JS Campers
JS Campers

Mannlíf

Garðurinn við Tjarnarsel
Sunnudagur 1. nóvember 2020 kl. 07:26

Garðurinn við Tjarnarsel

Gjöfull og nærandi fyrir líkama og sál

Leikskólinn Tjarnarsel er elsti leikskóli Reykjanesbæjar. Hann tók til starfa árið 1967 og er staðsettur í hjarta bæjarins. Garðurinn í Tjarnarseli hefur verið í mikilli þróun frá 2013 og hefur á þessum árum breyst úr flötu útisvæði í náttúrulegan garð sem er fullur af áskorunum og ævintýrum. Í garðinum fer fram mikil ræktun, þar eru berjatré, grænmetiskassar, krydd- og blómabeð. Garðinum var umbreytt í sjálfboðavinnu kennara, barna og foreldra ásamt öðrum velunnurum skólans. Þessi þróunarvinna hefur verið til staðar frá þeim tíma og er enn, því alltaf er hægt að bæta og breyta.

„Garðurinn okkar býður upp á margskonar útinám allt árið í kring. Því að við teljum að allt nám geti farið fram úti, hvernig sem viðrar. Þetta haust eru börnin búin að vera sérstaklega dugleg að nýta það sem garðurinn okkar hefur upp á að bjóða. Börnin fylgdust með rifs- og sólberjatrjánum frá vori til hausts. Þau sáu hvernig berin þroskuðust og döfnuðu. Þegar berin voru þroskuð fengu börnin að tína þau af trjánum og útbúa sultu úr uppskerunni,“ segir Fanney M. Jósepsdóttir, verkefnastjóri í Tjarnarseli.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Börnin lærðu að ekki væri ráðlegt að tína bara eitt og eitt ber af stilknum heldur væri best að taka allan stilkinn. Þau fengu að vita að í stilknum væri efni sem hjálpaði sultunni að hlaupa. 

„Í  Tjarnarseli notum við Orðaspjall sem er aðferð til að efla orðaforða barna með bókalestri og samtölum. Þannig aukum við málskilning barnanna og ýtum undir fræðslu og tjáningu á skemmtilegan og áhugaverðan hátt. Við vinnuna í garðinum lærðu börnin mörg ný orð eins og sólber, rifsber, stilkur/klasi, vigta, suða, sætt, súrt og merkimiðar svo fátt sé nefnt,“ segir Fanney jafnframt.

Það er samdóma álit kennara og barna að vinnan í garðinum sé gjöful og nærandi fyrir líkama og sál og auki heilbrigði og  vellíðan okkar allra.