Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Fimmtudagur 30. ágúst 2001 kl. 10:25

Tilraunaverksmiðja BioProcess gangsett

Þriðjudaginn 4. september næstkomandi mun formlega verða gangsett tilraunaverksmiðja BioProcess í Höfnum í Reykjanesbæ. Gangsetning verksmiðjunnar er árangur þróunarstarfs sem unnið hefur verið s.l. fimm ár, fyrst í Danmörku síðan í Englandi og loks tvö síðustu ár í Höfnum. Hugmyndin er þó enn eldri og má rekja hana allt aftur til ársins 1981, en þá hannaði danskur vísindamaður, Niels Henrik Norsker, ræktunartæki með ljósabúnaði til framleiðslu smáþörunga.

Getur valdið byltingu í læknavísindum
Smáþörungar eru margbreytilegur hópur plantna, sem finnast bæði í sjó og fersku vatni. Um 30 þúsund tegundir eru þekktar og talið að enn séu þær ekki allar fundnar. Smáþörungar eru frumframleiðendur í lífkeðjunni bæði í sjó og vötnum og afar næringarefnaríkir. Smáþörungaverksmiðjan mun í upphafi framleiða eina gerð af smáþörungum og vinna úr henni verðmætt litarefni, astaxanthin. Astaxanthin er notað í fóður fyrir lax og silung og gefur þeim rauðan lit sinn. Einnig er efnið notað í fóður fyrir kjúklinga og svín til að auka frjósemina. Astaxanthin hefur marga aðra dýrmæta eiginleika, t.d. þann að vera eitt öflugasta andoxunarefni sem til er. Sá eiginleiki þess hefur vakið upp kenningar um að efnið geti valdið byltingu í læknavísinum og snyrtivöruiðnaðurinn er í síauknum mæli að nýta sér þá kosti.

Náttúruvæn framleiðsla
Sífellt meiri kröfur eru gerðar til gæða efna til manneldis og fóðurs og sterk vakning er meðal þjóða heims um verndun náttúrunnar. Framleiðsla BioProcess Íslands í Höfnum er náttúruvæn, rafmagnið er beislað úr þeim náttúruaðlindum sem búa í jarðhita á Reykjanesi og engin skaðleg efni eru notuð við framleiðsluna. Þeir möguleikar sem astaxanthin-framleiðslan býður upp á eru ótæmandi og víst er að fyrirtækið kemur ekki til með að láta þar staðar numið. Tækjabúnaður tilraunaverksmiðjunnar á ekki sinn líka í öllum heiminum og gefur fyrirtækinu möguleika á að framleiða fjölmargar tegundir smáþörunga, sem vinna má úr önnur verðmæt efni.

Í eigu Dana og Íslendinga
Fyrirtækið er hlutafélag í eigu Dana og Íslendinga og er hlutafjárskipting þess eins og að neðan greinir;
Novi A/S 45,69% , Keflavíkurverktakar 25,72%, Nýsköpunarsjóður 9,28%, Kaupþing hf. 8,51%, Bank of Scotland 7,24%, Öko-Invest A/S 3,87%, Eignarhaldsfélag Suðurn. 2,53%, Sigurður Helgason 0,58% og Þróunarfélag Íslands 0,58%
Stjórn fyrirtækisins er skipuð eftirfarandi; Per Andersen, stjórnarform., Novi A/S, Jesper Jespersen, Novi A/S, Sören Friis Öko-Invest A/S, Róbert T. Árnason, Keflavíkurverktakar
og Snorri Pétursson, Nýsköpunarsjóður. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Davíð Guðmundsson og eru starfsmenn 6 talsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024