Flugger
Flugger

Aðsent

Af hverju er maðurinn þinn svona skrítinn?
Föstudagur 25. janúar 2019 kl. 07:00

Af hverju er maðurinn þinn svona skrítinn?

Ég var staddur á kaffihúsi að vinna í kvikmyndahandriti. Var með bækur, skrifblokk og auðvitað kaffi, í eigin hugarheimi, er ég sé mann ganga hratt í átt að borðinu mínu. Hann er með andlitið grafið í símann (og ég meina það bókstaflega) og kaffibolla í hinni og ég sé hvað er að fara að gerast. Já, hann lendir í árekstri við borðið mitt og hellir kaffinu sínu yfir mig.

Reglulega heyri ég að það sé erfitt að ná í mig. Þó er ég skráður með heimasíma, skoða tölvupóstinn minn mjög reglulega og svara honum yfirleitt mjög fljótt. Nýlega hafði hátt settur maður samband við mig og hann sagði þetta sama: „Ég var í stökustu vandræðum að hafa upp á þér, þurfti að beita krókaleiðum, þar til ég fann GSM-númer konunnar þinnar?“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„En ég er skráður með heimasíma,“ sagði ég. „Já, en ekki GSM,“ sagði hann.

Ég fór í matarboð um daginn (makalaust) en spurði kurteislega hvort konan mín mætti koma með og lofaði því að hún myndi haga sér sómasamlega, sem hún auðvitað gerði. Þegar við komum í teitið var sagt við konuna mína: „Af hverju er maðurinn þinn svona skrítinn?“ Þetta kom eðlilega flatt uppá hana og hún svaraði hikandi og hissa: „Ég veit það ekki, hann hefur bara alltaf verið svona.“ Allir hlógu og sá sem spurði bætti við: „Af hverju vill hann ekki nota GSM-síma?“

Konan vissi auðvitað af því hneykslismáli og svarar: „Já, þú meinar það, það er bara hans val.“ Allir snúa sér við í sínum stólum (og líta upp frá símanum með öðru auganu) og kalla hver í kapp við annan: „Reyndu nú að tjónka við hann, þetta gengur ekki, hann verður svo útundan, það er aldrei hægt að ná í hann,“ og fara svo aftur að „skrolla“ í símanum og fara fljótt yfir til að missa ekki af neinu. Einn dundar sér við að taka nærmyndir af kjötinu sínu til að sýna alheiminum hvernig hann vill hafa það steikt.

Maturinn kólnar á diskunum og bjórinn orðinn flatur

Ég hef oft orðið fyrir fordómum og hópþrýstingi frá fullorðnu fólki fyrir það að eiga ekki GSM eða snjallsíma eða hvað þetta heitir. Þvílík bölvun sem þetta tæki er. Það er ekki eigandi samtal við nokkurn mann lengur án þess að hann sé með þetta drasl fyrir andlitinu. Menn sitja á kaffistofum í vinnunni eða á fundum, biðstofum, kaffihúsum, hvítir í framan af sólarleysinu, eins og uppvakningar og fletta netheiminum í lófa sér og missa af veröldinni fyrir utan. Það er ekki einu sinni hægt að fara í bíó án þess að fólk í salnum sé að skoða símann.

Held að margir vakni við vondan draum eftir tíu ár ef þetta heldur svona áfram.

Ég er mikill bókaormur og fer sjaldan útúr húsi án þess að hafa bók meðferðis. Ég verð brjálaður án lesefnis og líklega hafa símanotendur sömu tilfinningar gagnvart símanum sínum. Eins einkennilegt og það er þá hef ég orðið fyrir athlægi að lesa bækur á almannafæri. Einu sinni var ég staddur á biðstofu læknis þegar maður við hliðina á mér var að tala í símann og sagði: „Ég er að bíða eftir lækni, bara í símanum, það er einhver furðufugl með bók hérna við hliðina á mér,“ og blikkaði mig. En honum var auðvitað fúlasta alvara með það sem hann sagði og meinti.

Svo kom að því enn og aftur að félagi minn vildi endilega selja mér síma fyrir mjög lítið. Síminn var bara tveggja ára (kostaði nýr 130.000) og hann því kominn með nýjan. Mér fannst dónaskapur að segja nei við þessu tilboði. Ég nota hann samt ekki mikið en flagga oft símanum fyrir framan fólk, eins og Mr. Bean.

Ég er ennþá að læra að hringja úr honum og þarf þá oftar en ekki að biðja konuna um aðstoð, þar sem það er einhver snertiskjár á þessu sem ég skil ekki. Það er yfirleitt slökkt á honum (og ég man ekki númerið til að hringja í hann) en strákarnir mínir, fjögurra og fimm ára, voru fljótir að átta sig á þessu og fá hann lánaðan til að horfa á YouTube. Að fólk skuli nenna að horfa á myndefni og heilu bíómyndirnar í símanum er ofar mínum skilning.

Ég þarf allavega ekki að skammast mín á almannafæri lengur og passa að síminn sé sýnilegur. Ég sakna þess þó að fólk sé að tuða í mér yfir því að eiga ekki síma, því núna talar það ekkert við mig; þar til að unglingur spurði mig í Nettó um helgina: „Hvað ertu að gera með þennan gamla síma?“

Guðmundur Magnússon.