Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Bíbbinn er einn af Grindvíkingum ársins
Eitt af áhugamálum Bjarna er veiði.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 13. janúar 2024 kl. 06:09

Bíbbinn er einn af Grindvíkingum ársins

Uppskriftin af BÓSÓ-sósunni svipað hernaðarleyndarmál og uppskriftin af Coca-Cola

Þær eru ófáar veislurnar sem Bjarni Ólason, eða Bíbbinn eins og hann er oft kallaður, hefur útbúið fyrir Grindvíkinga og annað Suðurnesjafólk í gegnum tíðina. Bjarni er menntaður matreiðslumeistari, rak Festi í Grindavík um tíma, rak veitingastaði, var deildarstjóri Kaupfélagsins í Grindavík, hefur kokkað á Norrænu, í golfklúbbi í Danmörku og svona mætti lengi telja. Hann er fæddur og uppalinn í Keflavík, var í hópi margra frábærra knattspyrnumarkvarða sem komu upp þar um svipað leyti en lék mestan hluta ferils síns með Grindavík, þangað sem hann var fluttur fyrir tvítugt þegar hann kynntist konunni sinni, Valdísi Kristinsdóttur. Bjarni og Valdís eiga tvö börn, þau Rósu Kristínu og Óla Baldur, sem bæði eru gift og búsett í Grindavík. Bjarni lítur á sig sem mikinn Grindvíking í dag enda meira ættaður þaðan en Valdís konan hans.

Bjarni sleit barnsskónum í Keflavík og var líka mikið í Sandgerði því foreldrar hans, Óli Baldur Bjarnason og Gunnþórunn Gunnarsdóttir, ráku verslunina Ölduna. Þar komst hann hugsanlega upp á lagið varðandi hvaða slóð hann myndi feta á atvinnubrautinni. „Ég hjálpaði mömmu og pabba mikið í sjoppunni sem var í senn almenn sjoppa með skyndibita, gjafavöru og seldi líka fatnað. Ég var mikið í að skræla kartöflur og forsteikja áður en þær urðu að frönskum kartöflum. Eftir gagnfræðiskólann fór ég að vinna og skráði mig svo í Hótel- og veitingaskóla Íslands árið 1978 þegar ég var átján ára gamall. Starfsnámið kláraði ég hjá Magnúsi Björnssyni á Aski á Laugarvegi og útskrifaðist á tilskildum fjórum árum, árið 1982. Valdís kláraði kennaranám sitt á sama tíma og við fluttum til Grindavíkur, keyptum efri hæðina í Ásgarði á sex hundruð þúsund krónur, íbúð sem var rúmir 100 fermetrar. Svona var verðlagið á þeim tíma, ég fékk að borga íbúðina á einu ári, 50 þúsund um hver mánaðarmót og fékk alltaf kvittun nema í síðasta skiptið, þá var ekki til kvittun svo Birna Óladóttir sem sá um söluna fyrir hönd Ásgarðssystkinanna, hripaði á ónotaðan kaffipoka að ég hefði greitt síðustu greiðsluna og ég fékk svo afsalið í kjölfarið og átti þá íbúðina. Kaupin náði ég að hluta til að fjármagna með sölu á BÓSÓ hamborgurum og samlokum, við Siggi babló [Sigurður Ólafsson, kenndur við Baldurshaga] fórum í samstarf þar sem við steiktum hamborgara og gerðum samlokur sem við nefndum eftir upphafsstöfunum okkar, BÓSÓ. Bangsi í Bárunni keypti hamborgara af okkur í tonnavís, mamma og pabbi seldu þetta í Sandgerði og borgararnir voru seldir víðar á Suðurnesjum en galdurinn á bak við þá var BÓSÓ-sósan, uppskriftin er hernaðarleyndarmál!“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bjarni og Valdís ásamt börnunum sínum, Rósu og Óla Baldri, þegar Bjarni var kokkur á Norrænu.

Kaupfélagið, Festi og kokkastörf um víðan völl

Eftir að Bjarni flutti til Grindavíkur, réði hann sig fyrst hjá Íslenskum aðalverktökum uppi á velli og vann í mötuneytinu fyrir þá og fór svo í starf hjá Kaupfélaginu sem þá var í Grindavík. „Ég var fyrst í kjötborðinu en tók svo við af Sigurði Sveinbjörnssyni sem verslunarstjóri og var með búðina næstu árin og tók sömuleiðis við Festi árið 1986 og rak í tvö ár. Það var skemmtilegur tími, ég náði í lokin á vertíðarböllunum og oft var mikið stuð í þessu fræga félagsheimili sem ég hef saknað allar götur síðan það lagðist af í þeirri mynd. Ég samdi öðruvísi en forverar mínir, borgaði bara leigu þegar ég var með eitthvað í gangi en ég fór út úr Festi árið 1988, þá var ansi mikið farið að fjara undan þáverandi rekstrarfyrirkomulagi. Þegar ég hætti með Festi var ég sömuleiðis hættur í Kaupfélaginu og réði mig þá sem kokk á veitingastað við Bláa lónið, Víkurlón. Síðar meir eignaðist ég hlut í því fyrirtæki og tókum við félagarnir aftur við Festi og var ég í þessu fram til 1996, þegar við fjölskyldan fluttum til Esbjerg í Danmörku og bjuggum þar í tæp þrjú ár. Ég réði mig sem kokk á Norrænu og var um tíma kokkur í einkagolfklúbbi í Esbjerg sem var eingöngu með háttsetta aðila, m.a. úr viðskiptalífinu. Þegar við fluttum svo heim byrjaði ég að kokka í Officeraklúbbnum uppi á flugvelli og var þar í nokkur ár, þar til ég fór á Kárahnjúka árið 2005. Það var mikið ævintýri, ég byrjaði á að elda ofan í nokkra tugi munna en færði mig svo niður á Reyðarfjörð og eldaði ofan í 1.500 manns hjá norska fyrirtækinu EES sem var undirverktaki Bechtel sem byggði álverið þar.  Á leiðinni heim árið 2007 tók ég að mér að elda fyrir Friðrik Pálsson á litlu hóteli sem heitir Hrauneyjar og það var síðasta fulllaunaða kokkastarfið mitt því ég fór svo að smíða hjá bróður mínum en hef verið starfsmaður Isavia uppi á flugvelli síðan 2008. Í dag er ég hópstjóri í gátstöðvardeild, sem felst í aðgangsstjórnun annarra en farþega inn á flugvöllinn,“ segir Bjarni.

Bjarni og Valdís ásamt afa- og ömmubörnum sínum.

Grindvíkingur ársins með óteljandi veislur

„Maður er manns gaman“ er orðatiltæki sem á vel við Bjarna, hann þrífst best innan um annað fólk og venjulega er kátt á hjalla hjá honum. Þær eru ófáar veislurnar sem hann hefur tekið að sér, smáar sem stórar, og líklega er ekki til sá Grindvíkingur sem hefur ekki einhvern tíma gætt sér á einhverju góðu sem Bjarni hefur eldað. „Ég er fyrir löngu búinn að missa töluna á öllum þeim veislum sem ég hef séð um. Ég hef alltaf verið boðinn og búinn að aðstoða íþróttadeildir UMFG þegar kemur að matseld, má þar nefna herrakvöldin, aðventukvöldin, saltfiskveislurnar, þorrablótin og lokahófin og hef ég aldrei þegið greiðslu fyrir þetta. Einnig hef ég séð um kúttmagakvöldin fyrir Lionsklúbb Grindavíkur í mörg ár. Mér þótti vænt um að vera valinn Grindvíkingur ársins árið 2018 og einnig hef ég fengið silfurmerki UMFG. Ég hef nú heldur dregið úr þessu undanfarin ár en sé um allt hjá mínu nánasta fólki, t.d. er ferming framundan hjá afastráknum mínum, honum Hafþóri, og nokkrar aðrar fermingar eru eftir svo ég hef ekki alveg lokið leik.“

Markmaðurinn Bíbbi Henz

Eins og áður kom fram er Bjarni fæddur og uppalinn í Keflavík, hann byrjaði snemma að æfa fótbolta og fljótlega var hann búinn að klæða sig í markmannshanskana. Þorsteinn Ólafsson var fyrirmyndin en nokkrir frábærir keflvískir markmenn eru á svipuðu reki og Bjarni, eins og nafni hans Sigurðsson sem gerði garðinn hvað frægastan með ÍA, Þorsteinn Bjarnason er nokkrum árum eldri og Skúli Jónsson nokkrum árum yngri. „Ég spilaði í yngri flokkum, bæði með Keflavík og líka á Ísafirði þegar ég var þar á sumrin hjá ömmu og afa. Þegar ég var í Keflavík æfði ég og spilaði með KFK og ÍBK. Ég kynntist konunni minni í Grindavík á þorrablóti Staðhverfingafélagsins árið 1976, þá sextán ára gamall, og þegar ég byrjaði í kokkanáminu skipti ég yfir í Grindavík og átti þar frábæran tíma. Félagsskapurinn í kringum fótboltann í Grindavík, sem var á uppleið á þessum tíma undir stjórn Hauks Hafsteinssonar þjálfara, var frábær og liðsandinn var mjög góður, við fórum í margar frábærar ferðir með konunum okkar og börnum. Í dag mæta menn á æfingar, spila leikina og fá svo útborgað, það var ekkert svoleiðis á okkar tíma, menn voru í fótboltanum ánægjunnar vegna og félagsandinn sem skapaðist var alveg einstakur. Um þetta leyti tók ég mig til og bjó til viðurnefni á hina og þessa, m.a. á sjálfan mig, Bíbbi Henz. Það kom þannig til að félagarnir voru stundum að fá lánaðan hjá mér bjór og þá sagði ég „Bíbbi Henz er aldrei lenz.“ Bíbbinn festist út frá þessu við mig einhverra hluta vegna.

Það var líka mjög eftirminnilegt frá þessum fótboltaárum þegar ég og Jónas Þórhallsson fórum í þrjár vikur og æfðum með stórliði Arsenal. Þetta þótti fréttnæmt á sínum tíma, að leikmenn frá litlu liði úr þriðju deild á Íslandi fengu slíkt tækifæri. Kristinn Jóhannsson og Ragnar Eðvarðsson höfðu farið árinu áður, þetta var mjög eftirminnilegt, aðstæður Arsenal voru talsvert betri en þær sem við áttum að venjast á mölinni í Grindavík. Ég æfði allan tímann með aðalliðinu, það var ekki amalegt að fylgjast með sjálfum Pet Jennings í markinu og ekki nóg með það, heldur æfði svo enska landsliðið á æfingasvæði Arsenal fyrir mikilvægan leik á móti Ungverjalandi og við fengum að fylgjast með. Englendingar urðu að vinna leikinn til að komast á HM á Spáni og það tókst á troðfullum Wembley-vellinum og við Jónas vorum að sjálfsögðu á leiknum. Ég spilaði svo með Grindavík næstu árin, var m.a. kosinn leikmaður ársins árið 1984 en bauðst svo að fara til Færeyja sumarið 1986 til að spila fótbolta, n.t.t. í Vog á Suðurey. Ég átti frábæran tíma í Færeyjum, eignaðist marga góða vini og hef heimsótt þá oft. Færeyingar eru eitthvert besta fólk í heimi held ég bara, mér finnst alltaf jafn gaman að bregða færeyskunni fyrir mig og spjalla við þá. Ég spilaði svo með Grindavík út ‘89 tímabilið þegar við komumst loksins upp úr gömlu þriðju deildinni, það var kátt á hjalla þá. Síðasti leikurinn minn var úrslitaleikur um sigur í þriðju deildinni á móti KS. Ég fékk rautt spjald í leiknum og á ennþá eftir að taka bannið út.“

Margar frægar kempur, t.d. Guðni Kjartansson þriðji frá vinstri standandi. Bjarni er annar frá hægri í fremri röð.
Lið Grindavíkur sem komst loksins upp úr þriðju deildinni árið 1989.
Bjarni lengst til hægri í fremri röð.

Áhugamálin og framtíðin

Bjarni er orðinn 63 ára gamall og stefnir á starfslok eftir tvö ár en hvernig sér hann nánustu framtíð og lengra fram í tímann í fyrir sér? „Ég grínast oft við Valdísi mína að ég sé meira skyldur inn í Grindavík en hún, þó svo að hún hafi búið í Grindavík og ég í Keflavík þegar við kynntumst. Ég er mjög mikill Grindvíkingur í mér og hlakka til þegar við getum flutt aftur í bæinn okkar. Mér sýnist húsið mitt hafa sloppið að mestu, það eru bara einhverjar lítilsháttar sprungur sem ég mun geta lagað sjálfur. Ég stefni á starfslok eftir tvö ár og þá ætlum við Valdís bara að njóta lífsins. Ég hef alltaf haft gaman af veiði og veit fátt betra en taka afabörnin með mér niður í fjöru að skoða lífið þar. Ég var lengi í golfi en læt pútterinn duga núna, pútta reglulega með mömmu og Dodda bróður, sem er Íslandsmeistari 60 ára og eldri, á púttvellinum við sjúkrahúsið í Keflavík. Þó svo að ég hafi slakað á í eldamennskunni mun ég eflaust taka að mér einhver verkefni, sérstaklega ef farið er á framandi slóðir. Þegar ég fer í veiðiferðir með félögunum sé ég venjulega um eldamennskuna, ég hef mjög gaman af því. Annars er bara stefnan sett á að halda áfram að brosa og hafa gaman af lífinu,“ sagði Bjarni að lokum.