætlunarvinnunnar er algjör og allar fjárhagslegar forsendur eru nú breyttar í rekstri Grindavíkurbæjar. Fjárhagsáætlun bæjarfélagsins og stofnana fyrir árin 2024–2027 er því sett fram með mikilli óvissu. Fyrir liggur að tekjur Grindavíkurbæjar muni dragast saman á árinu 2024 en kostnaður mun ekki dragast saman samhliða tekjutapinu,“ segir í afgreiðslu bæjarstjórnar Grindavíkur á þriðjudaginn. Þetta er fyrsti fundur bæjarstjórnarinnar í heimabænum síðan í október á síðasta ári en stjórnkerfi Grindavíkurbæjar hefur haft aðsetur í ráðhúsi Reykjavíkur frá því að Grindavík var rýmd 10. nóvember í fyrra.

Fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar fyrir árin 2024-2027 var stærsta málið á fundinum og var hún samþykkt samhljóða fyrir Grindavíkurbæ og stofnanir. Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að leik- og grunnskóli muni starfa utan Grindavíkur fram á vor 2024 en að næsta skólaár muni starfsemin vera starfrækt í Grindavík eins og áður hefur komið fram.

Umfram allt gerir fjárhags-áætlun ráð fyrir innviðauppbyggingu og viðhaldi til að tryggja öryggi bæjarbúa og stuðla að uppbyggingu samfélagsins með sem bestum hætti. Árið 2024 mun einkennast af viðaukum við fjárhagsáætlun vegna reksturs og fjárfestinga. Rekstur Grindavíkurbæjar hefur verið góður og ábyrg fjármálastjórn er bæjarfélaginu gott veganesti fyrir þá vinnu sem framundan er, segir einnig í afgreiðslu fundarins.

Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir halla að fjárhæð 241,5 milljónir króna. Í samanteknum reikningsskilum er halli að fjárhæð 371,6 milljónir króna, en við fyrri umræðu var gert ráð fyrir jákvæðri afkomu að fjárhæð 380 milljónir króna. Á árinu 2024 mun handbært fé lækka um 773,5 milljónir króna og verða í árslok 359,9 milljónir króna.

Þá kom fram á fundinum að sveitarfélagið getur ekki leitað í úrræði ríkisins vegna launa, því frumvarpið nær eingöngu til launafólks og atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði, auk sjálfstætt starfandi einstaklinga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Grindavíkurbær þarf því á eigin vegum að standa straum af launakostnaði starfsmanna Grindavíkurbæjar á meðan ástandið varir.

Á vef Víkurfrétta má sjá viðtal við Ásrúnu Helgu Kristinsdóttur, forseta bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar, sem tekið var fyrir bæjarstjórnarfundinn.

Frá fundi bæjarstjórnar Grindavíkur á þriðjudaginn.