Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Verslun eykst í Kaskó
Fimmtudagur 11. mars 2004 kl. 16:15

Verslun eykst í Kaskó

Verslunin Kaskó í Reykjanesbæ fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir, en verslunin hefur frá upphafi verið skilgreind sem lágvöruverðsverslun. Verslunarstjóri Kaskó er Stefán Guðjónsson en hann varð fyrst verslunarstjóri 19 ára gamall. „Ég er í raun fæddur og uppalinn hjá Samkaupum, en ég byrjaði 12 ára gamall að  hjálpa til  í versluninni í Njarðvík. Ætli það megi ekki segja að ég sé með kaupmennskublóð í æðum,“ segir Stefán en faðir hans er framkvæmdastjóri Samkaupa h.f. og afi hans var kaupfélagsstjóri í Sandgerði.
Stefán er viðskipta- og rekstrarfræðingur að mennt, en hann stundaði nám við Viðskiptaháskólann að Bifröst. Í viðtali við Víkurfréttir segir Stefán að frá upphafi hafi Suðurnesjamenn tekið Kaskó mjög vel og hefur verslun aukist verulega síðustu ár. Stefán segir að á dagskránni sé að opna fleiri Kaskó verslanir og þá á höfuðborgarsvæðinu, en tvær Kaskó verslanir eru nú reknar, ein í Reykjanesbæ og önnur í Breiðholti.


Kanntu vel við þetta?
Já, þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, er í senn líflegt og áhugavert starf með öllum sínum uppákomum.


Hvað er það sem gerir starfið svona skemmtilegt?
 Það  eru náttúrulega samskiptin við viðskiptavinina sem eru mjög gefandi, að þjóna þeim og hlusta á óskir þeirra og reyna að uppfylla þær. Þarna er snertiflöturinn við neyslu fólksins og magn vöru sem kemur og fer í gegnum okkar hendur er gífurlega mikið. Þetta er bara líf og fjör frá kl 7 á morgnana fram á kvöld flesta daga vikunnar.


Hvernig hefur verslunin gengið á þessum 10 árum?
Kaskó var sett á laggirnar 1994 á þeim tíma þegar lágvöruverslanir voru að ryðja sér til rúms á Íslandi. Undirtektirnar voru strax mjög góðar og ástæðan fyrir því að Kaskó  hefur vegnað svo vel í 10 ár, eru góðar undirtektir Suðurnesjamanna við því sem við höfum verið að gera. Búðin hefur vaxið mikið frá stofnun. Til að byrja með var gólfflötur verslunarinnar um 400 fermetrar, en er í dag um 800 fermetrar.


Hvað starfa margir í Kaskó ?
Í Kaskó starfa um 14 starfsmenn, sumir í föstu starfi og aðrir í aukavinnu eða hlutastarfi. Þar kemur saman öflugt fólk með mikinn metnað. Hópurinn er samstilltur og er það án efa lykilþáttur í gengi Kaskó.


En hvað með vöruúrvalið?
Vöruúrval lágvöruverðsverslana hefur verið að breytast og væntingar viðskiptavina eru orðnar meiri en þær voru. Viðskiptavinir vilja meiri þjónustu og meira vöruúrval og að sama skapi að vöruverð haldist lágt. Lágvöruverðsverslanir eru að verða mjög flottar verslanir, en þær ná samt aldrei því stigi sem er í þjónustuverslununum hvað varðar þjónustu kjötborða, fatnað og ýmiskonar sérvöru.


Er bara boðið upp á nauðsynjavörur í Kaskó?
Við bjóðum upp á rjómann af því úrvali sem fæst í hverjum vöruflokki fyrir sig. Það eru náttúrulega vissir vöruflokkar sem ekki er hægt að sinna eins og  þjónustuverslanir gera, við reynum að uppfylla 95% af dagvöruþörf viðskiptavina. Ef við tökum t.d. grænmetið þá eru flestar lágvöruverðsverslanir aðeins að bjóða upp hluta af því  úrvali sem fæst í bestu þjónustuverslunum.
Hver er galdurinn við að halda vöruverði niðri?
Það byggist náttúrulega fyrst og fremst á því að halda kostnaði niðri og þar kemur þjónustustigið helst inn sem er  lægra í lágvöruverðsverslununum. Boðið er upp á stærri pakkningar og meira magn er keypt í einu.

Hvernig hefur verið að fást við aukna samkeppni á svæðinu?
Við fundum fyrir því þegar nýr aðili kom inn á markaðinn á Suðurnesjum á lágvöruverðssviði. En eftir að nýjabrumið fór af þeirri verslun þá jókst verslun hjá Kaskó aftur og salan verið stöðugt vaxandi.


Fylgist þið vel með verðum í Bónus?
Já, við gerum verðkönnun reglulega og teljum okkur vera á  svipuðum verðum, stundum aðeins lægri og í öðrum tilfellum örlítið hærri. Við stöndum þó ekki vakt í  verslunum keppinauta, fylgjumst ekki með hverri hreyfingu þar daglega og auglýsum okkur ekki á bílastæðum við anddyri verslana þeirra.


Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér í rekstri lágvöruverðsverslana?
Ég sé ákveðin hættumerki,  því eins og allir vita er einn aðili orðinn  mjög stór á markaðnum og klárlega með markaðsráðandi stöðu. Það má deila um það hvað  þessi þróun má  ganga  langt. Ég tel  að íslenskir neytendur vilji heilbrigða og eðlilega samkeppni, byggða á meira jafnræði með aðilum en nú er. Ég held að þróunin verði áfram sú að lágvöruverðsverslanir færist nær  þjónustuverslunum, haldi áfram að bæta þjónustu og vöruval.


En hvernig sérðu framtíð Kaskó fyrir þér?
Kaskó ætlar að fjölga verslunum á næstunni og horfir í því sambandi til Reykjavíkursvæðisins. Við finnum fyrir eftirspurn bæði utan af landi og úr Reykjavík.

Myndin: Stefán Guðjónsson verslunarstjóri í Kaskó. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024