Það leynast gullmolar víða
Heklan er nýtt atvinnuþróunarfélag fyrir Suðurnes, en þau voru eini landshlutinn fyrir utan höfuðborgarsvæðið sem ekki hafði slíkt félag starfandi. Það var niðurstaða samráðsfundar ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna á Suðurnesjum í nóvember í fyrra að stofna til atvinnuþróunarfélags og fá fjármagn til þess. Nú hafa verið ráðnir þrír starfsmenn til félagsins sem þessa dagana eru í starfsþjálfun hjá Impru.
Heklan var formlega sett á laggirnar þann 27. apríl sl. og leggja Iðnaðarráðuneytið og Byggðastofnun því til 20 mkr. á ári. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum aflar mótframlaga og sér að öðru leyti um fjármögnun starfseminnar eins og tíðkast í atvinnuþróunarfélögum annarra landshluta.
Með samningnum er lagður grundvöllur að fjórum stöðugildum atvinnuráðgjafa. Verkefni félagsins verða fjölbreytt, á sviði atvinnu- og byggðarþróunar auk verkefna á sviði nýsköpunar. Þannig mun félagið sjá um rekstur vaxtarsamnings á Suðurnesjum. Heklan mun jafnframt taka þátt í og vera í forystu um uppbyggingu þekkingarseturs á Suðurnesjum í samstarfi við stofnanir á svæðinu. Gert er ráð fyrir að í þessu samstarfi taki þátt stofnanir stoðkerfisins sem starfa á vegum ráðuneyta, menntastofnanir innan og utan svæðis sem og aðrir aðilar sem stutt geta við atvinnulíf og vöxt á svæðinu. Mun félagið beita sér fyrir nánu samstarfi allra aðila í stoðkerfinu á Suðurnesjum og koma þannig í veg fyrir tvíverknað og árekstra. Ætlunin er að félagið verði fyrsti viðkomustaður þeirra sem til stoðkerfisins leita og vísi aðilum þangað sem aðstoð er að fá í hverju tilviki.
„Við ætlum okkur að eiga gott samstarf við Impru, auk þess að nýta okkur þau stoðfyrirtæki sem Iðnaðarráðuneytið hefur á sinni könnu. Þá hefur Eignarhaldsfélag Suðurnesja óskað eftir samstarfi við okkur, því þeir eiga sjóð sem þeir vilja koma í vinnu,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Berglind veitir jafnframt Heklunni forstöðu.
Hún segir Eignarhaldsfélag Suðurnesja ekki hafa styrktarsjóði en félagið veiti lán og kaupi einnig hlutafé í fyrirtækjum. Eftir fund í Atvinnuþróunarfélaginu Heklunni hafi verið ákveðið að ganga til samstarfs við félagið en það auki enn á möguleika Heklunnar að vísa atvinnuþróunarverkefnum inn á réttar brautir.
- Svo hafið þið tekið yfir frumkvöðlasetrið á Ásbrú?
„Já, við höfum tekið það yfir og ætlum að sjá um að fylla það hús af lífi. Við höfum verið að koma okkur fyrir á síðustu dögum og kynna okkur aðstæður og þá sem þegar eru til staðar í frumkvöðlasetrinu. Við munum svo þróa starfsemina í Eldey áfram í samstarfi við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.
- Hvernig virkar svona atvinnuþróunarfélag?
„Það virkar fyrir þann sem gengur með hugmynd í maganum og þarf aðstoð við að koma henni frá sér. Viðkomandi getur komið til okkar, pantað tíma í ráðgjöf og fengið handleiðslu um þá leið sem hentar hans hugmynd. Við veitum handleiðslu og vísum fólki í réttan farveg. Heklan verður svona „One Stop Shop“ og við getum vonandi vísað fólki í rétta átt með hugmyndir sínar. Fólk vinnur sína heimavinnu og kemur til okkar. Við getum bent á sjóði og erum vakandi yfir því hvað er í boði. Við lítum yfir umsóknina og bendum á það sem betur má fara eða leggjum blessun okkar yfir málið.
Hinn þátturinn í starfi okkar er að aðstoða þau fyrirtæki sem vilja hasla sér völl hér á svæðinu og koma þeim í samband við sveitarstjórnir sem geta aðstoðað. Við ætlum að vinna áfram með þá klasa-hugsjón sem hefur verið að ryðja sér til rúms víða, sérstaklega á Ásbrú, og búa til skemmtilega menningu,“ segir Berglind.
Hún segir nýsköpun í starfandi fyrirtækjum oft gleymast í rekstrinum og það verði því eitt af verkefnum Atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar að vekja þau fyrirtæki sem eru til staðar til vitundar um nýsköpun innan fyrirtækjanna. Fyrirtæki sem eru til staðar á svæðinu eigi því jafnvel möguleika á að stækka með því að fá tilsögn í því hvernig best sé að færa nýsköpun í verðmæti. Berglind nefnir að á Suðurnesjum séu m.a. flott sjávarútvegsfyrirtæki og hugsanlega séu til leiðir til að gera þau ennþá betri. Það séu ýmsir sjóðir í boði fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi, t.a.m. til að fullvinna vöru eða breyta um vinnsluaðferð. „Við erum með sérstöðu í ýmsum geirum eins og t.d. orku- og tæknigeiranum, flugi, matvælaframleiðslu og sjávarútvegi. Við eigum því að leggja áherslu á það sem við erum best í ,“ segir Berglind.
- Hver er þörfin fyrir svona atvinnuþróunarfélag?
„Það verður að segjast að það er búin að vera töluverð umferð til okkar þessa fyrstu daga og margir eru forvitnir um hvað við ætlum að gera. Við þurfum einnig að fara í mikið kynningarstarf og munum á næstunni m.a. heimsækja sveitarfélögin og kynna okkur fyrir atvinnunefndum og sveitarstjórnum. Við fórum þennan hring með vaxtarsamninginn og héldum þá kynningar í öllum sveitarfélögunum. Það var bæði gagnlegt og virkilega skemmtilegt. Það var gaman að hitta fólk og sjá hvað það er að gera, því það leynast gullmolar víða á svæðinu. Það er þekkt utan af landi að fólk kaupir sig í bjórsmökkun eða skötusmökkun hjá vinnslufyrirtækjum. Það er fullt af svona aðilum á Suðurnesjum sem gætu aukið tekjur sínar með þessum hætti. Við þurfum að vera jákvæð og koma auga á það sem er áhugavert“.
Myndin: Starfsmenn Heklunnar eru Berglind Kristinsdóttir, Björk Guðjónsdóttir, Dagný Gísladóttir og María Lóa Friðjónsdóttir. Maríu vantar á myndina. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson