Tækifærin eru í ferðaþjónustunni
Bræðurnir og Suðurnesjamennirnar Sigurður Rúnar og Ingi Heiðar Bergþórssynir seldu fyrir þremur árum bílaleigu sem þeir áttu. Eftir ýmsar vangaveltur þeirra bræðra um nýjungar og möguleika í ferðaþjónustu kviknaði hugmynd að fyrirtækinu Trip sem þeir stofnuðu í miðri kreppu.
„Við fundum að skortur var á betri almennum upplýsingum á hótelin sem og á alla ferðamannastaði. Hér væri ferðamaður að koma í óvissuástand og biði með pantanir í allskyns afþreyingu þar til hann væri kominn til landsins. Við töldum að í þessu lægju tækifæri,“ segir Sigurður aðspurður um tilurð fyrirtækis þeirra bræðra.
Komust aldrei út á land
Í framhaldi fóru þeir bræður að skoða snertiskjái og byggja upp vefsíðu. Hugmyndin var sú að setja upp gagnvirka upplýsingakassa á ferðamannastöðum um allt land þar sem ferðamaðurinn gæti bókað. Stefnt var að því að hafa litla skrifstofuaðstöðu á Laugaveginum.
„Þegar við svo opnuðum á Laugaveginum höfðum við varla undan að svara fyrirspurnum. Ferðaþjónustuaðilar streymdu inn og gerðir voru samstarfssamningar um að selja ferðir. Við komust því aldrei út á land til að setja upp kassana en þess í stað hófum við lestur á bæklingum og seldum ferðir til þeirra aðila sem okkur leist vel á og lögðum mikið upp úr persónulegri þjónustu við ferðamennina. Kassarnir eru þó niður á Trip svo fólk geti farið inn á netið, prentað sína farseðla og kíkt á Facebook, sem er mikið notað. Við höfum nokkra kassa ætlaða til þess að fólk geti velt fyrir sér veðri og ástandi vega þar sem það er okkur hjartans mál. TRIP er nú orðið vel þekkt og með stóran markaðshlut í ferðaþjónustunni í Reykjavík og er sennilega eina óháða upplýsinga og bókunarþjónustan í Reykjavík sem við vitum um,“ segir Sigurður.
Ferðamenn sækja í náttúru Íslands
Hvers konar þjónustu eruð þið helst að veita, hverjir eru helst að nota hana og hverju sækjast þeir eftir?
„Við erum núna aðallega að selja ferðir fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu auk þess finnst okkur ekki leiðinlegt að veita upplýsingar um landið, verslanir, veitingahús og söfn og margt fleira. Notendur þjónustunnar eru frá öllum löndum. Hjá okkur fær fólk bæklinga, vegakort og símakort svo eitthvað sé nefnt. Þá veitum við endurgreiðslu á tollfrjálsum vörum sem ferðamaðurinn hefur keypt í verslunum. Tax Free virkar ekkert minna á ferðamanninn eins og okkur Íslendingana sem hlaupa í Hagkaup um leið og þeir auglýsa Tax Free daga.
Náttúran er það sem erlendir ferðamenn helst sækjast eftir. Við eigum alveg magnaða náttúru hér á Íslandi sem ferðamaðurinn kemur til að upplifa. Það er svo miklu meira til en Gullfoss, Geysir og Bláa lónið.
Mörg sóknarfæri fyrir Suðurnesin
Nú starfar þú í Reykjavík og sérð kannski ferðaþjónustuna á Suðurnesjum utanfrá, erum við að gera réttu hlutina hér? Eru einhver sérstök sóknarfæri hér á Reykjanesskaganum sem þú telur vannýtt?
„Sóknarfærin eru mjög mörg fyrir Suðurnesin. Þar er margt fleira í boði en eingöngu Bláa lónið. Langvinsælasti túrinn snýst um þrjá staði: Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Menn eru að mala gull með þessu enda er túrinn kallaður Golden Circle. Til að gera túrinn skemmtilegri eru settir inn aukahlutir eins og Nesjavallavirkjun, Kerið og Hveragerði sem dæmi. Það má gera meira úr dagsferðum frá Reykjavík um Suðurnesin í þessa veru. Í því efni eru margir spennandi möguleikar og allt tilraunarinnar virði.
Ég fékk bæklinga eitt sinn um Reykjanesið sem kláruðust fljótt og ég hef ekki séð meira af þeim síðan, þannig að eftirspurnin er til staðar.“
Talað er um að helstu sóknarfæri okkar Íslendinga á næstu árum verði í ferðaþjónustunni, tekur þú undir það?
„Helstu sóknarfærin eru í ferðaþjónustunni, já. Þó fiskurinn vegi þyngra í þjóðarbúskapnum er ferðaþjónustan sífellt að stækka. Hún er jafn nauðsynleg eins og allt annað. Ef við sinnum ekki ferðaþjónustunni, finnum nýjar leiðir og aukum möguleikana til afþreyingar þá hættir ferðamaðurinn að koma. Það má orða þetta þannig að við séum enn á árabátum í ferðaþjónustunni og langt í togarana. Það er nóg af atvinnutækifærum í ferðaþjónustunni á Íslandi og þar með talið á Reykjanesinu því við skulum ekki gleyma því að Reykjanesið er það fyrsta sem ferðamaðurinn sér þegar hann kemur til landsins. Einnig það síðasta sem hann sér þegar hann yfirgefur landið.“