Mannlíf

VF 1988: Margrét og Jón Ingi ungmenni Holtaskóla
Laugardagur 30. janúar 2021 kl. 06:19

VF 1988: Margrét og Jón Ingi ungmenni Holtaskóla

Nemendur Holtaskóla tóku forskot á fegurðarsæluna er nemendafélag skólans hélt fegurðarsamkeppni fyrir stúlkur og drengi sl. föstudag. Keppt var um titilinn „Herra Holtaskóli“ og „Ungfrú Holtaskóli“.

Níu drengir kepptu um „Herra” titilinn og tólf stúlkur um titilinn „Ungfrú”. Herrarnir komu fram á sundskýlum og í samkvæmisfatnaði en stúlkurnar í sundbolum og samkvæmisfatnaði.

Verðlaunin voru vegleg eins og alltaf í slíkum keppnum. Sigurvegararnir fengu kórónur, smíðaðar að Sveinbirni smíðakennara skólans, blómvendi, að ógleymdum silkiborðum sem á var ritað titilheitið.

Titilinn „Herra Holtaskóli“ hlaut drengur í 9. bekk að nafni Jón Ingi Jónsson, annar varð Guðmundur P. Hilmarsson, einnig úr 9. bekk og hlaut hann nafnbótina „Yngissveinn Holtaskóla”. Fögur snót úr 8. bekk, Margrét Elísabet Knútsdóttir, var valin fegursta stúlka skólans og ber hún nú titilinn „Ungfrú Holtaskóli“. Í öðru sæti varð Jana Guðmundsdóttir og hlaut hún nafnbótina „Yngismær Holtaskóla“.

Dómnefndin var skipuð valinkunnum Suðurnesjamönnum og veitti henni forstöðu Kolbrún Jenný Gunnarsdóttir, „Ungfrú Suðurnes 1986“. Kolbrún krýndi jafnframt sigurvegarana. Nemendur Holtaskóla troðfylltu sal skólans og var stemmingin þar gífurleg.

Texti og myndir: Margeir Vilhjálmsson

VF.is birtir eldra efni af síðum Víkurfrétta sem fögnuðu nýlega 40 ára útgáfuafmæli. Meðfylgjandi grein birtist 17. mars 1988.