Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Skelfilegt að horfa á húsið brenna
Unndór og Birna, kona hans, horfðu á húsið sitt brenna.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 18. janúar 2024 kl. 06:14

Skelfilegt að horfa á húsið brenna

„Það vantaði bara að Stallone birtist á skjánum,“ segir Unndór Sigurðsson en hann var einn þriggja húseigenda í Grindavík sem misstu húsin sín undir hraunið úr eldgosinu.

Unndór Sigurðsson og fjölskylda voru búin að koma sér vel fyrir í húsinu sínu í Efrahópinu í Grindavík og horfðu skelfingu lostin þegar hraunið náði að húsinu þeirra og það fuðraði upp. Þrátt fyrir áfallið kemur ekkert annað til greina en búa áfram í Grindavík í framtíðinni.

Unndór og Birna konan hans horfðu á þegar hraunið náði að læsa klónum í húsið þeirra en sendu börnin annað á meðan. „Mamma hringdi í mig um nóttina og sagðist halda að það væri að byrja að gjósa. Ég spáði ekkert í því og sofnaði aftur, vaknaði svo og horfði með öðru auganu. Svo þegar seinni sprungan opnaðist, og ég sá hvað hún var nálægt húsinu mínu, sá ég í hvað stefndi. Það var einfaldlega skelfileg tilfinning að sjá þegar húsið var farið að brenna. Börnin voru fyrst með okkur en svo tók tengdapabbi þau afsíðis, ég vildi ekki að þau myndu horfa á þennan hrylling. Við börðumst mikið fyrir því að eignast þetta hús á sínum tíma svo það var mjög skrítin og óþægileg tilfinning að horfa á það fuðra upp. Ég er búinn að sveiflast fram og til baka í tilfinningaskalanum, allt frá því að gráta, vera reiður en svo get ég hálfpartinn hlegið að þessu þegar ég hugsa til baka á meðan við vorum að horfa. Ég sá þegar eldurinn læsti sig í heita pottinum á pallinum og hann blossaði upp, mér fannst bara vanta að Sylvester Stallone myndi birtast á skjánum í þessari hamfarakvikmynd, þetta var algjörlega fáránlegt.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Unndór er fæddur og uppalinn Grindvíkingur og mikill Grindvíkingur í sér. Eiginkona Unndórs, Birna Skúladóttir, er frá Njarðvík og því mætti leiða líkum að því að hún væri ekki eins mikill Grindvíkingur í sér en Birna er kyrfilega búin að koma sér fyrir í grindvísku samfélagi. Fjölskyldan sér ekkert annað fyrir sér en snúa til baka þegar það verður leyft. „Þetta er auðvitað galin staða, ég er allslaus í dag, húsið mitt er brunnið og nánast öll mín föt voru þar. Allt innbú, allt mitt dót var þarna og er einfaldlega farið. Ég er á leiðinni að kanna hvernig þetta virkar, hvenær fáum við húsið greitt út, eigum við að hætta strax að borga af húsnæðisláninu, varla þurfum við að borga fyrir rafmagn og heitt vatn, það er víst nógu heitt þarna núna, ýmsar svona furðulegar spurningar poppa upp. Ég er bara það mikill Grindvíkingur í mér og Birnu hefur liðið mjög vel hér, börnin okkar þekkja ekkert annað svo við sjáum ekkert annað fyrir okkur en byggja upp aftur í Grindavík. Við erum búin að ræða þetta áfall við börnin mín en eflaust mun taka þau tíma að átta sig á þessu. Við eigum þrjú börn, fjögurra, átta og þrettán ára. Við erum að fara ferma hana í vor, ég var búinn að panta Verkalýðshúsið en það er líklega ónýtt vegna sprungunnar, þá ætluðum við bara að halda ferminguna heima hjá okkur en húsið er brunnið, svo þetta er hálf hjákátlegt allt saman,“ sagði Unndór.

Mynd tekin úr pottinum góða.


Unndór hefur kennt við grunnskóla Grindavíkur í að verða tuttugu ár, hefur þjálfað börn í körfuknattleik lengur og einfaldlega finnur hve hjartað slær fyrir Grindavík.

„Við fjölskyldan erum búin að vera í Njarðvík og ég keyri í safnskólann í Reykjavík, þjálfa í Austurbergi tvisvar sinnum í viku svo það hefur farið ágætlega saman. Skólastarfið er komið í fastar og góðar skorður núna í safnskólunum, ég myndi segja að þetta sé að ganga mjög vel. Þjálfunin hefur líka gengið vel en auðvitað er hópurinn tvístraður út um allt svo ég hef brýnt fyrir mínum leikmönnum að þegar við keppum, séum við að berjast fyrir Grindavík. Í öllum þessum tilfinningarússíbana að undanförnu hef ég reynt að forðast að vera reiður en ætli hún muni ekki blossa upp og ég rekinn út úr húsi næst þegar liðið mitt er að keppa,“ sagði Unndór að lokum.