Public deli
Public deli

Mannlíf

Nítján ára ljóðskáld í Grindavík
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 17. apríl 2021 kl. 07:03

Nítján ára ljóðskáld í Grindavík

Unnur Guðrún Þórarinsdóttir er nítján ára Grindvíkingar og gaf nýlega út ljóðabókina „Til þeirra.“ Allur ágóði rennur til styrktarsamtaka. Hún vinnur að umsókn í Listaháskóla Íslands. Þar eru framtíðardraumarnir.

Unnur Guðrún er nítján ára Grindvíkingur og hefur nýlega gefið út ljóðabókina „Til þeirra“ og allur ágóði af sölu hennar rennur í góð málefni. Ljóðabókin er hluti af nokkrum verkefnum sem Unnur hefur unnið að í undirbúningi að umsókn í Listaháskóla Íslands en hún hefur lokið stúdentsprófi frá listnámsbraut í framhaldsskóla. Framtíðardraumurinn tengist listinni. Hún vill verða leikstjóri, skáld eða rithöfundur. Víkurfréttir heimsóttu Unni Guðrúnu til Grindavíkur.

– Hvað fær unga stúlku til þess að fara að gefa út ljóðabók?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég var á listnámsbraut í Fjölbrautaskóla Garðabæjar og var þar í ellefu leiklistaráföngum og einn af þeim var skapandi skrif. Í lokaverkefni máttum við velja ljóð, örsögur eða bakþanka eins og sjá má í fréttablöðum. Ég ákvað að fara þá leið og skilaði inn heimagerðri bók með bakþönkum og fékk mjög góða einkunn fyrir hana. Kennarinn minn var mjög ánægður og sagðist hlakka til að sjá bakþankaskrif frá mér.“

Unnur segist hafa sagt við sjálfa sig að líklega gæti það legið vel fyrir henni að skrifa.

Bók eftir erfiða tíma

„Þetta var á árinu 2019 og síðan í byrjun 2020. Ég gekk ég í gegnum smá erfiða tíma og fór að skrifa og byrjaði að skrifa ljóð. Það gekk rosa vel og áður en ég vissi var ég búin að fylla heila bók. Þetta kom sjálfri mér skemmtilega á óvart. Síðan um sumarið kom Ugla Helgadóttir, vinkona mín, heim. Mamma hefur alltaf verið mikið að lesa fyrir mig ljóð og bækur og svona. Við vorum semsagt að skrifa ljóð eftir artista sem heilla okkur og lög og vorum að setja þau á vegginn minn inni í herbergi. Síðan kemur mamma inn og les ljóð sem heitir „Söngur drykkjumannsins“ eftir ömmu mína, sem heillaði mig upp úr skónum. Þá kom Ugla að mér og sagði: „Unnur, kannski ert þú bara næst að gefa út ljóðabók“ en langafi minn og langamma gerðu ljóðabækur. Og ég segi bara já og við hlógum og svo pældi svo ekkert meira í því. Síðan bara varð ljóðabók að veruleika.“

„Ég vil að fólk geti speglað sig í orðum bókarinnar, hún er mjög opin fyrir túlkun. Þannig að þegar þú lest hana, þá getur þú speglað þínar minningar eða tilfinningar.“

– En hvað geturðu sagt okkur um bókina?

„Í stuttu máli er þetta um sjö tímabil í lífi mínu, skrifað frá dýpstu hjartarótum. Bókin er mjög persónuleg og tilfinningamikil. Allir kaflarnir byrja á „til þeirra sem ...“ út af því að bókin heitir „Til þeirra.“ Ég vil að fólk geti speglað sig í orðum bókarinnar, hún er mjög opin fyrir túlkun. Þannig að þegar þú lest hana, þá getur þú speglað þínar minningar eða tilfinningar.“

Ágóði til HIV og Laufs

– Allur ágóði af sölu bókarinnar er til styrktar HIV samtakanna og Laufi, samtaka flogaveikra og eitt ljóða í bókinni heitir Lauf. Ertu með einhverja tengingu við þessi félög?

„Þegar ég var fjögurra ára greinist ég með góðkynja barnaflogaveiki en er ekki lengur með hana. Síðan greindist bróðir mömmu minnar, Ingi Gests, ungur að árum með alnæmi og hefði orðið 53 ára í ár. Þannig að mig langaði að taka eitthvað persónulegt, sem snerti mig og líka bara styrkja frábær félög sem fá ekki svo mikla athygli.“

– Þarf maður að vera með einhvern þekkingargrunn til að gera ljóðabók?

„Nei, í rauninni ekki. Ég hafði náttúrlega mjög lítinn grunn en það er auðvitað alltaf betra – en þú ferð langt á ástríðunni og áhuganum.“

Í fyrri hluta bókarinnar eru ljóðin á vinstri blaðsíðum hennar en síðan færast þau yfir á hægri blaðsíðurnar.

„Ég er hinsegin. Ljóðin vinstra megin sýna fram á að hinseginleikinn er ekki öðruvísi. Það á ekki að vera skömm á bak við það. Þetta var líka á þeim tíma sem ég hafði ekki komið fram sem slík. Ljóðin hægra megin í bókinni eru síðan samin eftir að ég gerði það og því eru þau hægra megin. Ég kom „út úr skápnum“ og þá varð líf mitt svona „rétt“. Komin réttu megin á blaðsíðuna. Mig langaði að vekja athygl á því að því er oftast tekið sem öðruvísi en mig langaði að hafa það öfugt.“

Foreldrar Unnar styrktu hana í bókaútgáfunni en síðan er markmið Unnar að komast inn í Listaháskóla Íslands á sviðshöfundabraut. Hún er að vinna að góðri umsókn og ljóðabókin er hluti af því verkefni.

„Ég sé fram á að nýta bókina í þeirri „portfolio“ og mun alveg örugglega nýta mér hana meira í framtíðinni við verk og fleira. Ég er mjög stolt af henni.“

Framtíðardraumar í listaháskóla

– Dramurinn er sem sagt að komast inn í Listaháskólann. Það er ekki auðvelt, er það?

„Það eru mjög fáir sem komast inn á hverju ári, eða tíu manns á hverja braut, og er því að gera umsókn mína eins góða og hægt er svo ég eigi meiri möguleika. Meðal fleiri verkefna  má nefna að ég er að skrifa handrit að barnaleikriti sem kemur núna í sumar og ég mun leikstýra því. Síðan er ég með verk sem ég hef sett upp, ljósmyndir og eitthvað sem sýnir minn innri listamann.“

– Er draumurinn að verða frægur leikari á Íslandi eða í útlöndum?

„Nei, draumurinn er að verða leikstjóri. Leikstjóri eða skáld eða rithöfundur, mér finnst það allt mjög heillandi. Það heillar mig að setja upp, mér finnst mjög gaman að stjórna og setja upp. Þegar þú setur upp verk og horfir svo á það, þá hugsar maður bara „Vá! Ég gerði þetta. Ég gat gert þetta.“ Ég tók m.a. þátt í uppsetningu á leikriti og söngleik í leikfélaginu í FG. Við settum upp barnaleikrit og söngleik, Clueless. Í fyrra var ég svo heppin að vera aðstoðarleikstjóri með Karli Ágústi Úlfssyni. Ég lærði mjög mikið af honum og er ótrúlega þakklát fyrir það tækifæri.“

Unnur Guðrún segir að nauðsynlegt sé að hafa framtíðardrauma og segir að þeir geti ræst ef maður er heppinn og leggur mikið á sig.

– Þú ert með svakalegt leiksvið hérna við Grindavík, það er eldgos. Hvernig er eldgosið búið að koma við Grindvíkinga eins og þig?

„Maður var alveg að fara á taugum þegar jarðskjálftarnir voru en þetta er bara fallegt. Ég hef ekki farið að skoða það, ég hef ekki áhuga á því, því miður. Ég er fegin að jarðskjálftarnir séu stopp í bili þannig að maður getið sofið á nóttunni. Ég var alltaf að vakna – og mamma er líka svo hrædd við þetta. Annars eru flestir rólegir yfir þessu öllu saman. Það hefur þó verið mikil traffík og heimamenn í vandræðum að koma heim, stundum of mikil traffík en vonandi kemur eitthvað gott úr þessu, allavega fyrir búðirnar og rekstraraðila.“

2016

Árið hafðist

allt hjá mér tafðist.

Svartan hund ég dró á hælum mér,

byrjaði það aðeins hér.

Gleðin yfir mér fór,

ég með skömmina dró

Alein ég var,

þótt helling af fólki mig bar.