Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Jóga er meira en bara æfingar
Ágústa (t.v.) og Álfhildur fyrir framan nemendurna í jógaskólanum. VF-myndir: pket
Fimmtudagur 28. janúar 2021 kl. 07:50

Jóga er meira en bara æfingar

„Það hefur lengi verið draumur okkar að opna jógaskóla og fá að deila þeirri þekkingu okkar og ástríðu á jógafræðum sem við höfum,“ segja þær Ágústa Hildur Gizurardóttir og Álfhildur Guðlaugsdóttir en þær útskrifuðu fyrstu nemendur í jógaskóla Om setursins í upphafi nýs árs. 

Þær stöllur segja að það hafi bara verið spurning hvenær þær myndu stökkva út í djúpu laugina og láta það verða að veruleika að opna jógaskóla en þær hafa rekið Om setrið um nokkurt skeið þar sem m.a. Er boðið upp á jóga, nudd og fleira heilsutengt.

„Árið 2019 ákváðum við dagsetningu og þá var ekki aftur snúið.  Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og lærdómsríkt ár þrátt fyrir að Covid setti strik í reikninginn með tímasetningu á náminu. Hópurinn sem við fengum var alveg dásamlegur.  Við hefðum ekki getað óskað okkur betri nemendur en þessa flottu ljósbera. Þetta hefur verið mikill heiður fyrir okkur að fá að taka þátt í þessu ferðalagi með þeim og hópurinn náði einstökum tengslum þennan tíma sem við vorum saman. Það skemmtilega við að kenna er að við lærum sjálfar endalaust mikið í leiðinni. Þetta eru þvílík forréttindi að fá að láta drauma sína rætast. Við stefnum á að hefja næsta nám í maí n.k. en munum ekki taka fleiri en tíu manns inn því námið krefst mikillar innri vinnu og við teljum að sú vinna henti betur í minni hóp. Námið er viðurkennt af JKFÍ sem þýðir að viðkomandi getur sótt um að kenna hvar sem er í heiminum. JKFÍ fylgir öllum reglum Yoga Alliance í Bandaríkjunum.

Vinsældir jóga á Suðurnesjum hafa verið að aukast mikið en að sögn þeirra Ágústu og Álfhildar er jóga mikið meira en æfingar.

„Stór hluti af jóganu er heimspekin, hreyfifræðin og anatómían. Það er leið til þess að kynnast sjálfinu sínu og að ná tengingu við alheimsorkuna. Það að upplifa frið í líkama og sál. Í þjóðfélaginu í dag er svo mikið áreiti frá tækninni og við færumst æ lengra í burtu frá sjálfinu. Jógað er leiðin heim. Blandan í náminu okkar er því fullkomin með kröftum okkar og kunnáttu.“

Ágústa Hildur Gizurardóttir hefur mikinn áhuga á líkamlegri og andlegri heilsu en hún útskrifaðist árið 2009 frá Jóga og Blómadropaskóla Kristbjargar sem jógakennari.  Hún hefur síðan haldið áfram að mennta sig á þessu sviði erlendis og hérna heima og  hefur því fjölda réttinda í ýmsum tegundum jóga ásamt því að hafa stundað nám í Heilsumeistaraskólanum. Hún er ein af fáum þerapískum jógakennurum á landinu og var sú fyrsta sem kynnti yin jóga í Reykjanesbæ.

Álfhildur Guðlaugsdóttir hefur brennandi áhuga á heimspeki og mannslíkamanum.  Hún vinnur sem meðferðaraðili og er með master í stoðkerfisfræði (myoskeletal alignment) frá Bandaríkjunum ásamt því að hafa menntað sig í hreyfifræði. Hún hefur haldið áfram að bæta við kunnáttu sína á því sviði og fór til Tælands og Nepal til þess að sækja réttindi í tónheilun og tónheilunar meðferðum. Jógísk heimspeki hefur einnig lengi átt hug hennar.