Miðvikudagur 23. janúar 2019 kl. 10:52

70-80% bæjarbúa á móti rekstri kísilvera í Helguvík

Friðjón Einarsson og Guðbrandur Einarsson frá meirihlutanum í Reykjanesbæ segja mikinn meirihluta bæjarbúa mótfallinn rekstri kísilvera í Helguvík

Um 70-80% bæjarbúa í Reykjanesbæ eru á móti áframhaldandi rekstri kísilvera í Helguvík miðað við niðurstöður úr skoðanakönnun sem gerð var nýlega í bæjarfélaginu. Þeir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs og Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinar leiðar segja að mikilvægt sé að jafn stórt mál og rekstur kísilvera í Helguvík þurfi að leggja fyrir bæjarbúa. 70% sögðust í könnun sem Reykjanesbær lét gera en þegar þegar eingöngu voru taldir sem tóku afstöðu var talan 80%.

Víkurfréttir ræddu við þá félaga um þá yfirlýsingu sem lögð var fram á bæjarstjórnarfundi í gær en þar eru Arion banki og Thorsil hvött til að falla frá öllum áformum um uppbyggingu og rekstur kísilverksmiðja í Helguvík. Yfirlýsingin var lögð fram á bæjarstjórnarfundi af fulltrúum meirihlutans og bæjarfulltrúa Miðflokksins. Sjálfstæðismenn og fulltrúi Frjáls afls lögðu fram sínar bókanir sem voru með stuðning við rekstur í Helguvík.